Hér að neðan er viðtal sem tekið var við Ragnheiði Jónu Jónsdóttur og Arnór Víkingsson, eigendur hússins að Grundarstíg 10. Það birtist í Lesbók Morgunblaðsins 4. desember 2011, á afmæli Hannesar. Einnig fylgir leiðari Morgunblaðsins þann dag hér með, en þar er vikið að hugmyndinni um Hannesarholt.

Í faðmi fortíðar

Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Myndir: Ragnar Axelsson rax@mbl.is

„Þegar fólk kemur inn í húsið bíður þess faðmur fortíðar. Hafa ekki allir gott af því að rifja upp hvaðan þeir komu til að átta sig á hvert þeir eru að fara?“ segir Ragnheiður J. Jónsdóttir, eigandi Grundarstígs 10, hússins sem Hannes Hafstein, skáld og fyrsti ráðherra þjóðarinnar, reisti árið 1915 og andaðist í sjö árum síðar. Við stöndum í anddyrinu, iðnaðarmenn eru upp um alla veggi og vart heyrist mannsins mál. Samt fer sjarmi þessa húss ekkert á milli mála – það skín í kvikuna.

Ekki hyllir undir að starfsemi hefjist í húsinu, sem er eitt af elstu steinhúsum borgarinnar, en þegar Sunnudagsmoggann ber að garði eru menn í óða önn að fríska upp á það svo unnt verði að taka á móti gestum í dag, sunnudag, milli kl. 11:30 og 13:30 á 150 ára fæðingarafmæli Hannesar Hafstein. „Við gátum ekki látið þetta tækifæri til að bjóða almenningi í bæinn okkur úr greipum ganga,“ segir Ragnheiður sem keypti húsið fyrir fjórum árum ásamt eiginmanni sínum, Arnóri Víkingssyni, og börnum þeirra, undir merkjum félags sem þau kalla 1904. Hugmyndin er að lána húsið síðan til sjálfseignarstofnunarinnar Hannesarholts, sem samkvæmt skipulagsskrá er ætlað að efla jákvæða, gagnrýna hugsun í íslensku samfélagi, auka skilning á gildi sögunnar fyrir samtímann og framtíðina og hvetja til uppbyggilegrar samræðu um samfélagsleg málefni. Einnig að hlúa að og skapa rými fyrir uppbyggjandi mannlíf og menningarstarfsemi. „Hannesarholt er non-profit stofnun en vonandi kemur hún til með að standa undir sér með tíð og tíma,“ segir Ragnheiður.

Með skýrar hugmyndir

Hún segir fjölskylduna hafa skýrar hugmyndir um það sem hún vilji gera í húsinu en beðið er eftir niðurstöðu úr nýju deiliskipulagi fyrir reitinn. „Fyrr fáum við ekki rekstrarleyfi,“ segir Ragnheiður.Hún leggur áherslu á að ekki standi til að húsið verði safn um Hannes Hafstein en hann sé eigi að síður tilefnið. Sjálf er Ragnheiður kennari og doktor í menntunarfræðum og hefur oft orðið þess áskynja að marga Íslendinga, einkum yngra fólk, vanti tengingu við fortíðina.

„Það skiptir máli að tengjast fortíðinni, þannig skiljum við betur að við erum heppnari en flestar þjóðir – í langflestu tilliti. Von okkar er sú að þetta hús komi til með að hýsa margvíslega starfsemi sem hjálpar okkur að tengja við stöðu okkar í tíma og rúmi. Við Íslendingar höfum farið heldur geyst inn í framtíðina og við þurfum tíma til að staldra við.“

Hannes Hafstein tók við ráðherraembætti 1904 og Ragnheiði og Arnóri þykir það góður tímapunktur við að miða. „Árið 1904 var Ísland að breytast úr sveitasamfélagi í borgarsamfélag, flestar stofnanir sem bera samfélagið uppi í dag urðu til um það leyti. Okkur langar að beina sjónum að þessum tíma, ekki embættistökunni sem slíkri heldur inntakinu. Hvernig var andinn í samfélaginu við upphaf tuttugustu aldarinnar?

Hlutverk okkar eigendanna er að skapa umgjörðina. Síðan taka aðrir við. Eigum við ekki að segja að við séum rekin áfram af nostalgíu eftir baðstofunni, þar sem fólk lifði og starfaði saman.“

Að anda að sér sögunni

Á fyrstu hæð hússins er áformað að hafa kaffihús. „Lykilhugsunin er að opna húsið almenningi og leyfa honum að njóta þess – og anda að sér sögunni. Fólk er upp til hópa ekki eins vel að sér í sögu upphafs borgarsamfélagsins og torfhúsasögunni,“ segir Ragnheiður og bætir við að gestir geti alveg eins reiknað með að fá vel valda gullmola frá Hannesi Hafstein með kaffinu. „Hann talar enn til okkar!“Á efri hæðunum tveimur á að vera aðstaða fyrir lista- og fræðimenn og til fundahalds. „Við höfum ekki útfært þetta í þaula en gætum til dæmis hugsað okkur að skapa aðstöðu fyrir eldra fólk sem veit svo margt og man svo margt en vantar farveg til að beina þekkingunni í. Nú hefur það kannski lokið sinni starfsævi, hefur tíma en ef til vill enga aðstöðu. Draumurinn er að búa til vef sem spunninn yrði af samspili fræða og almennings. Við erum sannfærð um að margt áhugavert gæti komið út úr þessu.“

