Hannes Hafstein og mótunarár Reykjavíkur

Hannesarholt lét gera 12 mínútna heimildamynd um Hannes Hafstein árið 2013, bæði á íslensku og ensku, sem hefur staðið gestum við boða nánast frá opnun Hannesarholts.

Guðjón Friðriksson gerði handritið, Björn Brynjúlfur Björnsson hjá Reykjavík Films gerði myndina, Þorleifur Hauksson léði rödd sína í íslensku útgáfunni en Martin heitinn Regal í ensku útgáfunni og sá einnig  um að þýða texta og ljóð. Nú þegar hafa þúsundir gesta séð myndina í Hannesarholti og hún verður í boði þar áfram. Nú hefur myndin einnig verið sett hér á heimasíðu Hannesarholts fyrir alla til að fræðast og njóta.

Þættir um ævi og störf Vigdísar Finnbogadóttur

Meðal þeirra drauma sem stofnendur Hannesarholt ólu með sér í aðdraganda opnunar Hannesarholts var að þar skyldu ræktaðar dyggðir. En hvernig gerir maður það? Arnór Víkingsson, einn stofnenda, leitaði í smiðju Eleanor Roosevelt, sem hélt því fram í bók um þetta efni að ein besta leiðin til að rækta dyggðir væri í gegnum góðar fyrirmyndir. Það tók ekki langan tíma að finna fyrirmynd okkar allra, Vigdísi Finnbogadóttur. Þetta er sagan á bak við fjóra viðtalsþætti sem Viðar Víkingsson tók upp fyrir Hannesarholt árið 2012, þar sem hún sagði frá bernsku sinni og námsárum ásamt því að lýsa skoðun sinni á náttúruvernd, jafnréttismálum og miilvægi tungumála í heiminum. Þættirnir voru teknir upp í Hannesarholti og á Mókollum við Esjurætur og viðmælendur, konur og karlar voru valdir í samráði við Vigdísi. Viðmælendur völdu umræðuefnin. Þættirnir voru sýndir á RÚV 2020, á 90 ára afmælisári Vigdísar og hafa verið boðnir Vigdísarstofnun til notkunar, auk þess að vera vistaðir á heimasíðu Hannesarholts og sýndir í Hannesarholti. Einnig hefur verið settur við þá enskur texti.

1- Bernska og námsár

Marinella Arnórsdóttir, rithöfundur og bókmenntafræðingur og Halla Oddný Magnúsdóttir, viðburða- og skipulagsstjóri S.Í., ræða við Vigdísi um uppvaxtarár hennar og námsár í Frakklandi.

2 – Hvað er kona að vilja upp á dekk?

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræðir við Vigdísi um jafnréttis- og menningarmál.

3 – Tungumálin geyma minningar mannsins

Sjón, rithöfundur, ræðir við Vigdísi um mikilvægi tungumála og störf hennar í þágu þeirra, m.a.  hjá UNESCO

4 – Maður verður sjálfur að koma við grasið

Haukur Ingvarsson, rithöfundur og bókmenntafræðingur, ræðir við Vigdísi um landvernd og umhverfismál.