Hleð Viðburðir

Hanna Hlíf Bjarnadóttir opnar sýningu á málverkum sínum í Hannesarholti, Grundarstíg 10 laugardaginn 1. febrúar kl 15.

Hanna Hlíf stundaði nám í myndlist við fagurlistabraut Myndlistarskólans á Akureyri 2003-2006. Hún hefur tekið þátt í samsýningum og haldið nokkra einkasýningar síðan hún útskrifaðist. Hanna Hlíf var einn af stofnendum gallerís Skúmaskots 2012 og rak Gallerí Box á Akureyri á árunum 2004 – 2007. Hún er einn af höfundum matreiðslubókar fyrir grænkera – Eldhús grænkerans – sem út kom 2016. Hanna Hlíf er gestaskrifari síðunnar Hámarksheilsa og heldur úti facebook-síðunni Eldhús grænkerans.

Málverkin á sýningunni bera ástríðu Hönnu Hlífar fyrir að mála og elda ríkulegan vott. Í nýlegu viðtali í Morgunblaðinu segir hún m.a. um myndirnar: ,,Ég starfaði um tíma sem gestapenni hjá tímaritinu Gestgjafinn og rakst á búnka af blöðum sem ég hafði gert uppskriftir fyrir – og þeim fylgja fallegar ljósmyndir. Þá kviknaði hugmynd að mála matinn minn, enda er ég alltaf að hgusa um mat. Þetta varð því eðlileg tenging við það sem mér finnst einna skemmtilegast að gera, að mála, elda og baka.‘‘ Myndirnar eru málaðar á þessu og síðasta ári. Allar myndirnar á sýningunni eru til sölu og viðeigandi uppskrift fylgir með hverju verki.

Sýningin í Hannesarholti er opin alla daga nema mánudaga kl. 11:30 – 17:00 og fimmtudaga er opið lengur eða til kl. 22:00. Henni lýkur 26. febrúar.