Bygging núverandi húss

Núverandi hús við Grundarstíg 8 er byggt árið 1920 skv. fasteignaskrá. Á myndinni sést Grundarstígur 8 en einnig hluti af nr. 6 og 4.


Fróðleiksmolar

Í húsinu bjuggu á þriðja áratugnum Einar Markússon og Kristín Árnadóttir ásamt börnum sínum en kunnust þeirra eru án efa söngvararnir María og Einar Markan. Guðjón Friðriksson segir í grein sinni um Grundarstígsbæina (1990) að þegar Guðmunda Elísdóttir var 10 ára gömul hafi hún verið gestkomandi í húsinu. Við það tækifæri heyrði hún Maríu æfa sig á neðri hæðinni og var það í fyrsta sinn sem Guðmunda heyrði svona merkileg hljóð. Hver veit nema grunnurinn hafi þar með verið lagður að framtíð Guðmundu sjálfrar!

Annar þekktur Íslendingur, Elías Mar rithöfundur, bjó um skeið ásamt ömmu sinni í kvistherbergi á Grundarstíg 8 en móður sína hafði hann misst mjög ungur.

Á þriðja og fjórða áratug 20. aldar var afar algengt að sjá auglýst eitt eða fleiri herbergi til leigu á Grundarstíg 8, jafnvel íbúðir og það sama gildir í raun um fjölmörg hús á Grundarstígnum fyrstu áratugi aldarinnar.


