Byggingarár og fyrstu íbúar

Þetta fallega hús er byggt árið 1911 skv. fasteignaskrá og öðrum heimildum. Það voru skáldið Þorsteinn Erlingsson og Guðrún Jónsdóttir kona hans, sem áttu húsið frá byrjun en leigðu gjarnan út eitt eða fleiri herbergi til að létta sér lífsbaráttuna. Það var Sigurður bróðir Guðrúnar sem byggði húsið skv. upplýsingum frá barnabarni þeirra, Þorsteini Sæmundssyni.

Einn af leigjendum þeirra var Þórbergur Þórðarson eins og fram kemur í skemmtilegri grein Í  Fátækralandi frá 2007, sem tengist útgáfu bókar eftir Pétur Gunnarsson. Líklega bjó Þórbergur í Þingholtsstræti 33 árin 1913 – 1914.

Þorsteinn lést árið 1914 en Guðrún lifði mann sinn og varð háöldruð, lést árið 1960 og bjó allan þann tíma í húsinu að Þingholtsstræti 33.

Ýmsar upplýsingar má einnig finna í æviminningum Erlings Þorsteinssonar sem út komu árið 1990.

Í greininni Á göngu með Guðjóni úr Helgarpóstinum 1988 segir:

Þá stöndum við fyrir framan síðasta húsið sem Guðjón ætlar að segja okkur frá við Þingholtsstrætið. Það er númer 33 og Guðjón segir það einkum merkilegt fyrir þær sakir að í þessu húsi hafi búið Þorsteinn Erlingsson skáld. „Þetta hús var byggt árið 1911 og er meðal fyrstu steinsteypuhúsa í borginni. Eftir lát Þorsteins bjó ekkja hans lengi hér og hingað komu til hennar listamenn og listavinir, meðal annarra Halldór Laxness og Ragnar í Smára. Þorsteinn hafði skrifstofu hérna við anddyrið og ekkja hans lét það herbergi alveg óhreyft eftir lát hans. Hún lifði lengi, en nú er auðvitað búið að breyta húsinu.“

Í útvarpsþættinum Flakk með Lísu Páls þ. 29. 9. 2007 er rætt um Þingholtin við Pétur Ármannsson arkitekt sem segir:

Hús nr. 33 mjög fallegt. Það reisti Þorsteinn Erlingsson skáld og bjó hér síðustu árin sín. Mikil bæjarprýði eftir umbætur. Eitt af skáldahúsum Reykjavíkur. „

