Verkefni
Heimsmarkmiðin

Hvað eru heimsmarkmiðin?

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru metnaðarfull og samþætt markmið sem öll aðildarríki SÞ samþykktu í september 2015. Markmiðin eru 17 talsins og með 169 undirmarkmið. Eðlilega snúast mikið af heimsmarkmiðunum að bættum lífskjörum þeirra sem búa við bágustu kjörin, einkum í þróunarlöndum. Vestrænu ríkin sem eru í farabroddi í nýtingu og þróun sjálfbærrar orku, umhverfismálum og jafnrétti eiga að styðja við bakið á þróunarlöndunum. Aftur á móti eru vestrænu ríkin helstu skaðvaldar þegar kemur að mengun og mengun tengdri neyslu og framleiðslu.

Kemur þetta okkur við?

Flestir á Íslandi búa við heimsins bestu lífsskjör og það er kannski auðvelt að trúa því að Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun eigi ekki við okkur. Við búum yfir sjálfbærri orku, lifum í vellystingum og erum heimsfræg fyrir jafnrétti kynjanna og jöfnuð almennt.

Hvernig förum við með verðmæti?

Fræðafólk hefur lengi bent okkur á að við getum ekki haldið áfram með uppteknum hætti, hvað þá leyft fátækari ríkjum heims að reyna að ná okkar staðli. Jörðin býr yfir takmörkuðu magni auðlinda, veðurkerfi og hitastig hafa breyst vegna útblásturslofttegunda og freðhvolfið minnkar hvert sumar.

Hlúum að verðmætum

Einnig höfum við gengið of hart að mannlegum auðlindum samfélagsins. Þó að Íslenskt samfélag sé talið vera leiðandi í jafnrétti kynjanna, hinsegins fólks og annarra þá getum við alltaf gert betur. Enn er kynbundið ofbeldi vandmál og félagasamtök hafa orðið vör við bakslag hvað varðar hatursorðræðu og almennt umburðalyndi. Umræðan á kommentakerfunum og Moggablogginu ættu að vera okkur víti til varnaðar.

Hverjir eiga að taka sig á?

Hingað til hafa aðgerðirnar verið á verksviði yfirvalda og fyrirtækja. Auðvitað er það eðlilegt enda getur ekki hver sem er tekið það að sér að hreinsa skólpið nægilega vel svo eitt dæmi sé nefnt. En einn stærsti liðurinn í samfélaginu hefur verið skilið útundan í þessum aðgerðum: heimilin. Öll erum við með heimili hvort sem við eigum okkar eigin íbúð eða hús, eða leigjum, hvort við búum einsömul, með fjölskyldu, með maka eða með vinum. Ákvarðanir okkar, lífnaðarhættir og gjörðir hafa áhrif á okkur, okkar nærumhverfi og heiminn allan.

Við sem neytendur höfum hins vegar mörg tæki til að láta gott af okkur leiða. Með því að hafa sjálfbærni í huga þegar við erum að versla inn, skemmta okkur, ferðast eða umgangast náungan getum við tekið skref í áttina að sjálfbærari heimi og þrautseigara samfélagi.

Í hvernig heim viljum við búa?

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun hafa það að leiðarljósi að gera auðlindirnar sem veita okkur svo mikil lífsgæði endurnýjanlegar, arðbærar og sjálfbærar. Þau snúast einnig um að þessi lífsgæði gætu orðið á færi sem flestra. Í dag eru neysla okkar og venjur ekki sjálfbærar, einhvern daginn verður ekki hægt að lifa eins og við höfum lifað eða það verður bara á færi hinna ofurríku. Sjálfbærni er fyrsta skrefið í átt að friðsælli og þrautseigari heimi.