Starfsemi í húsinu í gegnum tíðina

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

 • 1920: Einar Markússon auglýsir eitt herbergi til íbúðar og tvö kjallaraherbergi, hentug fyrir vörugeymslu eða verkstæði (augl.) – Aðeins
 • ein auglýsing af mörgum slíkum sem á eftir koma næstu árin.
 • 1921: Nokkrir menn geta fengið gott og ódýrt fæði á Grundarstíg 8 uppi (augl.)
 • 1921: Píanókennsla fyrir byrjendur (augl.)
 • 1921: Einar Markússon, Grundarstíg8, (sími 1017), annast kaup og sölu fasteigna, endurskoðun reikninga og verslunarbóka, samningagerðir allskonar og skriftir á útsvarskærum. Sanngjörn ómakslaun. Heima frá 5—7 síðd. (augl.)
 • 1921: Talsvert af battings plönkum til sölu ódýrt á Grundarstíg 8. Uppl. milli kl. 5—7 síðd. (augl.)
 • 1921: Í kjallaranum á Grundarstíg 8 er tekinn til sauma alls konar kven- og barnafatnaður. einnig lopi til spuna (augl.)
 • 1921:  Undirritaður kennir ensku og dönsku. — Markús Einarsson, Grundarstíg 8, heima frá 6—8 síðd. (augl.)
 • 1921: Viðgerðir á innanhúsmunum og smíðar á rúmum, kómmóðum, skápum o.fl. tekur undirritaður að sér. – Sanngjarnt verð. D. Björnsson, Grundarstíg 8 uppi (augl.)
 • 1921: Hér er auglýsir líklega ein ástsælasta söngkona Íslendinga sem síðar varð (áður en hún kallaði sig „Markan“: Nokkur börn og unglingar geta fengið ódýra kenslu í píanóspili hjá Maríu Einarsdóttur, Grundarstíg 8 niðri (augl.)
 • 1922 – 1924:  Dívanar til sölu; einnig teknir til viðgerðar. Áhersla lögð á vandaða vinnu. Grundarstíg 8 (augl.)
 • 1922: Til sölu: 3 rúm , 2 klæðaskápar, servantur, stórt gólfteppi og ferðatöskur, smáar og stórar afar ódýrar. Húsgagnaverkstæðið Grundarstíg 8. — Kristján Kristjánsson (augl.) Hann auglýsir einnig 1923.
 • 1923: Á Grundarstíg 8 hefur verið saumastofa því nú eru auglýstir flutningar á henni af Grundarstíg 8 og á Grettisgötu 2 (augl.)
 • 1923: Munið eftir hvar þið getið fengið klædd og stoppuð húsgögn, sem áhersla er lögð á vandaða og ódýra vinnu. — Grundarstíg 8 (augl.)
 • 1923: Vandaður kvensöðull og línstrokuborð (Strygebræt) til sölu með tækifærisverði á Grundarstíg 8, niðri (augl.)
 • 1923: Önnur saumastofa virðist hafa tekið til starfa eftir að hin fór (eða verið fyrir?) því haldið er áfram að auglýsa sauma: Á Grundarstíg 8, eru saumuð peysuföt, upphlutir, og ýmislegur léreftasaumur (augl.)
 • 1924: Hér er væntanlega komin frænka Hannesar Hafsteins: Undirrituð hefir besta prjonagarn í öllum litum, til sölu. — Enn fremur tek eg allskonar garn  til prjóna. JOHANNE HAVSTEEN, Grundarstíg 8 (augl.)
 • 1924: Geri við ofna og eldavélar. Til viðtals eftir kl. 8 síðd. Guðmundur Ólafsson, Grundarstíg 8 (augl.)
 • 1925: Þið, sem þurfið að láta þvo loft og láta mála fyrir krossmessu, ættuð að  finna mig strax. L. Jörgensen, Grundarstíg. 8 (augl.)
 • 1926: Enn auglýsir María Markan: Píanókenslu byrja eg aftur I. október. María Einarsdóttir, Grundarstíg 8 (augl.)
 • 1927: Saumastofan Grundarstíg 8, er flutt á Týsgötu 4 (augl.)
 • 1927: Nýja saumastofu hafa þær Dóra Helgadóttir og Dagbjört Halldórsdóttir opnað á Grundarstíg 8 (augl.)
 • 1927: Árni Eiriksson er fluttur á Grundarstíg 8; kennir orgelspil (augl.) – hann auglýsir einnig 1928
 • 1927: Stúlkur geta fengið að læra kjóla- og kápusaum á kveldin á saumastofunni, Grundarstíg 8 (augl.)
 • 1927: Saumaður allskonar kven- og barnafatnaður, með nýtísku sniði. Lág saumalaun. Grundarstíg 8 (augl.)
 • 1927: KAUPSKAPUR:  Danskir, sænskir og norskir silfur og nikkelpeningar, eru keyptir, á Grundarstíg 8, uppi (augl.)
 • 1928: Tek menn í þjónustu, einnig konar tau til strauningar og þvotta. Klara Benediktsdóttir, Grundarstíg 8 (augl.)
 • 1929: ORGEL, lítið notað, með 3-földum hljóðum og 13 registrum, til sölu nú þegar. — Verð 575 kr. Grundarstíg 8, símar: 689 og 1889 (augl.)
 • 1929: Gullsmíðatæki ýmiskonar til sölu afar ódýrt. Grundarstíg 8, neðri hæð (augl.)
 • 1930: Húseignin nr. 8 við Grundarstig fæst, af sérstökum ástæðum, til kaups eða i skiftum fyrir minni húseign, ef um semst. Uppl. hjá Einari Markússyni, Grundarstíg 8 (augl.)
 • 1933: Söngkenslu byrja eg aftur frá 15. þ. m. Til viðtals hvern virkan dag frá kl. 10—11 f. h. og 7—8 e. h. Jóhanna Jóhannsdóttir, Grundarstíg 8. Sími 4399 (augl.) – auglýsir líka árið 1934
 • 1933: Nýmóðins pergament-lampaskermar, handmálaðir. Fyrirliggjandi og saumaðir eftir pöntun á Grundarstíg 8. Verð afar ódýrt. Sími 4399 (augl.)
 • 1935: Stúdent þaulvanur kenslustörfum, tekur að sjer að kenna, og lesa með skólafólki, gegn sanngjörnu verði. Upplýsingar á Grundarstíg 8, uppi (augl.)  – auglýsir líka 1936
 • 1936: Saumastofan Grundarstíg 8, sími 4399. Saumum kjóla, kápur, dragtir, drengjaföt, frakka, og allan léreftasaum. Vönduð vinna. Fljót afgreiðsla. Helga Jónsdóttir (augl.)
 • 1938: Tek að mér að stykkja karlmannsfatnað. Sanngjörn vinnulaun. Valgerður Jónsdóttir, Grundarstíg 8, III. hæð (augl.)
 • 1938: BYRJA matsölu mína aftur 1. október á Grundarstíg 8 (áður Hverfisgötu 16 ). Hentugt fyrir verslunarskólafólk. Uppl. í sima 3537. Viktoria Guðmundsd. (augl.)
 • 1942: AMERÍSKT LEKSIKON fyrir húsbyggingamenn til sölu kl. 2—6 í dag, Grundarstíg 8 (augl.)