Hleð Viðburðir

‘Hýsill’ samanstendur af ellefu skúlptúraverkum, í fjórum mismunandi stærðarhlutföllum, sem öll eiga samtal sín á milli. Hvert verk er sambræðingur málverks og skúlptúrs, þar sem finna má mörg lög smáatriða og mismunandi áferða. Málað er með draumkenndum og rjómalöguðum pasteltónum í bland við skerandi neon tóna, en sú palletta kallar óhjákvæmlega fram hamingju hjá áhorfandanum. Myndbyggingin líkist súrrealísku landslagi, og stöku hreyfingar málverksins herma eftir niðurstreymisvindum Júpíters. Smágerðir epoxy skúlptúrar eru eftirmyndir af formalíni, en í hefðbundnum skilningi er formalínið notað til þess að varðveita líkamsvefi og form fyrir líffæri eða lík. Listakonan túlkar þetta gróteska fyrirbæri á sinn litríka hátt, og skapar ónáttúruleg, pasteltóna fóstur í glimmer formalíni.
Í verkum Mellí (1997) ráða glimmer og gimsteinar jafnan ríkjum, efniviður sem fyrirfinnst ekki einvörðungu inni á diskótekum. Auk glitursins sækir listakonan mikið í hefðbundna abstrakt geómetríu, og fléttar hana inn í yfirgengilegan og hólógrafískan efnivið.Á yfirborði málverkanna má finna fíngerða skúlptúra sem líkja eftir kristalþyrpingum sem finnast í bergi jarðarinnar. Að jafnaði þekkjum við málverk sem tvívíðan flöt, og verður sá flötur því þrívíður með viðbót þessara skúlptúra. Persónulegan geðþóttastuðul listakonunnar má sjá í því að allt þurfi að vera eins aðlaðandi eins og aðstæður leyfa, með fjörugri litagleði í bland við glitrandi kristalþyrpingar.
‘Hýsill’ er fimmta einkasýning listakonunnar.