Flóra Veisluþjónusta og Hannesarholt

Flóra er alhliða veisluþjónusta sem tekur að sér allar gerðir viðburða svo sem árshátíðir, brúðkaup, fyrirtækjapartý, afmæli, útskriftir, fermingar, matarboð og margt fleira. Flóra leggur sig fram að vanda til verka við öll tilefni þegar þú vilt bjóða gestum upp á hágæða mat og þjónustu. 

Eigendur Flóru veisluþjónustu eru Sigurjón Bragi Geirsson og Sindri Guðbrandur Sigurðsson. Báðir eru þeir þaulvanir matreiðslumeistarar og mjög færir í sínu fagi. Þeir eru metnaðarfullir þegar kemur að matargerð og hafa náð góðum árangri í matreiðslu keppnum bæði á Íslandi sem og erlendis. Samanlagt hafa Sigurjón og Sindri mikla reynslu innan veitingageirans og eru óhræddir við að leita nýja leiða í matreiðslu. Hjá Flóru veisluþjónustu leggja þeir áherslu á að skila frá sér gæða veitingum sem hægt er að njóta við hvaða tilefni sem er.

Flóra Veisluþjónusta heldur reglulega matarveislur í Hannesarholti. Sindri og Sigurjón töfra fram glæsilega rétti fyrir gesti. Veislurnar eru auglýstar á heimasíðunni og miðarnir fáanlegir á tix.is. 

Flóra sér einnig um veitingar fyrir einkaviðburði í Hannesarholti, sé þess óskað.

SINDRI GUÐBRANDUR SIGURÐSSON
Matreiðslumeistari og yfirkokkur

Sindri Guðbrandur Sigurðsson lærði kokkinn í Perlunni frá árunum 2013 – 2016 en árið 2015 starfaði hann á Michelin staðnum Domain Clairfontain í Frakklandi. Hann hefur starfað sem yfirkokkur á ýmsum veitingastöðum landsins og hefur sömuleiðis verið virkur þátttakandi í matreiðslukeppnum bæði hér á landi og erlendis. Sindri var með íslenska kokkalandsliðinu frá árunum 2019 – 2022 þar sem hann náði góðum árangri með liðinu, þar á meðal 3. sæti á Ólympíuleikunum í Stuttgart . En að sama skapi hefur hann keppt mikið í einstaklings keppnum þar sem hann hefur skarað fram úr. Árið 2018 lenti hann í 1. sæti á Íslandsmóti iðngreina undir 23 ára, sömuleiðis fékk hann 1. sæti árið 2019 fyrir Eftirrétt ársins, árið 2022 lenti hann svo í 2. sæti í Matreiðslumaður Norðurlanda og árið 2023 vann Sindri með glæsibrag keppnina Kokkur ársins.

Sindri er trúlofaður Maríu Dögg Elvarsdóttur og eiga þau saman einn son, Eron Frosta. Hans helstu áhugamál er matur, íþróttir, veiði, tattoo og ferðalög.

SIGURJÓN BRAGI GEIRSSON
Matreiðslumeistari og yfirkokkur

Sigurjón Bragi Geirsson lærði kokkinn á Hótel Borg frá árunum 2007 – 2010. Hann hefur starfað sem yfirkokkur á ýmsum veitingastöðum landsins ásamt því að vera virkur í matreiðslukeppnum bæði hér á landi og erlendis. Frá 2017 – 2020 keppti Sigurjón með kokkalandsliðinu fyrir Íslands hönd en árið 2020 tók hann við sem þjálfari liðsins. Þá keppti liðið á Ólympíuleikum í Stuttgart þar sem íslenska liðið endaði í 3 sæti, sem er besti árangur kokkalandsliðsins hingað til.

Í einstaklings keppnum hefur Sigurjón Bragi einnig skarað fram úr, en árið 2019 sigraði hann keppnina kokkur ársins á Íslandi. Eftir það lá svo leið hans í Bocuse d‘or, sem er ein virtasta heimsmeistarakeppni í matreiðslu allra tíma og talin af mörgum erfiðasta og stærsta keppni sem hægt er að taka þátt í. Árangur Sigurjóns var glæsilegur þar sem hann endaði í 5. sæti í Evrópu forkeppninni og í 8. sæti í aðalkeppninni í Lyon 2023.

Sigurjón er giftur Flóru Guðlaugsdóttur og eiga þau saman 3 börn, Eðvarð, Elísabetu og Emilíu. Helstu áhugamál hans eru fluguveiði, íþróttir, ferðalög, útivera með fjölskyldunni og góður matur.