Kominn er vísir að vef sem eini starfsmaður Hannesarholts til þessa setti upp, Margrét Gunnarsdóttir, upplýsinga- og bókasafnsfræðingur. Á www.hannesarholt.is getur fólk skráð sig sem hollvini stofnunarinnar, án skuldbindinga um fjárútlát. „Margrét tíndi m.a.saman fróðleiksmola um sögur húsanna í kring, sem hún fann í birtum heimildum á vefnum www.timarit.is. Þarna skapast t.d.tækifæri fyrir samstarf, og fólk getur boðið fram upplýsingar og fróðleik sem það býr yfir og gæti ratað á vefinn.“

Ragnheiður segir einnig koma til álita að bjóða erlendum fræði- og listamönnum að nýta sér aðstöðu í húsinu til lengri eða skemmri tíma og búa á meðan í lítilli íbúð sem 1904 á í næsta húsi á Grundarstíg. „Í stað þess að þiggja laun myndi þeim bjóðast að búa endurgjaldslaust í miðborg Reykjavíkur í tiltekinn tíma. Viðkomandi myndi svo deila list sinni eða fræðum með gestum Hannesarholts með því að halda fyrirlestur, listræna uppákomu eða námskeið.“

Hún segir þessa hugmynd í anda Hannesar Hafstein. Hann hafi ekki viljað klippa á sambandið við Dani og aðrar þjóðir þótt Ísland öðlaðist aukin réttindi og síðar fullveldi, því hann mat mikils menningarlega næringu að utan.

Kjallari hússins bíður eftir nýju deiliskipulagi en við hann vilja eigendurnir byggja lítinn sal, þar sem hægt yrði að halda fyrirlestra, stofutónleika, nemendatónleika og aðrar minni háttar uppákomur.

Ragnheiður tekur fram að salurinn verði hljóðeinangraður og tónleikahald komi til með að fara fram á kristilegum tímum. „Það ætti enginn að þurfa að hafa ama af þessari starfsemi enda er hugsunin að hún verði til uppbyggingar en ekki truflunar í hverfinu.“

Uppspretta góðrar orku

Arnór og Ragnheiður eru opin fyrir allskonar verkefnum sem tengjast Hannesi Hafstein með einum eða öðrum hætti. Þannig fengu þau fyrr á þessu ári, í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta, Tryggva M. Baldvinsson tónskáld til að semja lag við minningarljóð Hannesar um Jón. „Þetta ljóð, „Þagnið dægurþras og rígur“, er fullt af jákvæðum tilfinningum sem virðist engu líkara en sé búið að banna á Íslandi í nútímanum: virðingu, aðdáun, og þakklæti. Þess vegna er svo gott fyrir okkur að rifja það upp, og það bíður okkar uppi í hillu í öðru hverju húsi. Á þennan hátt er Hannes og verður uppspretta góðrar orku sem er einmitt það sem okkur vantar nú á tímum, andlega uppbyggingu sem við sækjum í þjóðararfinn.“Hún hefur líka áhuga á að efna til samstarfs við skólana í landinu. „Við vitum af eigin raun að krökkum þykja gamlir, dauðir karlar upp til hópa ofboðslega fjarlægir og óspennandi. Þegar ég var tíu ára hefði ég aldrei trúað því að ég ætti síðar eftir að eltast við dauðan karl úr sögubókum. Svona kemur lífið manni stöðugt á óvart með það hvert það leiðir mann,“ segir Ragnheiður hlæjandi. „Hér í Hannesarholti er hægt að tengja krakkana við fortíðina og vonandi vekja áhuga þeirra. Þetta snýst ekki bara um að miðla sögunni, heldur ekki síður tilfinningunni. Þó að við gleymum öllu sem okkur er sagt situr tilfinningin samt eftir: virðing, þakklæti!“

Hvorki Ragnheiður né Arnór eru tengd Hannesi Hafstein fjölskylduböndum en afa hennar þótti afskaplega vænt um skáldið og ráðherrann. „Þegar ég var þriggja ára keyptu faðir minn og afi saman bát sem hét Hannes Hafstein. Ég man eftir sjónauka um borð í bátnum, merktum Hannesi Hafstein, sem greypti sig í minninguna. Ef við værum persónur í leikriti væri þessi kíkir vísbending um að andi Hannesar vildi að ég beindi sjónum okkar í ákveðna átt, kannski til 1904? Annars velti ég sögu Hannesar og lífi ekkert sérstaklega fyrir mér fyrr en við keyptum húsið.“

