Byggingár og nokkrir íbúar
Húsið við Þingholtsstræti 24 er byggt árið 1905 af málurunum Jóni Reykdal og Kristjáni Möller. Húsið er s.k. kataloghús, byggt í íslenskum Sveitserstíl, þ.e. járnklætt með “fínum trésmíðafrágangi”. Jón og Kristján selja Jens B. Waage eignina árið 1906 sem aftur selur Pjetri Gunnarssyni húsið árið 1911.
Vitað er að Reinhold Andersson klæðskeri kaupir húsið af Pjetri árið 1916. Barnabörn Reinholds áttu síðar húsið milli 1969 og 1977. (Úr Einkaskjalasafni nr. 1 frá Borgarskjalasafni).
“Árið 1902 keyptu málararnir Jón Reykdal og Kristján Möller lóð úr Miðvelli af Sveini Jónssyni. Þeir hófu byggingu húss á lóðinni árið 1905 og luku byggingu þess sama ár. Salerni var byggð á lóð hússins árið 1909. Að sögn Sveins Þórissonar sem nú býr í húsinu var húsið keypt tilsniðið frá Noregi og er eitt af hinum svokölluðu “Katalog” húsum. Málararnir tveir sem reistu húsið bjuggu aldrei í því heldur seldu það fullbúið Jens B. Waage sem þá var bankafulltrúi, hann varð seinna bankastjóri í landsbanka. Jens var þekktur leikari og var um tíma formaður Leikfélags Reykjavíkur. Hann var farið Indriða Waage og afi Hákonar Waage.” (Úr greininni Göfug götumynd, Morgunblaðinu 28. okt. 1997). Myndin hér fyrir neðan sýnir þessa fyrstu fjölskyldu sem bjó í húsinu.
Húsið hefur verið mikið gert upp og reynt að halda upprunalegu útliti þess. Til þess hafa m.a. fengist styrkir frá Húsafriðunarnefnd og Húsverndarstjóði. Um endurbæturnar má lesa í sömu grein og vitnað er til hér að ofan (Göfug götumynd, úr Mbl. frá 28. október 1997). Húsið varð fyrir tjóni, aðallega þó vatnstjóni í brunanum í Þingholtsstræti árið 1910 og við endurbætur mátti enn greina sót á einni hlið þess.
Húsið í dagblöðum liðinna tíma
- 1906: Fæði fæst í Þingholtsstræti 24 (augl.)
- 1907: Við undirskrifaðar tökum að okkur alls konar kjólasaum og barnaföt. Þingholtsstræti 24. Katrín Guðbrandsdóttir. Guðfinna Einarsdóttir (augl.)
- 1916: Í október næstkomandi vantar mig 4 herbergi ásamt eldhúsi. Tilboð sendist undirrituðum hið bráðasta. Kjartan Thors, Þingholtsstræti 24 (augl.)
- 1917: Stúlka óskast á fáment heimili í vetur. Uppl. í Þingholtsstræti 24 uppi frá 5-7 e. m. (augl.)
- 1922: Undirrituð veitir tilsögn í hannyrðum. Sömuleiðis teikna ég á. Nýir og fallegir uppdrættir. Jóhanna Andersen, Þingholtsstræti 24, uppi (augl.)
- 1922: Góð stúlka, vön húsverkum, óskast í vist strax. Þingholtsstræti 24. Loftur Guðmundsson (augl.)
- 1922: Stúlka, vön hreingerningum, óskast fyrir mánaðamót. Uppí. Þingholtsstræti 24, niðri (augl.)
- 1923: Nýkomið: Áteiknaðar vörur, svo sem : ljósadúkar, löberar, púðar, kaffidúkar, handklæði. Fjölbreytt úrval. Alt mjög ódýrt. Jóhanna Andersson, Þingholtsstræti 24 (augl.)
- 1923: Stofa með forstofuinngangi til leigu í Þingholtsstræti 24, til sýnis eftir kl. 6 (augl.)
- 1925: Jón Ólason kaupmaður andaðist í gær að heimili sínu, Þingholtsstræti 24, hjer í bænum, eftir stutta legu. Banamein hans var lungnabóla. Jón heitinn var einn af eigendum Skóbúðar Reykjavíkur, ungur maður, duglegur og drengnr hinn besti (grein)
- 1926: Kenni pianospil Hefi stundað nám í 3 ár við Konunglega Hljómlistarskólann í Kaupmannahöfn. Elin Andersson, Þingholtsstræti 24, uppi (augl.) – Auglýsir alveg til 1939.
- 1927: Peysuföt og upphlutir saumað, einnig vent karlmannsfatnaði. – Þingholtsstræti 24, niðri (augl.)
- 1929: Námskeið í Dennison’s handavinnu hefst í þessari viku. Umsóknir sendist í dag og á morgun til frk.Lilieqvist Þingholtsstræti 24. Lítið á sýningu á handavinnu í verslun Ingibjargar Johnson (augl.)
- 1929: Lokuð bifreið 5 manna, lítið notuð til sölu með tækifærisverði. Upplýsingar gefur Þorkell Þorleifsson, Þingholtsstræti 24. Heima eftir kl. 6 (augl.)
