Páll Skúlason prófessor og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands lést í Reykjavík 22.apríl síðastliðinn. Páll lagði drjúgan skerf að mótun hugmynda um framtíðarhlutverk og skipan Hannesarholts. Aðstandendur Hannesarholts deildu þeirri framtíðarsýn með honum að skapa mannvænna og réttlátara samfélag á Íslandi. Einkunnarorð Hannesarholts um “að efla jákvæða, gagnrýna hugsun í íslensku samfélagi, auka skilning á gildi sögunnar fyrir samtímann og framtíðina og hvetja til uppbyggilegrar umræðu og samveru” voru mótuð í samtali við Pál og undir hans handleiðslu. Áhrifa Páls í áframhaldandi uppbyggingu Hannesarholts hefur ætíð gætt; hann var fulltrúi í menningarráði Hannesarholts og lagði grunninn að farsælu samstarfi Hannesarholts og Siðfræðistofunar Háskóla Íslands. Við þökkum Páli samfylgdina og vottum Auði, börnum hans og fjölskyldu samúð okkar.