Hélt áfram að elta okkur

Hún segir kaupin hafa verið hálfgerða tilviljun. „Við höfðum verið í afmæli lessystur minnar í öðru gömlu húsi, gamla húsmæðraskólanum á Sólvallargötu, og heillast af því. Svo innblásin vorum við að þegar auglýst var opið hús hérna á Grundarstíg 10 haustið 2007, ákváðum við að líta við fyrir forvitnissakir. Okkur leist strax vel á húsið en ég skynjaði að hér var einhver kaleikur, sem ég nennti hreinlega ekki að snerta við. Vikurnar liðu, húsið var áfram í sölu og hélt áfram að elta okkur segir Ragnheiður brosandi. Inn í ákvörðunina spilaði að hana fór að dreyma um nútímaútgáfu af baðstofunni meðan hún var að skrifa doktorsritgerðina sína. „Smám saman fórum við að sjá möguleika á að útfæra þann draum hér, svo að við slógum til með það fyrir augum að opna húsið almenningi. Við ráðfærðum okkur við góða vinkonu okkar, Salvöru Jónsdóttur skipulagsfræðing, sem tengdi okkur við Stefán Örn Stefánsson og Grétar Magnússon arkitekta og einnig við Gunnar St. Ólafsson byggingastjóra. Þeir hafa síðan haft veg og vanda að því að skila þessu merkilega húsi til samtímans og við höfum verið afskaplega ánægð með þeirra störf; þetta eru menn sem hafa næma tilfinningu fyrir gildi gamalla húsa.“Grundarstígur 10 hefur ekki verið í eigu margra aðila gegnum tíðina. Magnús Pétursson bæjarlæknir keypti húsið árið 1923 eftir andlát Hannesar í desember 1922 en árið 1928 eignuðust Helgi Guðbrandsson sjómaður frá Akranesi og fjölskylda hans húsið. Það var síðan í eigu ýmissa fjölskyldumeðlima til ársins 2007.

Ragnheiður segir margvíslega starfsemi hafa verið í húsinu gegnum árin, svo sem snyrtistofu, lögmannsstofu, efnaverksmiðju, sófagerð, tónlistarkennslu og leirlistaverkstæði. „Til allrar hamingju hefur verið borin virðing fyrir húsinu alla tíð og sáralitlu sem engu breytt. Það er einn af stærstu kostunum sem við sáum við þetta hús.“

Nú er komið að Ragnheiði J. Jónsdóttur, Arnóri Víkingssyni og fjölskyldu þeirra að hlúa að þessu merka húsi.

Hjónin Ragnheiður J. Jónsdóttir og Arnór Víkingsson á loftinu á Grundarstíg 10. Hannes Hafstein  Í þessu rými á fyrstu hæð hússins á Grundarstíg 10 er fyrirhugað að opna kaffihús. Iðnaðarmenn unnu baki brotnu í vikunni til að gera Hannesarholt klárt fyrir opið hús í dag. Á annarri hæðinni verður aðstaða fyrir fræði- og listamenn og fundaherbergi.
Leiðari Morgunblaðsins sunnudaginn 4. desember 2011 – Brot

Brú til liðinna tíma

Hugmyndin um Hannesarholt sem hjónin Ragnheiður J. Jónsdóttir og Arnór Víkingsson kynna í Sunnudagsmogganum í dag er forvitnileg. Þau hafa fest kaup á Grundarstíg 10 í Reykjavík, síðasta heimili Hannesar Hafstein, skálds og fyrsta ráðherra þjóðarinnar, og í stað þess að flytja þangað inn sjálf hafa hjónin áform um að opna húsið almenningi – setja þar á laggirnar menningarsetur í víðum skilningi. Húsið á ekki að vera safn um Hannes Hafstein, enda þótt hann sé tilefnið, heldur einskonar brú yfir til löngu liðinna tíma. „Það skiptir máli að tengjast fortíðinni, þannig skiljum við betur að við erum heppnari en flestar þjóðir – í langflestu tilliti,“ segir Ragnheiður. „Von okkar er sú að þetta hús komi til með að hýsa margvíslega starfsemi sem hjálpar okkur að tengja við stöðu okkar í tíma og rúmi. Við Íslendingar höfum farið heldur geyst inn í framtíðina og við þurfum tíma til að staldra við.“

Hannes Hafstein tók við ráðherraembætti 1904 og Ragnheiði og Arnóri þykir það góður tímapunktur við að miða. „Árið 1904 var Ísland að breytast úr sveitasamfélagi í borgarsamfélag, flestar stofnanir sem bera samfélagið uppi í dag urðu til um það leyti. Okkur langar að beina sjónum að þessum tíma, ekki embættistökunni sem slíkri heldur inntakinu. Hvernig var andinn í samfélaginu við upphaf tuttugustu aldarinnar?“

Hjónin bíða eftir niðurstöðu úr nýju deiliskipulagi áður en þau fá rekstrarleyfi fyrir Hannesarholt. Vonandi verður sú niðurstaða þeim hagstæð svo starfsemi geti hafist sem allra fyrst í þessu glæsilega og sögufræga húsi. Þessir tímar tala ennþá til okkar – alveg eins og skáldið.