Húsið í dagblöðum liðinna tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

 • 1912: Hannyrðakensla eins og að undanförnu, áteiknanir allskonar hjá Guðrúnu Jónsdóttur Þingholtsstræti 33 (hús Þorsteins Erlingssonar) – (augl.) Þessa auglýsingu má sjá af og til allt til 1929 í mismunandi útfærslum.
 • 1912: Íslenska. 1 eða 2 piltar geta fengið tilsögn í íslensku hjá Þorsteini Erlingssyni, Þingholtsstræti 33 (augl.)
 • 1913: Stúlka, vön húsverkum óskast um tíma í Þingholtsstræti 33. Hús Þorst. Erlingssonar. Gott kaup (augl.)
 • 1913: Bróderaðar gjafir til jólanna: Blaðabönd, Skrifmöppur og fleira, allt ódýrt í Þingholtsstræti 33 (augl.)
 • 1913: Herbergi með forstofuinngangi er til leigu í húsi Þorsteins Erlingssonar í Þingholtsstræti 33 (augl.)
 • 1913: Til sölu. Pottur stór fyrir slátur o.fl. Blikkbali. Brúðuvagn. Alt með lágu verði í Þingholtsstræti 33 (augl.)
 • 1914: Úr Fréttablaðinu 29. september. Þorsteinn Erlingsson skáld andaðist úr lungnabólgn að heimili sínu í Reykjavík kl. 10 í gærmorgun, eftir stutta legu. Hans verður nánar minst fljótlega (tilkynning)
 • 1914: Jarðarför Þorsteins Erlingssonar fór fram í gær. Veður var óvenju fagurt. Kl. 11 fóru menn að streyma að húsinu og fyltist það á svipstundu (frétt)
 • 1915: Lítið herbergi með húsgögnum til leigu i Þingholtsstræti 33 (augl.)
 • 1915: Góð ung kýr, mjólkandi, helst jólbær, óskast til kaups nú þegar. Uppl. í Þingholtsstræti 33 (augl.)
 • 1915: „Falleg og hlý orð að heiman.“ Þakkarbréf Guðrúnar Jónsdóttur, konu Þorsteins Erlingssonar, til Heimskringlu (bréf)
 • 1918: Nokkur blóm til sölu í Þingholtsstræti 33 (augl.)
 • 1919: Góð stúlka óskast í vist. Getur fengið tilsögn i útsaum. Guðrún , Þingholtsstræti 33 (augl.)
 • 1920: í Þingholtsstræti 33 eru saumaðar peysufatakápur, upphlutsskyrtur o. fl. (augl.)
 • 1921: Með tækifærisverði fæst rúmstæði, servantur, kommóða -og skrifborð, alt nýsmíðað. Uppl. Þingholtsstræti 33, kjallaranum (augl.)
 • 1923: Alls konar tréhúsgögn úr furu, eik, mahogni ódýrast. Trésmíðavinnustofan Þingholtsstræti 33.  (augl.)
 • 1923: Allskonar tréhúsgögn fást vönduðust og ódýrust hjá Jóhannesi ]óhannessyni Þingholtsstræti 33 (kjallara). Einnig gerðir uppdrættir af alls konar húsum, stigum, turnum, valmaþökum, hengiverkum og hvelfingum (augl.)
 • 1924: Smíðuð húsgögn og gert við gömul, ódýrt. Þingholtsstræti 33 (augl.)
 • 1924: Stúlka óskast i vist, getur fengið að læra eitthvað, seinni part vetrar. Uppl.  Þingholtsstræti 33 (augl.)
 • 1924: Tilkynning um nýja bók eftir „Huldu“ sem m.a. hægt er að panta hjá frú Guðrúnu Erlingsson, Þingholtsstræti 33 (tilkynning)
 • 1925: Ljóðmæli systranna Herdísar og Ólínu, nokkur eintök í bandi, fást í Þingholtsstræti 33 (augl.)
 • 1925: „Eiðurinn’, önnur útgáfa af honum, frábærlega vönduð og smekkleg, fæst í Þingholtsstræti 33. Hann er tilvalin jólabók. fyrir sakir efnis og þess höfundar, sem að honum stendur (augl.)
 • 1926: Kenslu í frönsku veiti jeg undirrituð. Svanhildur Þorsteinsdóttir. Þingholtsstræti 33 (augl.) – svipaðar auglýsingar birtast allt til 1930 en Svanhildur var dóttir Þorsteins skálds.
 • 1926: Gull og silfurvír ódýrastur og bestur í bænum , Þingholtsstræti 33. Keflið á 3.30. – Paliettur 35 aura (augl.)
 • 1927: Dropar, hið nýútkomna jólahefti, fæst hjá öllum bóksölum og hjá útgefandanum í Þingholtsstræti 33 (augl.)
 • 1927: 2 sólrík herbergi með sérinngangi til leigu fyrir einhleypa menn í Þingholtsstræti 33. Sími 1955 (augl.)
 • 1932: Í Þingholtsstræti 33 er allskonar karlmannafatnaður og kvenkápur tekið til viðgerðar (augl.)
 • 1932: Reynið viðskiftin við Pressunar- og viðgerða-vinnustofuna í Þingholtsstræti 33 (augl.)
 • 1933: Kenni byrjendum að leika á orgel-harmonium og piano. Til viðtals í Þingholtsstræti 33 kl. 5- 7 síðdegis. Guðríður Pálsdóttir (augl.)
 • 1933: Bruggun fann lögreglan nýlega í kjallara hússins Þingholtsstræti 33. Er hún sneri sjer til húsráðanda vissi hann ekki hver leigt hafði kjallarapláss það. sem bruggað hafði verið í, en leigjandinn Ijet ekki sjá sig (frétt)
