Önnur heimili Hannesar Hafstein

Hannes Hafstein kom víða við á viðburðaríkri ævi sinni og bjó á mörgum stöðum. Smelltu hér til að sjá staðina merkta inn á kort.

Mynd af Möðruvallakirkju

Möðruvellir í Hörgárdal
1861 – Hannes fæðist að Möðruvöllum í Hörgárdal 4. desember 1861.

Reynisstaður í Skagafirði
1872-3 – Hannes er við nám á Reynisstað í Skagafirði veturinn 1872 og 1873 hjá ömmubróður sínum, Eggerti Briem, sýslumanni.

Lækjargata 8 Reykjavík
1873 – Veturinn 1873-74 býr Hannes hjá hálfsystur sinni, Þórunni, sem er gift Jónasi Jónassen lækni. Þennan vetur stundar hann nám til undirbúnings inntökuprófs við Lærða skólann.

Langaloft
1874-1880 – Hannes Hafstein stundar nám við Lærða skólann í Reykjavík og dvelur þar á heimavist skólans, Langalofti.

Garður, Kaupmannahöfn
1880-84 – Hannes fer til náms í Danmörku og dvelur í fjóra vetur á Garði við Store Kannikestræde, heimavist stúdenta við Kaupmannahafnarháskóla.

Holbergsgade 10, Kaupmannahöfn
1885-6 – Síðasta vetur Hannesar í Kaupmannahöfn leigir hann herbergi við Holbergsgade 10.

Staðarfell í Dölum
1886 – Hannes er settur sýslumaður í Dalasýslu 1. september 1886 og situr á Staðarfelli í Dölum í nokkra mánuði þ.e. fram í desember þegar Páll Briem er skipaður í stöðuna.

Þingholtsstræti 12
1886 – Hannes flytur til Kristjönu móður sinnar í desember 1886 í Þingholtsstræti 12 og hefur aðsetur þar á efri hæð næstu fjögur árin.

Melsteðshús, Rvk
1889 – Hannes kvænist Ragnheiði Melsteð 15. október árið 1889 og búa þau fyrst um sinn hjá foreldrum hennar í Melsteðshúsi við Lækjartorg (rifið 1928).

Þingholtsstræti 11, Rvk
1890 – Hannes og Ragnheiður taka á leigu efri hæðina í Þingholtsstræti 11 (hús Helga snikkara) og flytja þangað líklega í maí 1890.

Mynd frá Kaupmannahöfn
Mynd af Amtmannstíg 1

Smithshús, Amtmannsstíg 1, Rvk
1892 – Veturinn 1892 kaupa Hannes og Ragnheiður Smithshús (sem svo var kallað þá, eftir dönskum kaupmanni, Martin Smith), Amtmannsstíg 1, sem reist var af Stefáni Gunnlaugssyni bæjarfógeta, 1838. Þau fluttu inn vorið 1893 og bjuggu þar til 1896.

Fischershús, Ísafirði
1896 – Hannes er skipaður sýslumaður Ísfirðinga. Þá kaupa hjónin Fischershús á horni Mánagötu og Hafnarstrætis ofarlega á eyrinni, sem gefið var bæjarfélaginu 1894 í því skyni að það yrði gert að sjúkrahúsi. Í Fischershúsi búa þau til ársins 1904.

Ingólfshvoll, Rvk
1904 – Þegar Hannes tekur við embætti fyrsta ráðherra Íslands 1904, flytja hjónin suður
Þau búa fyrst í Ingólfshvoli (á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis) frá vori 1904 til mars 1907. Á neðri hæðinni er Íslandsbanki. Ingólfshvoll brann 1915 í

Ráðherrabústaðurinn, Tjarnargötu 32, Rvk
1907 – Hannes fær nánast gefins húsið Sólbakka við Önundarfjörð (Flateyri) frá vini sínum Hans Ellefsen norskum hvalveiðisforstjóra (geldur fyrir það eina krónu) og 1906 er það tekið niður og flutt til Reykjavíkur. Þar er húsið endurbyggt eftir teikningum/forskrift Rögnvaldar Ólafssonar á Melkotstúni við Tjörnina- Tjarnargata 32 og eftir það kallað Ráðherrabústaðurinn. Hannes og Ragnheiður flytja inn í húsið 26. mars 1907 en síðar er það selt íslenska ríkinu þ. 26. apríl 1909 og þau hjónin flytja út. Árið 1912 flytja þau aftur í Ráðherrabústaðinn, Ragnheiður deyr 1913 og 1914 flytur Hannes úr Ráðherrabústaðnum á ný.

Laugavegur 20B, Rvk
1909 – Hannes lætur af embætti ráðherra og hjónin flytja úr Ráðherrabústaðnum og búa í nokkra mánuði í íbúð Péturs Hjaltested að Laugavegi 20B (á horni Laugavegar og Klapparstígs) í nokkra mánuði frá vori 1909.

Mynd af Ráðherrabúðstaðnum
Mynd af Tjarnargötu 33

Tjarnargata 33, Rvk
1909 – Bygging Tjarnargötu 33 hefst 1909 eftir uppdráttum Rögnvaldar Ólafssonar. Vatnsveitan lögð sama ár og í húsinu er miðstöðvarhitun, baðkar, steypibað og vatnssalerni. Stórt eldhús í kjallara og matarlyfta á efri hæðinni. Þangað flytja Hannes og Ragnheiður síðla árs 1909.

Kirkjustræti 8B, Rvk
1914 – Hannes flytur úr Ráðherrabústaðnum, nú ekkjumaður og tekur á leigu íbúð í Kirkjustræti 8b þar sem hann býr ásamt fjölskyldu sinni í rúmt ár. Á meðan undirbýr hann byggingu hússins að Grundarstíg 10, í Þingholtunum.

Grundarstígur 10, Rvk
Hannes flytur með fjölskyldu sína í nýbyggt húsið að Grundarstíg 10 í október 1915, en húsið var byggt fyrir hann eftir uppdráttum Benedikts Jónassonar verkfræðings. Þar býr hann sín síðustu æviár. Hannes deyr 13. desember 1922.