Byggingarár og fyrstu íbúar

Húsin tvö við Þingholtsstræti 15 og 15A virðast ekki hafa verið aðgreind þannig upphaflega. Hinsvegar er annað þeirra úr steini og hitt úr timbri og gjarnan er talað um „steinhúsið“ eða „timburhúsið“ í auglýsingum fyrri tíma til aðgreiningar.  Hér fyrir neðan er fjallað um húsin í sameiningu, því erfitt er að sjá í dagblöðum við hvort húsið er átt nema að grafa dýpra en til þess gefst því miður ekki tími í bili.

Skv. fasteignaskrá er húsið nr. 15 byggt annars vegar 1910 og hinsvegar 1920. Það mun vera rétt að viðbyggingin (timburhúsið)  hafi komið á árunum 1919 – 1920, það má sjá í tilkynningu um húsbyggingar í Reykjavík 1919, þar sem Methúsalem Jóhannsson byggir tvílyft hús. Fyrra ártalið er rangt því auglýsingar sem varða húsið hefjast árið 1886 eins og sjá má hér neðar í pistlinum.

Um Þingholtsstræti 15 segir Guðjón Friðriksson í greininni Á göngu með Guðjóni í Helgarpóstinum frá 1988 að farið hafi verið illa með húsið á sínum tíma:

„Það hafði verið klætt að utan á vitlausan hátt og settar í það heilar rúður. Nú er verið að gjörbreyta því aftur, færa það í búning sem hæfir upprunalegri gerð þess. Þetta er dæmi um það að menn eru að vakna til vitundar um að svona hús hafa menningarlegt gildi og það ber að sýna uppruna þeirra fulla virðingu. Til gamans má geta þess að Hördur Ágústsson, listmálari og arkitekt, sem er manna fróðastur um íslenska byggingarsögu fyrr og síðar, er fæddur í þessu húsi.“

Svo virðist sem ekkja Gríms Thomsens skálds, Jakobína Jónsdóttir Thomsen, hafi búið um tíma uppi á lofti í Þingholtsstræti 15 ef marka má grein eftir Þorfinn Kristjánsson prentara: Vatnsberi og vikadrengur í Reykjavík fyrir aldamót úr Alþýðublaðinu frá 1955.

Indriði Guðmundsson og kona hans Guðrún Kolbeinsdóttir keyptu húsin að Þingholtsstræti 15 þ. 14. maí 1941 og stofnaðu Indriðabúð sem rekin var í 12 ár – eftir það leigðu þau búðina. Sjá góða grein í tilefni gullbrúðkaups þeirra: Hófu búskap í helli á Laugardalsvöllum og eiga gullbrúðkaup í dag í Morgunblaðinu frá 1960.


Húsið, starfsemi og fleira í dagblöðum liðinna tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

Eins og í mörgum öðrum húsum í Þingholtunum var mikið um að herbergi væru auglýst til leigu fyrstu áratugina en þeim auglýsingum er að mestu sleppt hér.

