Hleð Viðburðir

Myndir sýningar eru flestar nýjar og eiga það sameiginlegt að vera unnar undir áhrifum frá landslagi og straumunum sem liggja undir yfirborðinu á því sem við sjáum og leika sér af því að gera lífið að ævintýri ef við erum tilbúin til að njóta.

Formleg sýningaropnun verður laugardaginn 17. apríl á milli kl 15 og 17. Öll kærlega velkomin en vegna sóttvarna er fólk beðið um að bóka skoðun í síma 511-1904 eða á vidburdir@hannesarholt.is

Tímasetningar fyrir bókun á opnun laugardaginn 17. apríl eru eftirfarandi: 15.00-15.30 // 15.30-16.00 // 16.00-16.30 // 16.30-17.00

Daði Guðbjörnsson f: 1954

Daði er lærður húsgagnasmiður en snéri sér fljótlega að myndlist. Hann útskrifaðist frá Listaakademíunni í Amsterdam árið 1984 en áður hafið hann lokið námi frá Nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Daði hefur eingöngu starfað við myndlist frá námslokum og verið áberandi í íslensku listalífi. Ásamt eigin listsköpun hefur hann setið í safnráði Listasafns Íslands og verið formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna. Einnig kenndi hann myndlist í þrettán ár.

Fyrstu einkasýningu sína hélt Daði árið 1980 í Gallerí Suðurgötu 7 og eru þær nú orðnar vel á fimmta tug. Daði hefur einnig tekið þátt í fjölda samsýninga sem og listamannahópum s.s. Gullpenslinum og Akvarell Island en báðir hóparnir hafa sýnt alloft hér heima og erlendis. Verk Daða hafa einnig verið valin til sýninga s.s. á sýninguna Málverkið eftir 1980 í Listasafni Íslands árið 2006, en markmið hennar var að varpa ljósi á nýja málverkið, og á sýninguna Blæbrigði vatnsins sem var fyrri hluta ársins 2010 í Listasafni Reykjavíkur en á henni var sjónum beint að vatnslitum í íslenskri myndlist 1880-2010. Daði hefur nokkrum sinnum hlotið starfslaun listamanna, bæði frá Reykjavíkurborg og íslenska ríkinu.

Mörg listasöfn s.s. Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Nýlistasafnið og Listasafn Akureyrar eiga verk eftir Daða.

http://www.dadilisto.blog

https://www.facebook.com/dadigudbjornsson

https://www.instagram.com/dadigudbjornsson/