Bygging hússins
Páll Líndal segir þetta hús hafa verið byggt árið 1880 úr timbri og síðar stækkað í bók sinni Reykjavík: Sögustaður við Sund, 3. bindi. Vitað er að Helgi Helgason snikkari og tónskáld byggði húsið eins og fram kemur í Húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur frá 2005, skýrslu nr. 125.
Á baklóð hússins nr. 3 stóð hús sem kallað var Tilraunahúsið, reist árið 1907. Þar gerðu Haraldur Níelsson og Einar H. Kvaran tilraunir með miðilshæfileika Indriða Indriðasonar miðils (1883-1912) og var félag þeirra nefnt Tilraunafélagið (sjá greinina Dalabréf úr Mbl. frá árinu 2000).
Í greininni Á fimtíu ára afmæli sínu var Reykjavík Torfbæjaborg (Lögberg 1949) er sagt frá bæ sem áður stóð þar sem nú er Þingholtsstræti 3: Loftsbær . Í neðri Þingholtsröðinni var norðastur bær, sem átti gamli Loftur, en er nú rifinn og þar komið tvíloftað hús; 1830 átti þann bæ Einar nokkur kallaður spámaður; sá bær var álitinn elstur í þeirri röð. (Þetta mun vera sama býlið og fyrst var kallað Þingholt. Þar risu seinna upp fjögur kot önnur. Bærinn var kendur við Loft gamla Þorkelsson frá Kleppi er þar bjó lengi, en þar áður hafði hann verið kallaður Valgerðarbær. Þar er nú Þingholtsstræti 3.
Í Óðni er þess getið að sjera Friðrik Friðriksson hafi leigt herbergi upp í Þingholtsstræti 3 um tíma meðan að hann var að ná sér af brjósthimnubólgu (Óðinn 01.01.1928).
Soffía Þórðardóttir og Kristín Bogadóttir stofnuðu saman verzlunina Kjólinn í Þingholtsstræti árið 1943 og var verslunin þar fram til ársins 1969 (Sbr. minningargrein um Soffíu í Mbl. 19. sept. 1969)
Það er með ólíkindum hversu fjölbreytt starfsemi hefur verið í húsinu í gegnum árin. Fyrir utan auglýsingar um matsölu og leigu herbergja má nefna úrsmiði, prjónakonur, bókband, sölu mjólkur og matvöru, blóma og fræja, skraddara, gullsmiði, ljósmyndastofu, álnavöru og fataverslanir, tréskurð, feldskera, auglýsingastofu, hannyrðir, ullarvörur, fasteignasölu, bókaforlag og síðast en ekki síst var Hið íslenska bókmenntafélag þar til húsa í nokkur ár. Nú er hins vegar hótel í húsinu.
Húsið í dagblöðum liðinna tíma
Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.
- 1893: í Þingholtsstræti 3 geta skólapiltar og einhleypir menn fengið þjónustu, haft kvöld- og morgunverð hjá sjálfum sjer og fengið keypt kaffi eða lagt sjer til, fyrir væga borgun, frá 1. okt. næstkomandi (augl.)
- 1893: Til leigu í Þingholtsstræti 3 eitt herbergi, með húsgögnum, handa einhleypum (augl.)
- 1894: Allt maskínuprjón fæst fljótt og vel af hendi leyst í Þingholtsstræti 3. Vilborg Jónsdóttir (augl.)
- 1897: Stór-auðugir geta menn orðið á svipstundu, ef heppnin er með og þeir vilja eitthvað ofurlítið til þess vinna. – Biðjið um upplýsingar, er verða sendar ókeypis. Reykjavík, – Þingholtsstræti 3. Stefán Runólfsson (augl.)
- 1898: Haukur, heimilisblað með myndum. Stefán Runólfsson, Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1899: Bókbandsverkstofa Arinbj. Sveinbjarnarsonar er flutt í Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1901: Jón Jónatansson, Þingholtsstræti 3 sinnir ritstjórn blaðsins Plógs í fjarveru hr. búfr. Sigurðar Þórólfssonar (augl.)
- 1902: Gjöldum til Fríkirkjunnar verður veitt móttaka i Þingholtsstræti 3, kl. 2-3 siðd. Arinbjörn Sveinbjarnarson (augl.)
- 1903: Herbergi til leigu i Þingholtsstræti, inngangur um forstofu. Guðbjartur Sigurðsson Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1906: Magnús Gunnarsson Þingholtsstræti 3 selur alls konar matvöru… (augl.)
- 1907: Vefnaðarvara og skrautgripir. Fjölbreytt úrval. Lágt verð. 3 Þingholtsstræti 3. St. Runólfsson (augl.)
- 1908: Mjólk fæst í Þingholtsstræti 3, allan daginn (augl.)
- 1909: Úrfestar kvenna og karla úr silfri, gullpletti og nikkel. Hvergi ódýrari eftir gæðum. Úrsmiðastofan Þingholtsstræti 3. St. Runólfsson (augl.)
