Sögusýning – heimildamynd

Í stuttri heimildamynd um Hannes Hafstein og mótunarár borgarinnar sem sýnd hefur verið í Hannesarholti undanfarin ár, má rifja upp hversu mikið þjóðin átti inni á dögum Hannesar Hafstein og hversu langt þjóðin hefur náð á ríflega hundrað árum. Í sögusýningunni á efri hæðum Hannesarholts, um konur sem áhrifavalda í lífi og starfi Hannesar, kemur í ljós hvernig framfarir verða að veruleika í samvinnu, hér samvinnu kvenna og karla. Að líta til baka í okkar eigin sögu, gefur okkur enn fremur tilfinningu fyrir vegferðinni sem aðrar þjóðir eiga fyrir höndum, sem eru mögulega á þeim stað nú sem íslendingar voru á fyrir rúmri öld síðan.

Farvegur – samráð

Hannesarholt hefur áhuga á að vera miðstöð þekkingar og samráðs um Heimsmarkmiðin, þar sem leitast er við að safna saman sérfróðu og skapandi fólki sem deilt gæti þekkingu sinni og tekið þátt í lausnamiðuðu samstarfi um aðgengilegar aðgerðir í anda heimsmarkmiðanna. Jafnframt gæti byggst upp í Hannesarholti þekkingarbrunnur sem mætti deila vítt og breitt, bæði með landsbyggð og borgarbúum og fólk gæti sótt í. Hannesarholt sem heimili heimsmarkmiðanna væri staðurinn sem fólk gæti heimsótt ef það vildi læra um heimsmarkmiðin og stíga inn í vegferð heimsmarkmiðanna.

Nýsköpun – sjálfbærni

Hannesarholt hefur þegar sett af stað samstarf við ólíka aðila í samfélaginu um nýsköpun og sjálfbærni um verkefni sem auðvelt væri að innleiða á heimilum.

Að snúa kvíða yfir í virkni og von.

Foreldrar og börn sem eru ofurseld áhyggjum af heimsástandinu gætu haft samband við Hannesarholt og fengið að koma í heimsókn og ræða áhyggjur sínar. Starfsmaður Hannesarholts gæti leitt umræðuna inn í lausnir og tækifæri til áhrifa, með því markmiði að umbreyta áhyggjum og kvíða yfir í þátttöku og virkni.

Handleiðsla

Áhugasamar fjölskyldur gætu skráð sig í verkefni hjá Hannesarholti, þar sem unnið væri í sameiningu með mögulegar leiðir til að vinna að heimsmarkmiðunum á heimilinu. Fjölskyldurnar fengju fræðslu og handleiðslu í þessu verkefni.

Mynd (Axel Kristinsson)