Hleð Viðburðir

Sigrún Úlfarsdóttir opnar sýningu sína Verdarvættir Íslands laugardaginn 16.nóvember kl.15. Sýningin er sprottin upp úr vinnu þar sem Sigrún stúderaði indverska heimspeki og orkustöðvar ayurveda-fræðanna í tengslum við hönnun skartgripa. Hún vildi gera myndverk í kringum viðfangsefnið, þar sem skartgripalína virkaði eins og eitt atriði í risastóru myndrænu konsepti, þar sem myndist og hönnun kölluðust á eins og tveir andstæðir pólar. Samtímis vildi hún tengja Ísland við þessa skartgripi og mátaði hugmyndina með því að setja hana beint út í náttúruna. Samruni íslensks landslags og indverskrar goðafræði gæti virkað nokkuð óvænt við fyrstu sýn. Þessi tvö myndefni eru ósamstæð en hafa samt það sameiginlegt að vera svolítið yfir-náttúruleg.

Á Íslandi erum við alin upp við að það séu alls kyns ósýnilegar verur á ferli um landið. Það eru álfar og huldfólk og margt fleira. Sumar verur þekkjum við en aðrar ekki. Þetta er hluti af heimsmynd íslendinga og menningu. Þannig geta þessar undraverur allt eins fyrirfundist á Íslandi, við höfum kannski ekki séð allt sem í ósýnilegu víddinni. Sigrún sér þessar verur fyrir sér ósýnilegar eins og huldufólk, en vinveittar og verndandi fyrir Ísland.

Sigrún setur kristalla inn í landslagið. Það passar vel þar sem íslensk náttúra er eins og kristall, tær og af henni stafar sérstakri birtu. Kristallarnir tjá þessa birtu og hreinleika náttúrunnar. Nokkrar myndir eru teknar á Vestfjörðum. Hver veit nema þessir guðir og verur séu mikið þar um þessar mundir? Náttúruvættir Íslands hljóta að hafa efasemdir um virkjanir og allt annað náttúrurask sem á sér stað á landinu.

Sigrún Úlfarsdóttir lærði myndlist í MHí og fór síðan til Parísar og lærði þar fatahönnun. Í framhaldi vann hún við ýmsa hönnun í París og fyrir nokkur tískufyrirtæki þar, m.a. Karl Lagerfeld, Hervé Léger, Balmain og Swarovski. Hún hefur unnið við fata-, leður- og skartgripahönnun, bæði fyrir þessi fyrirtæki og fyrir eigið fyrirtæki DL. Sigrún hefur einnig búið í Moskvu í nokkur ár og unnið þar sem búningahönnuður í leikhúsum þeirrar borgar. Í raun hefur Sigrún verið mikið á Íslandi samtímis því að hún hefur búið í París og þannig lifað á mörkum franskra og íslenskra áhrifa. Hún hefur verið með nokkrar hönnunarlínur til sölu á Íslandi og í Frakklandi undanfarin ár.

Sýningin stendur aðeins í tvær vikur og lýkur fimmtudaginn 27.nóvember.