- 1912: Úrsmíðastofan í Þingholtsstræti 3 verður 14 . maí flutt í Ingólfsstræti 6 (augl.)
- 1913: Fæði fæst í Þingholtsstræti 3. Sömuleiðis efribekkja mentaskólabækur (augl.)
- 1913: Ný kjólföt, sem kostuðu 90 kr., eru nú til sölu hjá klæðskera Andrjesi Andrjessyni, Þingholtsstræti 3. fyrir aðeins 40 kr. (augl.)
- 1913: Í Þingholtsstræti 3 uppi fæst strauað hálslín og allskonar lín. Stúlkum einnig kennt að straua. Guðbjörg Guðmundsdóttir (augl.)
- 1913: Stúlka, sem er vöu að sauma karlmannaföt: peysuföt o. fl., gefur kost á sjer að sauma út um bæinn. Upplýsingar í Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1915: Árni Árnason gullsmiður er fluttur i Þingholtsstræti 3 og smiðar nú allskonar gull- og silfursmíði, svo sem Beltispör og Svuntupör og Millur, Víravirki, einnig allar viðgerðir, alt mjög ódýrt (augl.)
- 1915: Nýja Ljósmyndastofu hafa þeir Ólafur Oddsson og Jón J. Dalmann sett upp í félagi í Þingholtsstræti 3. Þar eru snotur herbergi og góð birta. – En sérstaklega tókum vér eftir því, hve blæfallegar þær eru, myndirnar þeirra (augl.)
- 1916: Blómlaukar: Hyacintur, Tulipanar, Crocusar, Páska- og Hvíttasunnuliljur fást mjög ódýrir í stóru og fjölbreyttu úrvali hjá Guðnýju Ottesen, Þingholtsstræti 3, uppi (augl.)
- 1917: Íslenzkar kartöflur fást í brauðsölubúðinni Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1917: Fræsalan í Þingholtsstræti 3 selur allar tegundir af fræi og útsæðiskartöflum. Vegna útflutningsbanns á gulrófnafræi frá Danmörku, kemur ekki meira fræ á þessu ári. Sendið þvi pantanir yðar fljótt. Simi 422. Guðný Ottesen, Reykjavík (augl.)
- 1919: Ný verslun. Ný vefnaðarvöruverslun er nú opnuð í Þingholtsstræti 3 beint á móti skóverslun Lárusar G. Lúðvigssonar Góðar vörur. Ódýrar vörur. Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1919: Verslun Jóhönnu Olgeirson Þingholtsstræti 3 selur allskonar álnavöru, flónel, tvisttau, lakaléreft, morgunkjóla, náttkjóla, broderingar, barnafatnað og m. fl. (augl.)
- 1919: Nýkomið: Nýtísku dömu- og barnahattar. J. Þórðardóttir Þingholtsstræti 3 – Opið 1-7. Áður verslun frú J. Olgeirason (augl.)
- 1920: Verzlun Jóhönnu Olgeirsson er flutt af Laugaveg 18 í Þingholtsstræti 3. (Beint á móti verzlun Lárusar Lúðvigssonar) – (augl.)
- 1920: Stór útsala byrjar i dag í Þingholtsstræti 3 (þar sem áður var versl. Jóhönnu Olgeirsson) og heldur áfram næstu daga Notið tækifærið! -Margrét Jónsdóttir (augl.)
- 1920: Vegna veikinda annarar, óskast stúlka í vist strax. Uppl. á Ijósmyndastofunni í Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1920: Skírnir. Með því að svo hefir samist með stjórn Bókmentafélagsins og mér, að eg taki við ritstjórn “Skírnis”, eru hérmeð þeir, sem kynnu að vilja senda tímaritinu ritgerðir eða eiga eitthvert erindi, við ritstjóra þess, beðnir að snúa sér til mín. Rvík 2. des. 1920. Árni Pálsson Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1920: Málverk til sölu til jóla. Sigr. Erlendsdóttir, Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1921: Verslunin Þingholtsstræti 3, selur: álnavörur, margskonar fatnaði, frakka, kápur o. m. fl. Verðið hvergi lægra. Kristmundur Snæbjörnsson (augl.)
- 1921: Nýkomnir SUMARHATTAR. Nýkomnir sumarhattar barna, unglinga og kvennaverslunin Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1921: Brauða-útsala verður opnuð í dag í Þingholtsstræti 3 frá Félagsbakaríinu á Vesturgötu 14 (augl.)
- 1922: Munið að bestu og ódýrustu brauð og kökur fáið þið i Þingholtsstræti 3. Reynið brauðin og þér munið sannfærast um, að þau eru af bestu tegund (augl.)
- 1922: Ný ritvél til sölu með tækifærisverði, ef samið er nú þegar. Ritvélaverkstæðið, Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1922: Nokkrir menn geta fengið fæði frá 1. okt. Hendrikka Waage. Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1924: Ljósmyndastofa Ó l . Oddssonar í Þingholtsstræti 3. Simi 903. Er opin virka daga kl. 10-7. Sunnudaga kl. 11-3. Þar eru teknar allar venjulegar tegundir ljósmynda. Myndir stækkaðar og smækkaðar eftir óskum. Gamlar myndir endurteknar. Vönduð vinna, ábyggileg afgreiðsla. Allar plötur geymdar til eftirpöntunar, einnig alt plötusafn Árna Thorsteinsson (augl.)
