Hleð Viðburðir

Björn Traustason er listamaður sem notar teikninguna sem sinn helsta miðil. Hann teiknar einkum vélar, en hann hefur haft sérstakan áhuga á hverskyns vélum frá barnæsku, landbúnaðartækjum, gröfum og dráttarvélum og flugvélum. Áhugann á flugvélum hefur Björn fengið frá föður sínum og afa, sem báðir hafa átt og flogið litlum flugvélum og er Björn því vel kunnugur slíkum vélakosti. Á ferðum sínum um Ísland tekur Björn ætíð ljósmyndir af vélum, sem hann nýtir þegar heim er komið til þess að teikna eftir, ekki síst til þess að halda til haga mörgum af þeim nákvæmu þáttum, s.s. heiti, númerum og litasamsetningum, sem sjá má á myndum hans. Hann safnar einnig litlum eftirmyndum af vélum úr plasti eða málmi, sem hann notar til að teikna eftir.

Björn teiknar með blýanti og litblýanti en þannig nær hann að koma mikilvægum smáatriðum til skila, auk þess sem hann getur haft litina og pappír með sér hvert sem er. Hann er afar iðinn við teikninguna og skipta teikningar hans líklega hundruðum. Í Hannesarholti má sjá tuttugu nýlegar teikningar hans.

Það er við hæfi að einkasýning Björns eigi sér stað í Hannesarholti, fyrrum heimili Hannesar Hafstein, sem var stórbrotinn stjórnmálamaður og framsýnn athafnamaður er beitti sér fyrir mörgum framfaramálum í landinu og var maður framkvæmda. Hannes var sem kunnugt er fyrsti ráðherra Íslands og sinnti því embætti á árunum 1904-1917. Hannes lést skömmu áður en framfarafólk á Íslandi hóf að nota þann vélakost er Björn Traustason sýnir okkur í listaverkum sínum. Ætla má að Hannes hefði orðið hrifinn af þessum vélum og þeim framförum í landbúnaði og á öðrum sviðum samfélagsins, sem þær höfðu í för með sér.

Sýningin er á vegum listahátíðarinnar List án landamæra, listahátíðar fatlaðra.

www.listin.is
info@listin.is

Hannesarholt – Grundarstíg 10 – 101 Reykjavík

Vegna samkomutakmarkana er veitingahús Hannesarholts ekki opið þessa dagana, en velkomið er að hafa samband og koma til að sjá sýninguna. Hringið í síma 511-1904 eða sendið tölvupóst í síma 511-1904.

Sýning Björns Traustasonar verður opin til og með sunnudegi 30. október 2020.

Sýningarýmið er því miður óaðgengilegt fyrir fólk með hreyfihömlun. Fimm tröppur.

List án landamæra 2020 er stutt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg og Öryrkjabandalaginu-ÖBÍ.