Bygging núverandi húss

Bak við húsið Grundarstíg 15 sem stendur alveg við Grundarstíginn, leynist bakhús, Grundarstígur 15B, sem kallað hefur verið Sílóam. Skv. fasteignaskrá er húsið byggt 1907 og verður að telja að í þetta skiptið sé það rétt.


Fróðleiksmolar

Í grein Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings  Úr sögu Grundarstígs: Frá Kapteins-Gunnu til Thorsbræðra  frá 1990 má sjá þetta:

„Bak við húsið númer 15 er einlyft timburhús, vel falið frá götunni og þetta hús ber það sérkennilega nafn Sílóam. Það var vígt sem trúboðshús árið 1907 og trúboðinn var Samúel Ó. Johnson frá Krossi í Mjóafirði. Seinna bjuggu ýmsir frægir menn í Sílóam og Hannes Sigfússon rithöfundur var þar um skeið sem barn.“

Guðjón tekur einnig fram í sömu grein að í húsinu hafi búið séra Árni Þórarinsson ásamt fjölskyldu og einnig skáldið Einar Benediktsson um tíma, sem þar ku hafa fengið inni hjá systur sinni, Kristínu, í pínulitlu herbergi.

Önnur grein úr Morgunblaðinu frá 2001 segir frá því að séra Árni fluttist í Sílóam árið 1934 og mikil vinátta tókst á milli fjölskyldnanna í húsunum nr. 15 (Ríkarður Jónsson og fjölskylda) og 15B (grein). Ríkarður gerði brjóstmynd af séra Árna og í greininni er því lýst þegar afkomendur Ríkarðs afhentu brjóstmyndina íbúum í Kolbeinsstaða- og Fáskrúðsbakkasókn á Snæfellsnesi.


Starfsemi og viðburðir í húsinu í gegnum tíðina

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1907: Auglýsing um jólaguðsþjónustur í samkomuhúsinu Sílóam (augl.) –  Einnig auglýst næstu árin.
  • 1910: Samkomur.  Sunnudag kl. 6,30 síðd. í Sílóam. Inngangur frá Bergstaðastræti. David Östlund (augl.) – Auglýst reglulega fram á árið 1914.
  • 1911: Skilnaðarsamkomu heldur undirritaður í Sílóam sunnudagskvöldið 3. sept. kl. 6L/., siðd. Allir velkomnir. SAM. O. JOHNSSON (augl.)
  • 1912: Biblíufyrirlestrar. Fyrsti söfnuður s. d. adventista hefur leigt samkomuhúsið Sílóam við Grundarstíg til næstu tveggja ára. Opinberir biblíufyrirlestrar hefjast þar fyrsta sunnudag í okt. kl. 6 ½ síðd. (augl.)
  • 1916: Landsbankinn selur 26. f. m. Jóhannesi Magnússyni húseignina »Sílóam« við Grundarstíg (tilkynning)
  • 1923: Eg undirrituð sauma kjóla, kápur, dragtir. Valgerður Jónsdóttir, Grundarstíg 15B (augl.)
  • 1922: Hefi góða vörubifreið til leigu í lengri eða skemri ferðalög. Sanngjarnt verð. Guðm. S. Guðmundsson, Grundarstíg 15 B, sími 971(augl.) http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1124314
  • 1925: Eg kenni börnum innan skólaskyldualdurs. Uppl. á Grundarstíg 15 B. Björney Hallgrímsdóttir (augl.)
  • 1927: Á Grundarstíg 15 B, geta stúlkur fengið tilsögn í allskonar saumaskap á kveldin. María Einarsdóttir (augl.)
  • 1928:  Kensla í guitar og píanóspili. Hljóðfæri til æfinga. Kristín Benediktsdóttir, Grundarstíg 15 B (augl.) – Þetta er væntanlega systir Einars Benediktssonar skálds. Hún auglýsir endrum og eins til ársins 1930.
  • 1935: Slökkviliðið var kvatt í gær að Grundarstíg 15 B. Var þar verið að bræða tólk [tólg?] í potti, en eldur hafði hlaupið í tólkinn. Þegar slökkviliðið kom á vettvang, hafði heimafólki tekist að kæfa eldinn, og olli hann ekki neinu tjóni (frétt)
  • 1950: N.L.F.Í. hefur verið dæmt til að greiða skaðabætur  fyrir útrýmingu á veggjalús í húsinu Grundarstíg 15 (bakhúsinu), sem það seldi nýlega. Málinu hefur Verið áfrýjað tií hæstaréttar (frétt)
  • 1953: Frásögn í Lesbók Mbl. af Sumarliða Betúelssyni sem þá býr í á Grundarstíg 15B og minnst á löngu gleymt nafn hússins, Sílóam. Í greininni birtist teikning af Sumarliða eftir Ríkarð Jónsson (grein)
  • 1958: Spái í spil og bolla. Er við mánudaga, miðvikudaga og laugardaga. Grundarstíg 15 B (augl.)
  • 1970: Minnst á bænahúsið Sílóam í grein sem Ríkarður Jónsson skrifaði um meistara sinn Stefán Eiríksson myndskera en Ríkarður lauk fyrstur manna námi hjá honum (grein)