Bygging hússins og nokkrir íbúar

Flestum heimildum ber saman um að húsið við Þingholtsstræti 13 sé reist árið 1876 þó fasteignaskrá nefni árið 1886. Guðjón Friðriksson getur þess í greininni Á göngu með Guðjóni árið 1988 að þetta sé elsta húsið sem enn stendur við Þingholtsstræti.

Húsið sjálft er lágreist bindingshús í dönskum stíl  og nýtur friðunar í B-flokki. Það hefur nokkrum sinnum fengið styrk úr Húsfriðunarsjóði. Það þykir vera sérlega vel gert upp og fallegt.

Freyja Jónsdóttir skrifaði fróðlega og upplýsandi grein um húsið árið 2002 sem hét einfaldlega Þingholtsstræti 13. Þar kemur fram að Þorsteinn Guðmundsson, fyrsti yfirfiskimatsmaður hérlendis, lét byggja húsið og talið er að Helgi nágranni Hans Helgason hafi lagt þar hönd á plóg.  Í greininni segir ennfremur:

“Samkvæmt íbúaskrá frá árinu 1876 búa í húsinu: Þorsteinn Guðmundsson tómthúsmaður, 29 ára, Kristín Gestsdóttir, kona hans, 25 ára, Kristín Jónsdóttir hjú, 40 ára, Guðmundur Sigurðsson hjú, 25 ára og Ragnheiður Runólfsdóttir saumakona, 30 ára”

Einnig er sagt frá Þorsteini:

“Hann var einn af helstu frumkvöðlum í íslensku þjóðfélagi í meðferð á fiski, verkun og geymslu. Þorsteinn var fyrsti yfirfiskimatsmaður hér á landi, skipaður í embættið 1904.”

Ein heimild getur þess að húsið hafi verið kallað Ingólfsbrekka þegar það var byggt, en þess var ekki getið annars staðar (grein).

Í húsinu hafa átt heima nokkrir þjóðþekktir einstaklingar auk Þorsteins Guðmundssonar, m.a. Ingi T. Lárusson tónskáld og Einar Jónsson myndhöggvari (grein).

Í greininni Á göngu með Guðjóni frá 1988 má lesa eftirfarandi:

“Þetta hús er byggt árið 1876 og í því bjó lengi Þorsteinn Gudmundsson, yfirfiskmatsmaður í Reykjavík. Hann á mjög merkilega sögu að baki í sambandi við sjávarútveg og verkun fiskafla í landinu. Meðal annars skipulagði hann mat á saltfiski, fór til Spánar og ítalíu að kynna sér hvernig menn þar vildu hafa fiskinn. Það var sagt að Spánverjarnir þyrftu ekki annað en stimpil frá Þorsteini til að þeir tækju fiskinn gildan. – Þorsteinn bjó alla sína tið í þessu húsi og það hús er friðað, sem þýðir að ekki má breyta því á ytraborði nema með leyfi borgaryfirvalda.”

Í greininni Töfrarnir höfðu gripið  frá 1978 er vitnað í manntal frá 1901. Þar segir um Þorstein og fjölskyldu: “Hann er 54 ára 1901 og býr I húsinu ásamt konu, þremur börnum og þremur hjúum. Einnig býr þar systir húsfreyju, saumakonan Jórunn Ragnheiður Guðmundsdóttir.”


