Hannesarholt, menningarhús í hjarta Reykjavíkur, hóf formlega starfsemi sína 8. febrúar 2013. Markmið stofnunarinnar er að efla jákvæða, gagnrýna hugsun í íslensku samfélagi, auka skilning á gildi sögunnar fyrir samtímann og framtíðina og hvetja til uppbyggilegrar umræðu og samveru.

Efnt var til opnunarhátíðar þar sem Ragnheiður Jóna Jónsdóttir, Guðjón Friðriksson og Stefán Örn Stefánsson fluttu tölur auk þess sem Bryndís Halla Gylfadóttir lék á selló og félagar úr Fóstbræðrum sungu fyrir gesti. Húsfyllir var og góður rómur gerður að húsinu og þeirri starfsemi sem húsinu er ætlað að fóstra. Lára Jónsdóttir, forstöðumaður Hannesarholts stýrði athöfninni.

Ljósmyndir frá opnuninni. Hér að neðan er einnig að finna stutt myndbrot frá opnuninni.

Hannesarholt er nýtt menningarhús í hjarta Reykjavíkur, að Grundarstíg 10. Hannes Hafstein reisti þetta glæsilega fjögurra hæða hús fyrir fjölskyldu sína árið 1915 og er það í hópi fimmtán fyrstu steinsteyptu húsa í Reykjavík. Það hefur gengið í endurnýjun lífdaga eftir gagngerar endurbætur, þar sem vandað hefur verið til verka í hvívetna.

Á fyrstu hæð er rekið kaffihús virka daga frá kl. 11-18 þar sem m.a. verður boðið upp á heitan mat í hádegi. Hannesarholt er nýr valkostur fyrir litla og stóra fundi, námskeið, stefnumótunardaga, málþing og minni ráðstefnur sem og aðrar uppbyggjandi samkomur. Í viðbyggingu er nýr salur, sem er sérstaklega hannaður til tónlistarflutnings, en hentar einnig til fyrirlestrahalds eða fyrir smærri viðburði og sýningar.

Sem fyrr segir er markmið stofnunarinnar að efla jákvæða, gagnrýna hugsun í íslensku samfélagi, auka skilning á gildi sögunnar fyrir samtímann og framtíðina og hvetja til uppbyggilegrar umræðu og samveru. Öllum ágóða af starfseminni verður varið til uppbyggingar stofnunarinnar.