Hleð Viðburðir

Jón Vilhjálmur Stefánsson / John William Stepenson opnar myndlistarsýningu sína í Hannesarholti þann 17. ágúst kl 15. Þetta er önnur sýning listamannsins á Íslandi.

Þegar Jón Vilhjálmur Stefánsson hóf nám við UC Berkeley Listakademíuna var hann rétt 18 ára að aldri. Allar götur síðan hefur hann helgað sig myndlistinni sem ber keim keim af ólgu 68 kynslóðarinnar.

En það var fleira sem mótaði heimsýn hans, því í uppvextinum hafði JV greiðan aðgang að vísindamönnum og prófessorum við Berkeley háskólann. Móðir hans Katrín vann þar á efsta gólfi sem framkvæmdastjóri rektorsskrifstofunnar. Katrín varð ekkja þegar Jón var fjögurra og því skottaðist hann oft í kringum hana á skrifstofunni í lok langra vinnudaga hennar. Á þessum tíma voru straumhvörf á sviði vísinda ekki síst hvað öreindir og kjarnorku varðaði. Þau fræði voru mjög tíðkuð af vísindamönnum Berkeley háskóla og ýmislegt vakti bæði undrun og áhuga ungs listamanns.

Verk Jón Vilhjálms eru litrík akrílverk á striga og innblásturinn stærstu og smæstu einingar efnisheimsins, á grunni líf- og eðslisfræði. Tónlistargen hans er jafnframt mikilvægur drifkraftur sem endurspeglast í kraftmiklum litum og formum.

Jón Vilhjálmur er borinn og barnfæddur í Bandaríkjunum, en móðir hans Katrín Árnadóttir varð viðskila við fjölskyldu sína ung að árum á átakanlegan hátt. Móðir Jóns Vilhjálms, Katrín náði ekki sambandi við fjölskyldu sína á ný fyrr en hún var orðin 17 ára gömul. Eftir að hún varð ekkja með ungan son sinn dvaldi hún með Jón Vilhjálm í eitt ár heima á Íslandi, en þess utan ól hún hann upp í Berkley í Kalíforníu, fjarri íslenskum skyldmennum.

Móðir Katrínar, Kristrún Tómasdóttir Benediktsson var merk tónlistarkona, píanisti og myndlistarkona, sem þar að auki hafði ótæmandi áhuga á vísindum og þá aðallega stjörnu- og eðlisfræði.

Tónlist frá síðari hluta 19. aldar sem var veruleiki ömmu Jóns var vissulega afar ólík þeirri sem réð ríkjum hjá ungu fólki á hippárunum og mótaði Jón Vilhjálm. Það voru ekki norðurljós og stjörnur himinvolfanna eins og dregið höfðu ömmu hans að eðlifræðinni, heldur kjarnorkan og byltingin sem fylgdi þekkingunni við að kljúfa atómin. Af eðlisfræðinni stafaði nú fremur ógn en rómantískar hugleiðingar frá tíð ömmunnar. Engu að síður er samhljómurinn við eiginleika og viðfangsefni móðurömmunar og Jóns Vilhjálms sláandi.

Umsjón með sýningunni hefur Ásta Kristrún Ragnarsdóttir í Bakkastofu á Eyrarbakka en hún og Jón Vilhjálmur eru systkinabörn.