- 1930: Stúlka um fermingaraldur óskast til hjálpar við hæg innanhússtörf. Þrír fullorðnir í heimili. Uppl. næstu daga í Þingholtsstræti 24, niðri, til kl. 9 eftir hádegi (augl.)
- 1933: Sendi tilbúinn mat heim til fólks, fleiri eða færri rétti. Afgreiði einnig með stuttum fyrirvara smurt brauð og alLskonar ábætisrétti (deserta). Vel til búinn matur með lægsta verði. Theódóra Sveinsdóttir. Þingholtsstræti 24. Simi: 4293 (augl.)
- 1934: Matreiðslunámskeið verður haldið að Reykholti fra 10-31. maí n.k….. Forstöðukona verður frú Theodóra Sveindóttir, Þingholtsstræti 24, Reykjavík [augl.]
- 1936: Næturlæknir er í nótt Kristján Grímsson, Þingholtsstræti 24, sími 4223 (augl.)
- 1937: Höfum til ódýrt úrval af blússum og pilsum. Sömuleiðis drengjafrakka, á 12-14 ára. Saumastofan Þingholtsstræti 24 (augl.)
- 1937: Saumastofu hafa undirritaðar opnað í Þingholtsstræti 24. Saumum allskonar kven- og barnafatnað. María Einarsdóttir. Sigríður Bergmann (augl.)
- 1939: Kenni sem undanfarið, sérgrein íslenska; kenni einnig venjulegar skólaundirbúningsgreinar. Jóhann Sveinsson, cand. mag. Þingholtsstræti 24. Heima 8-9 síðd. Sími 4223. – 1374 (augl.)
- 1940: Kenni íslensku, dönsku, ensku, þýsku, frönsku. Les með skólafólki. Gunnar Bergmann, slud. mag., Þingholtsstræti 24, kl. 6-9 siðd. (augl.)
- 1943: María Maack skráð í Þingholtsstræti 24, sími 4015 í auglýsingu um hlutaveltu Kvenfélags óháða safnaðarins (augl.)
- 1945: Gullbrúðkaup eiga á morgun, merkishjónin Gróa og Reinholt Andersen, klæðskeri, Þingholtsstræti 24 (augl.)
- 1946: Tilkynning til bóksala Jeg undirritaður leyfi mjer að tilkynna að jeg hefi umboð fyrir Norska bókaútgáfufjelagið (Den norske Forleggerforening). Ennfremur fyrir norsk vikublöð og tímarit, og get jeg því útvegað allar norskar bækur og blöð. Gunnar Akselson, sími 5968, Þingholtsstræti 24, Reykjavík (augl.)
- 1957: Minningarorð – Elínborg Pjetursdóttir Hall. “Þá fluttist hún til Reykjavíkur og tók að reka mat sölu í Þingholtsstræti 24 í fjelagi við mágkonu sína frú Lovísu Hall, ekkju Óla Ásmundssonar verslunarstjóra á ísafirði.” (Minningargrein)
- 1958: Nýkomið Ullar-ísaumsgarn, Harðangursjafi, Bómullarjafi, Odýrir dúkar. Tökum áteikningar. Hannyrðaverzlun Jóhönnu Anderson, Þingholtsstræti 24 (augl.) – Auglýsir allt til 1971.
- 1962: Úr gömlum blöðum Guðrúnar Jóhannsdóttur frá Ásláksstöðum: Það var skömmu eftir aldamótin að ég dvaldist vetrarlangt við nám í Keykjavík. Var ég til húsa hjá frú Elínborgu Hall og mágkonu hennar, frú Luise. Þær voru báðar ekkjur og höfðu matsölu í Þingholtsstræti 24 (augl.
- 1978: Kaupum notaðar hljómplötur. Tónaval sf. Þingholtsstræti 24 (augl.)
- 1979: Hef flutt snyrtistofu mína frá Tómasarhaga 31 aö Þingholtsstræti 24. Sími 14910 eða 16010 Ásta Halldórsdóttir, snyrtifræðingur (augl.)
- 1982: Fótaaðgerðir Hef opnað fótaaðgerðarstofu í Þingholtsstræti 24. Tímapantanir í síma 15352. Erla S. Óskarsdóttir (augl.)
- 1984: Víxlar – skuldabréf. Önnumst kaup og sölu víxla og skuldabréfa. Verðbréfamarkaðurinn Ísey. Þingholtsstræti 24 (augl.)
- 1989: Innheimtur sf, Þingholtsstræti 24 (augl.)
- 1997: “Göfug götumynd” – Allsherjar grein um endurbætur á Þingholtsstræti 24. Myndin hér fyrir neðan úr greininni sýnir húsið ca. 1983, þ.e. fjórtán árum áður en greinin birtist.
var _gaq = _gaq || []; _gaq.push(['_setAccount', 'UA-38855006-1']); _gaq.push(['_trackPageview']);
(function() { var ga = document.createElement('script'); ga.type = 'text/javascript'; ga.async = true; ga.src = ('https:' == document.location.protocol ? 'https://ssl' : 'http://www') + '.google-analytics.com/ga.js'; var s = document.getElementsByTagName('script')[0]; s.parentNode.insertBefore(ga, s); })();