Húsið, starfsemi og fleira í dagblöðum liðinna tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1897:  Trefill týndist á götum bæjarins 8. þ. m. Finnandi skili í Þingholtsstræti 13 (augl.)
  • 1906: Atvinnu við fiskverkun geta nokkrar duglegar stúlkur fengið næstkomandi vor og sumar frá 1. maí til 30. sept. Nánari upplýsingar gefur Þorst. Guðmundsson, Þingholtsstræti 13 (augl.) – Svipaðar auglýsingar birtast öðru hverju allt til 1916.
  • 1911: Poki með nærfötum o. fl. hirtur við bæjarbryggjuna i siðastliðnum april. Eigandi vitji í Þingholtsstræti 13 (augl.)
  • 1917: Herbergi til leigu fyrir einhleypan með Sérinngangi. Uppl. í Þingholtsstræti 13 (augl.)
  • 1920: Jarðarför mannsins míns, Þorsteins Guðmundssonar, fer fram mánudaginn 29. mars. Húskyeðjan byrjar kl. 1 e. h. á heimili okkar Þingholtsstræti 13- Kristín Gestsdóttir (augl.)
  • 1920: Þorkell Blandon lðgfræðingat Þingholtsstræti 13, tekur að sér málflutning annast ksnp og sölur, gerir simninga, sér innheimtur og veitir lögfræðislegar leiðbeiningar. V i ð t a l s t í m i kl. 5-7 síðd (augl.)
  • 1928: Ábyggilegur maður getur f engið keypt fæði hjá Gísla Andrjessyni, Þingholtsstræti 13, niðri (augl.)
  • 1929: Jarðarför móður okkar, Kristinar Gestsdóttur, fer fram frá dómkirkjunni þriðjudaginn 24. þ. m. og hefst með húskveðju kl. 1 e. h. á heimili hennar, Þingholtsstræti 13. Ragnheiður Blandon. Sigurður Þorsteinsson (augl.)
  • 1932: Forstofuherbergi til leigu i Þingholtsstræti 13 (augl.)
  • 1933: Stúdent, vanur kenslu, óskar eftir heimilskenslu gegn fæði. Uppl. Þingholtsstræti 13, eða i síma 3706, kl. 4-7 (augl.)
  • 1941: Sljettar járnplötur 110 plötur af lítið notuðu járni nr. 18 til sölu í einu lagi fyrir 60 aura kílóið. – Uppl. kl. 1-2 í dag. Sóphus Árnason, Þingholtsstræti 13 (augl.)
  • 1941: Vjelstjori vanur 110 ha. June Munktell vjel oskast. Uppl. kl. 11-12 og 6-7. Sophus Árnason, Þingholtsstræti 13 (augl.)
  • 1945: 20-30 síldarstúlkur vantar til síldarsöltunar í Haga, Reykjavík. Nánari upplýsingar gefnar kl. 5 til 7 í dag af Sophusi Árnasyni, Þingholtsstræti 13 (augl.)

Sophus auglýsir mikið eftir fólki á 5. áratugnum

  • 1948: Söfnun Mæðrastyrksnefndar. Eins og venjulega tekur skrifstofa Mæðrastyrksnefndar á mólti gjöfum fyrir jólin handa bágstöddum einstæðingum, mæðrum og börnum hér í bænum. Skrifstofan nefndarinnar í Þingholtsstræti 13 (tilkynning)
  • 1954: Baðker fyrirliggjandi. Metropolitan Trading Company hf, Þingholtsstræti 13. Sími. 81192 (augl.)
  • 1967: “Nemendasamband Kvennaskólans í Reykjavík heldur aðalfund þriðjudaginn 11. apríl klukkam níu í Þjóðleikhúskjallaranum (hliðarsal). – Sýndar verða hárkollur og toþpar frá G. M. búðinni Þingholtsstræti 13…” (tilkynning)
  • 1974: Afsalsbréf innfærð: …” Þorsteinn Blandon selur borgarsjóði Rvikur hluta i Þingholtsstræti 13.” (tilkynning)
  • 1976: Friðað hús til sölu (augl.)
  • 1976: Tilboð óskast i húseignina Þingholtsstræti 13, Reykjavík með áhvílandi kvöðum vegna friðunar þess… Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar (augl.)
  • 1976: Hverfið var dáið en hefur hlotið nýtt blóð og nýtt líf  (grein)
  • 1979: Klósettið sem stíflaði borgarkerfið. Ónýtur baðskúr við Þingholtsstr. 13 velktist á milli nefnda og stofnana í borgarkerfinu (grein)  – Sjá nánara viðtal við íbúa hússins um málið (grein)
  • 1979: “Einstrengingsleg sjónarmið mega ekki koma í veg fyrir að fólk geti búið i gömlum húsum” – Enn um baðskúrinn (grein)
  • 1988:  “Silkihundurinn” Guttormur kóngur” sem býr að Þingholtsstræti 13 (grein)
  • 1998: Uppgerðum húsum fjölgar í gamla bænum (grein)
  • 2002: Þingholtsstræti 13 eftir Freyju Jónsdóttur (grein)
  • 2008: Fagra Reykjavík. Mynd af Þingholtsstræti 13 (grein)

2010 (19. ágúst): Þingholtsstræti 13 var eitt af þremur húsum sem fékk fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar árið 2010 (sjá vef Reykjavíkurborgar)