Hleð Viðburðir

Í tilefni 90 ára afmælis Nikulásar Sigfússonar þann 1.apríl er efnt til yfirlitssýningar á vatnslitamyndum hans frá 1935-2018.

Sýningin opnar laugardaginn 30.mars kl. 15:00 í Hannesarholti Grundarstíg 10, 101 Reykjavík og stendur til sunnudagsins 7.apríl. Opið er frá þriðjudegi til sunnudags frá 11:30-17:00 og fimmtudaga til 22:00.

Nikulás og fjölskylda

Nikulás Sigfússon er fæddur 1.apríl 1929 á Þórunúpi í Hvolhreppi. Hann útskrifaðist sem stúdent frá MR 1950 og lauk prófi í læknisfræði 1958 frá Háskóla Íslands. Hann varð sérfræðingur í farsóttafræði 1967 og lauk doktorsprófi við Háskóla Íslands árið 1984. Hann vann lengst af sem yfirlæknir Hjartaverndar eða frá 1973-1999.

Meðfram læknisstörfunum hefur Nikulás ávallt lagt stund á vatnslitamálun og spannar málaraferillinn nú rúmlega 70 ár. Nikulás er að mestu sjálfmenntaður í málaralistinni en hann sótti “Skóla frístundamálara” 1947- 48 þar sem hann naut leiðsagnar Kjartans Guðjónssonar, auk þess sem hann sótti um skeið einkatíma hjá nokkrum þekktum vatnslitamálurum.

Nikulás hefur haldið 25 einkasýningar m.a. í Ásmundarsal, Mokka, Stöðlakoti, Nýja Galleríinu og Sal Grafíkfélags Íslands. Einnig hefur hann tekið þátt í samsýningum.
Verk eftir Nikulás eru m.a. í eigu Seðlabanka Íslands, Sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi, Hótel Sögu, SÍBS, Hjartaverndar og Læknafélags Íslands, Noregs og Finnlands. Einnig hefur hann myndskreytt tímaritaforsíður og málað frímerki fyrir Neistann. Nýjustu verk Nikulásar eru frá árinu 2018 en á þessu ári fagnar hann níræðisafmæli sínu.