  • 1886: Þórunn Á. Bjarnardóttir yfirsetukona er nú alkomin hingað til bæjarins, og má, hve nær sem er, vitja hennar í húsi Bjarnar jarðyrkjumanns Bjarnarsonar. Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1886: Þórunn A. Bjarnardóttir, yfirsetukona, býður sængurkonum í Rvík og þar í nánd aðstod sína. Hún hefir verið skipuð í emb. á  4. ár og unnið hylli allr kvenna sem hún hefir aðstoðað. Hún býr í Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1893: Mjög ódýra kennslu í ensku og undir skóla m. m. veitir Þórður Jensson, cand. phil. Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1895: Bjarni Jónsson, cand. mag. tekur að sjer kennslu undir skóla. 15 Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1909: Hæns til sölu i Þingholtsstræti 15 ; góðar varphænur (augl.)
  • 1910: 4 herbergja íbúð til leigu þ. 14. maí, á góðum stað. Ávísað í Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1913: Stúlka óskar eftir hægri vist. Uppl. Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1914: „Þetta þurfa allir að lesa. Þeir, sem vilja kynnast tilgangi Dýraverndunarfélags Reykjavíkur,-ættu að finna Flosa trésmið Sigurðsson í Þingholtsstræti 15, og fá að sjá lög félagsins…“ (augl.)
  • 1915: Þeir sem þurfa að fá sér stúlkur til útivinnu á næstkomandi vori og sumri, hvort heldur til sveitavinnu eða fiskvinnu, geri svo vel að snúa sér til annarhvorrar okkar undirritaðra sem tökum að okkur að útvéga duglegar stúlkur gegn sæmilegu kaupgjaldi. Reykjavík 2. mars 1915. Jónína Jónatansdóttir, Þingholtsstræti 15. (p. t. form. Verkakvenfél. „Framtíðin“). Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Þingholtsstræti 18 (augl.)
  • 1916: 250 sekkir af Cementi fást  hjá Metúsalem Jóhannessyni, Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1916: Mótorbátur ca. 10 smál, – með 12 hesta DAN-mótor, seglurn, akkeri og keðjum og með eða án veiðarfæra til sölu Bát og mótor hefir verið vel við haldið. Semja má við Methúsalem Jóhannsson, Þingholtsstræti 15, sem gefur allar upplýsingar (augl.)
  • 1916: Tunnur og kvartel til sölu í Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1916: Fríttstandandi þvottapottur, segl, kaðlar og blakkir, er til sölu í Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1917: M.k. Gissur hvíti fer til Akureyrar fimmtudaginn 19. þ. m. Tekur vörur og farþega. Uppl. hjá M. Jóhannssyni, Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1917: Síld: Fóðursíld í olíufötum og matarsíld í vanalegum tunnum, fæst keypt á Lindargötu 1B, sími 209, og Þingholtsstræti 15, sími 299 (augl.)
  • 1917: Brúkuð segl af skipi kaðlar og blakkir, akker og keður er til sölu með tækifærisverði í Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1917: Nokkrir nýir messingborðlampar fást keyptir í Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1918: Ágætar gulrófur til sölu í Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1919: Allskonar fatnaður tekinn til viðgerðar, hreinsunar og pressunar í Þingholtsstræti 15 niðri (augl.)
  • 1919: Tvær nýjar verslanir veröa opnaðar á morgun, önnur í Þingholtsstræti 15, hin á Vesturgötu 20 (augl.)
  • 1919: Úr fréttum um húsabyggingar 1919: Við Þingholtsstræti 15 byggir Metúsalem Jóhannsson tvílyft hús, 14X12 álnir (augl.)
