Gerrit Schuil píanóleikari og tónlistarmaður lést í Reykjavík 18.september 2019. Gerrit vann ómetanlegt tónlistarstarf á Íslandi síðustu áratugi og lágu spor hans víða um í íslensku tónlistarlífi. Hann hélt fjölda tónleika í Hannesarholti á síðastliðnum árum, stóð meðal annars fyrir röð ljóðatónleika með einvalaliði einsöngvara veturinn 2014-15.

Í mars síðastliðnum héldu Gerrit og Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og fyrrum konsertmeistari styrktartónleika í Hannesarholti, til stuðnings menningarstarfi Hannesarholts. Tónleikarnir báru yfirskriftina Mozart Meditation, og var efnisskráin samansett af sumum fegurstu sónötuþáttum og öðrum verkum Mozarts fyrir píanó og fiðlu. Þarf ekki að spyrja að stundinni sem gestum hlotnaðist sem voru svo lánsamir að njóta.

Hannesarholt þakkar Gerrit Schuil fyrir samfylgdina og allt það sem hann lagði af mörkum til menningarlífs á Íslandi og í Hannesarholti. Ástvinum hans eru sendar samúðarkveðjur.