Í janúar síðastliðnum kom út á ensku bókin WHERE MEMORIES GO – WHY DEMENTIA CHANGES EVERYTHING eftir Sally Magnusson. Þar lýsir höfundur þrautagöngu fjölskyldu sinnar í glímunni við Alzheimer, en móðir hennar veiktist af þeim illræmda sjúkdómi. Hannesarholt bauð Sally til Íslands til að segja frá tilurð bókarinnar.

Sally Magnusson hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir blaðamennsku og útvarpsþáttagerð og
starfað sem fréttaþulur hjá BBC í mörg ár. Hún er dóttir hinnar vinsælu blaðakonu Mamie Baird og íslenska sjónvarpsmannsins góðkunna, Magnúsar Magnusson, sem flutti barnungur til Skotlands en hélt ævarandi tryggð við heimahagana.

Um bókina segir Sally: „Þessi bók átti upphaflega að vera tilraun til að varðveita minningar um móður mína og hennar einstöku hnyttni og frásagnargáfu. Til þess hafði ég aðeins eitt – orðin hennar, samtöl okkar og samskipti. Síðar í ferlinu, þegar kom í ljós hve fyrirferðarmikið þetta félagslega fyrirbæri er sem við fjölskyldan flæktumst smám saman í, fór ég að skrásetja með því hugarfari að þessi saga gæti vonandi dregið aðrar svipaðar ævisögur fram í dagsljósið ásamt spurningunum sem hún vekti.

Heilabilun er ein mesta samfélagslega, læknisfræðilega, efnahagslega, vísindalega og siðferðilega áskorun okkar tíma.
Ég er fréttamaður. Þetta varð ein stærsta saga lífs míns.“

Bókin hefur nú komið út á íslensku hjá Sölku Bókaforlagi, í þýðingu Ragnheiðar Margrétar Guðmundsdóttur og nefnist: Handan minninga.