  • 1920: Verslunin Þingholtsstræti 15 selur allskonar matvörur, kaffi, sykur, cacao með mjög niðursettu verði; einnig margar teg. kex, átsúkkulaði, ávexti, sveskjur, rúsínur og bökunarefni. Jólakerti smá og stór, vindlar, reyktóbak, munntóbak, neftóbak, gosdrykkir, jólavín og margt fleira (augl.)
  • 1920: Verslunin í Þingholtsstræti 15, selur ódýrasta og besta jólavindla (augl.)
  • 1922: Nyja brauðsölubúð hefi eg undirritaður opnað i Þingholtsstræti 15, og verða þar á boðstólum allskonar brauðtegundir. – Mikil áhersla lögð á vöruvöndun og lipra afgreiðslu. Reykjavík 2. mars 1922. Ingimar Jónsson. NB. Ávalt til ný vínarbrauð og kökur kl. 8 að morgni (augl.)
  • 1922: Nýja verslun með allskonar matvöru opna jeg undirritaður i Þingholtsstræti 15 þann 7. október. Góðar vörur. Lágt verð. Virðingarfylst, Jóhann Gíslason (augl.)
  • 1922: Bruninn. Rannsókn út af brunanum í Þingholtsstræti 15 er nú að mestu lokið (frétt)
  • 1926: Hannyrðakensla. Byrjum að kenna nú þegar bæði dag og kvöldtíma. Systurnar frá Brimnesi Þingholtsstræti 15 (steinhúsið). Simi 1583 (augl.)  – Sjá má auglýsingar frá þeim til 1940.
  • 1926: Stefnuvottaskifti. Þorsteinn Gunnarsson, stefnuvottur hér í borginni, hefir sagt þeim starfa af sér sökum heilsubilunar. 1 hans stað hefir Einar Jónsson frá Brimnesi, fyrrum hreppstjóri, verið skipaður stefnuvottur frá næstu áramótum. Hann á heima í Þingholtsstræti 15, sími 1583 (augl.)
  • 1926: Gott fæði fæst. Sanngjarnt verð. Þingholtsstræti 15, (rauða húsið). – (augl.)- Auglýst til 1928 a.m.k.
  • 1927: Egg frá Rúmeníu nýkomin, seljast mjög ódýrt fyrir jólin í verslunum mínum Þingholtsstræti 15 og Skólavörðustíg 22. Einar Eyjólfsson (augl.)  – auglýsir einnig 1928
  • 1927: Stúlka óskast í vist 1. apríl, 3 mánaða tíma. Þingholtsstræti 15, niðri (augl.)
  • 1927: Stulka, sem kann að sauma jakkaföt óskast i nokkra daga í Þingholtsstræti 15. Kristin Einarsdottir (augl.)
  • 1928: Blóm í pottum o g rósaknúppar til sölu í Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1929: Hefi opnað Nýlenduvörubúð í Þingholtsstræti 15 (áður vezlun Einars Eyjólfssonar). – Þar verða framvegis seldar allskonar: Matvörur og Hreínlætisvörur, Kryddvörur og Tóbaksvörur, Sælgæti o. fl. o. fl. Vandaðar vörur með sanngjörnu verði. – Sendar heim um allan bæ. – Hringið í sima 1489. Verzlunin „Þingholt“ (augl.) – auglýsir einnig 1933 en virðist enda á uppboði 1934 (tilkynning)
  • 1929: Matsala mín er flutt frá Bergstaðastræti 8 i Þingholtsstræti 15. – Get enn bætt við nokkrum mönnum i fæði. Oddný Bjarnadóttir (augl.)
  • 1929: Hraust unglingsstúlka óskast til léttra morgunverka og að vera úti með barn á öðru ári. Uppl. i Þingholtsstræti 15 (steinhúsið) – (augl.)
  • 1929: Fæði, gott með sanngjörnu verði. Einnig húsnæði fyrir stúlkur. Piano til æfinga. – Matsalan Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1930: Íkviknun lítils háttar varð í gær á Þingholtsstræti 15. Kviknaði út frá ofni og komst eldurinn í þil bak við járnplötu, en varð fljótlega slöktur og urðu litlar skemdir (frétt)
  • 1930: Dreng vantar i sendiferðir til hádegis. Verslunin Þingholt, Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1931: Viðgerðir, hreinsun, pressun á fötum. – Þingholtsstræti 15 (niðri) – (augl.)
  • 1932: Menn eru teknir í þjónustu. Þingholtsstræti 15 efri hæð (augl.)
