Heimili Heimsmarkmiðanna* í Hannesarholti

Hvað er Heimili Heimsmarkmiðanna?

Hugtakið kom frá erlendum gestum okkar, fyrir nokkru síðan, sem sögðu slíkt heimili vanta og Hannesarholt væri kjörið í hlutverkið. *Heimili Heimsmarkmiðanna er miðstöð upplýsinga, fræðslu og hvatningar um Heimsmarkmiðin og sjálfbærni fyrir heimilin.

Hver á að redda málunum?

Mikil áhersla hefur verið lögð á fyrirtæki, skóla og ríkisstofnanir til að innleiða sjálfbærari hætti, en stór hluti fólks fellur milli stafs og hurðar. Frá yfirvöldum koma boð og bönn sem eiga að leiða að umhverfisvænna og sjálfbærara samfélagi.

Við getum gert eitthvað!

Við getum axlað ábyrgð sjálf og verið stolt af því að vera hluti af lausninni, leggja eitthvað að mörkum, og vinna að því að bæta heiminn með því að bæta okkar nærumhverfi samkvæmt skilningi okkar á Heimsmarkmiðunum.

Hvernig stendur Ísland sig miðað við önnur lönd?

Í hinu alþjóðlega samhengi stendur Ísland sig nokkuð vel. Við trónum ekki efst á listanum með hinum norðurlöndunum, en erum þó ekki slökust OECD ríkja, þegar kemur að velgengni í sjálfbærnivegferðinni. Það er nóg af verkefnum til að taka á, og margt sem við getum gert sem einstaklingar.

Risa kolefnisspor

Þrátt fyrir mikla græna orku eiga Íslendingar eitt af stærstu kolefnissporum heims  miðað við höfðatölu. Vissulega hefur verðráttan og fjarlægðin áhrif á neyslumynstur Íslendinga en það útskýrir ekki þetta mikla vistspor. Við teljum að það sé þörf á vitundarvakningu þannig að sjálfbærni og meðvituð neysla verði sjálfsagður hluti af okkar daglega lífi.

Umburðalyndi á undanhaldi?

Íslenskt samfélag hefur lengi verið talið umburðalynt og opið en mörg okkar hafa orðið vör við bakslag. Fjölbreytni í íslensku samfélagi hefur aukist en raddir sem tala gegn inngildingu minnihluta hópa í samfélagið hafa hækkað róminn. Hatursorðræða gagnvart jaðarsettum hefur aukist. Hin félagslegu heimsmarkmið sem snúast að jafnrétti og umburðarlyndi eru ekki síður áskorun fyrir þjóðina þrátt fyrir orðstír íslendinga sem umburðalynda og opna.

Árangur í einu markmiði hefur áhrif á hin!

Heimsmarkmiðin eru þannig uppbyggð að árangur í einu markmiði hefur áhrif á öll hin. Það er því ekki þörf á að allir séu að einbeita sér að öllum markmiðum alltaf. Fyrsta skrefið er að kynna sér markmiðin og velja eina aðgerð til að byrja á, svo er hægt að bæta fleiri aðgerðum við. Það er eðlilegt þegar við byrjum á einhverju nýju að við leitum aftur í gamlar venjur. Þá er ekkert annað en að byrja aftur. Heildarmarkmiðið er að tileinka sér Heimsmarkmiðin og sjálfbærni og að meðvitund um áhrif okkar á umhverfið og samfélagið verði sjálfsagður partur af lífi okkar.

Hvernig borðar maður fíl?

Með því að brytja hann niður og borða einn bita í einu.

Heimil Heimsmarkmiðanna er setur þar sem hægt er að sækja innblástur til aðgerða. Hér er einning hægt að læra um Heimsmarkmiðin á sínum forsendum. Heimil Heimsmarkmiðanna og Hannesarholt munu hýsa viðburði þar sem leikir og lærðir munu deila reynslu sinni og kunnáttu.

Af hverju Hannesarholt?

Hvort sem gestir Hannesarholts eru að sækja tónleika, ráðstefnu, fyrirlestur, fund, myndlistarsýningu, veislu, hádegismat eða kaffisopa eru gestir sammála um að það að stíga inn fyrir dyr Hannesarholts er eins og að koma inn á heimili. Mikið hefur verið lagt í að varðveita heimilisandann á Grundarstíg 10. Þetta þægilega og heimilislega andrúmsloft gerir Hannesarholt að kjörnum vettvangi til að læra um sjálfbærni og Heimsmarkmiðin fyrir heimilin. Sjálfbærni hefur lengi verið slagorðið í rekstri Hannesarholts.

Hlutverk Hannesarholts er að varðveita sögu heimastjórnartímabilsins og arfleið Hannesar Hafstein, efla jákvæða, gagnrýna hugsun í íslensku samfélagi, auka skilning á gildi sögunnar fyrir samtímann og framtíðina og hvetja til uppbyggilegrar umræðu og samveru.