 • 1935: Ódýrt og ágætt trésmíðaverkstæði til leigu í Þingholtsstræti 33. Sími 1955 (augl.)
 • 1939: Skáldið og heimilisfaðirinn Þorsteinn Erlingsson. Frásögn frú Guðrúnar J. Erlings (grein)
 • 1943: Þyrnar Þorsteins Erlingssonar í nýrri útgáfu. „Það var unaðslegt forðum að koma inn til skáldsins, hérna við Þingholtsstræti 33, njóta þar kennslu og hlusta á fróðleik og fjöruga ræðu. Listin sat í öndvegi á heimili Þorsteins, innra og ytra.“ Eftir Hallgrím Jónsson (grein).
 • 1943: Nýtt viðtæki 8 lampa, með öllum bylgjum, til sölu í kvöld kl. i Þingholtsstræti 33 (2. bakdyr) – (augl.)
 • 1945: Þingholtsstræti 33. Ennþá er mér ríkur í minni kafli úr minningargrein um látið skáld, sem ég las, þegar ég var smástrákur…. Eftir E. Br. (grein) – Skemmtileg hugleiðing um andrúmsloftið í húsinu nr. 33.
 • 1946: Helgidagslæknir er Erlingur Þorsteinsson, Þingholtsstræti 33, sími 1955 (augl.) – Erlingur var sonur Þorsteins skálds og Guðrúnar.
 • 1948: „Dr. Viggo Zadig fyrverandi háskólakennari frá Málmey, var meðal farþega er komu með Drotningunni síðast. Hann er hingað kominn i boði nokkurra vina sinna, ætlar að vera hjer á landi fram um miðjan ágúst. Meðan hann dvelur hjer í bænum, verður hann á heimili frú Guðrúnar Erlings i Þingholtsstræti 33 (tilkynning)
 • 1950: „Litli dýravinurinn“, grein eftir Ríkarð Jónsson. „Um bæinn sinn (hús skáldsins) í Þingholtsstræti 33, hefir hún kosið sjer og myndað fegurri lífvörð en nokkur konungur, yndislegasta lífvörð á jörðu, eru það fuglar himinsins, sem hún með frábærri umhyggju og alúð hefir hænt að sér og fæðir úr lófa sínum hverjan dag.“ (Grein).
 • 1958: Á aldarafmæli Þorsteins Erlingssonar (grein):  „Guðrún lifir enn í hárri elli og hefur alla tið búið i húsi þeirra í Þingholtsstræti 33. Þar e; skrifstofa Þorsteins enn með sömu ummerkjum og þá er hann gekk út úr henni í síðasta sinn. Stafurinn hans stendur innan við dyrnar, nafnskiltið hans prýðir hurðina. Og gluggarnir á skrifstofunni eru blómsælustu gluggar um gjörvöll Þingholt“. (frh. greinar)
 • 1960: Frú Guðrún J. Erlings. Dáin 1. maí 1960. (Minningarorð)
 • 1961: Fíladelfíusöfnuðurinn virðist hafa útibú að Þingholtsstræti 33 (grein)
 • 1961: „Listin þarf að komast til fólksins“. Viðtal við Ragnar í Smára þar sem hann minnist m.a. á Guðrúnu Erlingsson og Þingholtsstræti 33.  „Á heimili Guðrúnar Erlings var mikið leikið á hljóðfæri, rætt um bók menntir af mikJum hita, trúmál, heimspeki og stjóramál. Eg efast um, að nokkur háskóli hafi haft upp á meiri og fjölbreyttari menningaráhrif að bjóða’, en heimili Guðrúnar Erlings í Þingholtsstræti 33, og seinna meir annað heimili, heimili Erlendar í Unuhúsi.“ (Viðtal).
 • 1966: Minningarorð um Eirík Þ. Stefánsson prófast eftir R.J. (líklega Ríkharð Jónsson). „Hjónunum séra Eiríki og Sigurlaugu á Torfastöðum kynntist ég fyrst u m 1920, og eins og mörgum öðrum minna tryggustu vina, hjá frá Guðrúnu Erlings í Þingholtsstræti 38. Frú Guðrún átti margt góðvina í sveitum landsins, fólk sem talaði af ástúð og tilfinningu um bókmenntir og aðrar listir.“ (Minningarorð)
 • 1966: Minningarorð um Svanhildi Þorsteinsdóttur, dóttur Þorsteins Erlingssonar, sem ólst upp í Þingholtsstræti 33 (minningarorð)
 • 1971: Maren. Þjóðlífsþættir eftir Þórunni Elfu Magnúsdóttur, þar sem er mikið fjallað um fjölskylduna í Þingholtsstræti 33 (grein)
 • 1971: Sextugur: Erlingur Þorsteinsson, læknir (sonur Þorsteins Erlingssonar og Guðrúnar Jónsdóttur). Mikið fjallað um heimilið að Þingholtsstræti 33 (grein).
 • 1978: “ Um ríki þitt allt átti vorið sín völd “ Aldarminning um Guðrúnu Jónsdóttur Erlings  eftir Guðmund Gíslason Hagalín og Jón Auðuns (grein)
 • 2007: „Í Fátækralandi“. Úr þriðja kafla nýrrar bókar eftir Pétur Gunnarsson um þroskasögu Þórbergs Þórðarsonar. „Eftir nokkra leit býðst honum lítil þakherbergiskompa í Þingholtsstræti 33, nýlegu húsi Þorsteins Erlingssonar skálds. Þangað flytur hann með pjönkur sínar: rúm, stól, borð – allt fengið að láni – og svo forláta kopp sem frú Hólmfríður hafði skenkt honum að skilnaði, gamlan ættargrip.“ (Grein).