  • 1932: Hefi viðtalstíma frá 2-5. – Sigurður Hannesson, hómöópathi, Þingholtsstræti 15  (augl.)
  • 1932: 2ja herbergja ibúð með aðgangi að eldhúsi er til leigu nú strax. Mánaðarleiga 55 kr. – Uppl. i Þingholtsstræti 15 (steinhúsið) – (augl.)
  • 1933: Takið eftir! Draumar verða ráðnir i gula húsinu bak við Þingholtsstræti 15 í kjallaranum, kl. 8-10 e. h. (augl.)
  • 1933: í Þingholtsstræti 15 er saumað uþphlutir, peysuföt, kjólar og kápur. Sömuleiðis blússur á drengi og karlmannaföt stykkjuð og vent, hreinsað og pressað, María Jónsdóttir (augl.)
  • 1934: Kjötbúd opna ég í dag í Þingholtsstræti 15. Sími 3416. Ásgeir Ásgeirsson (augl.), auglýsir einnig 1935.
  • 1934: Prjón tekið. Þingholtsstræti 15. Sigríður Magnúsdóttir frá Grjóteyri (augl.)
  • 1935: Fiskfars daglega nýtt. Fiskbúð Ásgeirs Ásgeirssonar Þingholtsstræti 15. – Sími 3416 (augl.)
  • 1935: Auglýsing: Miðlunarskrifstofan Trygging Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1936: Sölubúð ásamt bakherbergi, hentug fyrir kjötsölu o. fl., til leigu í Þingholtsstræti 15. Uppl. í síma 4731 (augl.)
  • 1936: Stúlka, sem vill læra vélprjón, getur komist að strax eftir 14. þ . m., Uppl. Þingholtsstræti 15. Sigríður og Svafa frá Grjóteyri (augl.)
  • 1937: Eftir kl. 7 i kvöld verða seldir öskupokar m e ð hálfvirði, í Þingholtsstræti 15, steinhúsinu (augl.)
  • 1939: Til sölu í Þingholtsstræti 15, steinhúsinu: Máluð slifsi, svuntur og jólalöberar. Einnig mjög fínn ballkjóll (augl.)
  • 1939: Til sölu: Rósir í pottum og önnur stofublóm. Verð frá kr. 1,50 stykkið. Þingholtsstræti 15, steinhúsið (augl.)
  • 1940: Búðin í Þingholtsstræti 15 er til leigu. Uppl. gefur Pjetur Jakobsson, Kárastíg 12. Sími 4492 (augl.)
  • 1940: Öskupokar til sölu. Verð frá einni krónu. Þingholtsstræti 15 (steinhúsinu) – (augl.)
  • 1941: Bollapör. Sósuskálar. Mjólkurkönnur, Te- katlar, Borðhnífar, Skeiðar. Gafflar, Vasahnífar,. fæst £ Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1941: Indriðabúð: „Sveitamenn: Verslið við Indriða Guðmundsson, Þingholtsstræti 15. Góðar vörur. Gott verð. Sendið pantanir yðar og takið til bílstöð. – Alls konar liðlegheit sýnd.“ (augl.) – Auglýsir a.m.k. fram til 1960.
  • 1941: Notuð saumavjel óskast til kaups. Uppl. á saumastofunni Þingholtsstræti 15 (augl.)
  • 1942: Indriðabúð auglýsir gallabuxur á börn á 8.50. Þetta er líklega í eitt af fyrstu skiptum sem gallabuxur eru auglýstar á Íslandi (augl.)
  • 1942: Komnar aftur. Saumastofa Svövu og Gyðu, Þingholtsstræti 15 (augl.) – auglýsa a.m.k. fram til 1948.
  • 1962: Félag Nýalssinna heldur fund fimmtudaginn 13. desember, að Þingholtsstræti 15 kl. 8:30. Stjórnin (augl.)
  • 1963: Sænskt plasthúðað stálgirðingarefni:  G. S. Júlíusson Þingholtsstræti 15 (augl.) – auglýsir a.m.k. fram til 1970.
  • 1968: Sníð og sauma kvenfatnað, Ólöf Svafa Indriðadóttir, Þingholtsstræti 15, sími 17287 (augl.)
  • 1971: Auglýsing frá Kaupendaþjónustunni – Fasteignakaupum, Þingholtsstræti 15 (augl.) – auglýsir fram til 1982 í einni eða annarri mynd, oftast sem Kaupendaþjónustan.
  • 1972: Benedikt Björnsson, fasteignasali, Þingholtsstræti 15. Simi 10-220 (augl.)
  • 1980: Lyklasmiðjan. Viðtal við Ingvar Þórðarson lykla- og lásasmið, Þingholtsstræti 15 (viðtal)