Hleð Viðburðir

Hvassófjölskyldan, Hvassaleiti 75, leiðir Syngjum saman í Hannesarholti laugardaginn 27.janúar kl.14. Svana Víkings verður á píanóinu. Fjölskyldan ólst upp við ríka sönghefð á heimili sínu og þau elstu bjuggu við þann lúxus að hverja nýjársnótt fylltist húsið af söngelskum nágrönnum og allir tóku undir til að fagna nýja árinu. Yngri kynslóðir hafa verið munstraðar inní fjölskylduhefðina og samsöngurinn í hávegum hafður í samveru fjölskyldunnar, sem hefur margoft áður leitt söngstundir í Hannesarholti.

Syngjum saman í Hannesarholti veturinn 2023-4 er tileinkað Marinellu Ragnheiði Haraldsdóttur, sem var fædd 1933 og hefði því orðið níræð 14.september 2023. Hannesarholt er til vegna hennar og hún mætti á alla Syngjum saman viðburði með dóttur sinni á meðan stætt var. Um leið og við minnumst hennar og heiðrum viljum við taka hana okkur til fyrirmyndar. Söngurinn fylgdi henni ævina út, en hún lést 11.júlí síðastliðinn. Frítt er inná Syngjum saman í vetur henni til heiðurs, sem er haldið reglulega á laugardögum kl.14. Textar á tjaldi og allir syngja með.