- 1931: Til hvítasunnu: sel ég það, sem eftir er af sumarkápum með tækifærisverði. NB. Gegn staðgreiðslu. Nýkomnir sumarkjólar – Voal -, nýtisku sumarulsterar koma með næstu skipsferð. Altaf fyrirliggjandi sumarkápuefni og skinn. Sigurður Guðmundsson Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1931: Menn teknir i þjónustu og fæði, og í sama stað pressuð föt. Uppl. eftir kl. 6 í Þingholtsstræti 3 efstu hæð (Gengið inn í portið) (augl.)
- 1932: Til leigu. Íbúðin í Þingholtsstræti 3 niðri (norðurhlutinn) ásamt vinnustofu og kjallara er til leigu. Magnús Guðmundsson hæstarjettarmálafl.m. semur um leiguna (augl.)
- 1933: Munið gullsmíðavinnustofuna Þingholtsstræti 3. Guðl. Magnússon (augl.)
- 1934: Leiknir er fluttur í Þingholtsstræti 3, simi 3459 (augl.)
- 1934: Eyvind Wiese, trjeskurðarmaður í Þingholtsstræti 3, sýnir ýmsa smíðisgripi þessa dagana í glugga Vöruhússins. Hann hefir um mörg ár stundað trjeskurð í Kaupmannahöfn, og stundað nám við myndhöggvaradeild “Kunstmuseet”. Hann er nú alfluttur hingað og er kvæntur íslenskri konu, Ragnhildi Líndal, dóttur Hjartar hreppstjóra á Núpi í Miðfirði (frétt)
- 1934: Telpa 13-14 ára óskast til að gæta barns á 3 ári. Upplýsingar í Þingholtsstræti 3, hjá Kristjáni Sólbjartssyni (augl.)
- 1935: Stúlka, sem er vön kjólasaumi, getur fengið atvinnu frá 1. september á saumaverkstæði mínu í Þingholtsstræti 3. Tek einnig á móti lærlingum. Uppl. í síma 2284. Sonja Pétursson (augl.)
- 1936: STÚLKUR. Sumarhattarnir eru viðkvæmir. Komið þið í Þingholtsstræti 3 (kjallarann) og þar fáið þið Hattastatív (augl.)
- 1938: Halldór Olafsson löggiltur rafvirkjameistari Þingholtsstræti 3 Sími 4775 Viðgerðárverkstæði fyrir rafmagnsvélar og rafmagnstæki. Raflagnir allskonar (augl.)
- 1938: Heimabakaðar kökur fást í Þingholtsstræti 3, áður í Tjarnargötu 3, sími 2477. Klara Matthíasdóttir (augl.)
- 1939: SAUMASTOFAN er flutt úr Þingholtsstræti 3 á Amtmannsstíg 2. – Þórdís og Katrín (augl.)
- 1942: Sofnaði frá “hristing” – kveikti í húsinu í gær. kl 18,21 var slökkviliðið kallað að Þingholtsstræti 3. Hafði kviknað í á efri hæð hússins (frétt.)
- 1943: Verzlunin Kjóllinn Veltusundi 1 er flutt í Þingholtsstræti 3 Sími 1987 (augl.) – Verslunin auglýsir í Þingholtsstræti fram til 1969.
- 1946: Höfum úrval af íslensku víravirki til tækifærisgjafa. Gullsmíðavinnustofa Karls og Sverris, Þingholtsstræti 3, sími 7523 (augl.)
- 1949: Hef opnað feldskurðarvinnustofu í Þingholtsstræti 3. Sauma úr allskonar loðfeldum eftir pöntunum. Tek einnig allskonar breytingar og við gerðir á pelsum. Virðingarfyllst, Þórður Steindórsson, feldskeri (augl.)
- 1950: Tek í saum karlmannafata- og kvendragtaefni, hef sjálfur tillegg. Ingi Benediktsson klæðskeri, Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1953: Ullar- og prjónaverksmiðja í F. Ó. hefir opnað sölubúð í Þingholtsstræti 3, undir nafninu Ullarvörubúðin (augl.) – Auglýsir fram til 1963.
- 1954: Dömur athuglð Saumastofa mín er flutt í Þingholtsstræti 3, uppi. Sníðum og þræðum allan kven- og barnafatnað og hálfsaumum, ef óskað er. Gerður Jóhannesdóttir (augl.)
- 1957: Harald ST. BJÖRNSSON, umboðs- og heildverzlun, Þingholtsstræti 3. – Sími 13 7 60 (augl.)
- 1960: Hákon H. Kristjónsson lögfræðingur Þingholtsstræti 3. Simi 13806 ki. 4.30-6 (augl.)
- 1963: Gísli B. Björnsson, auglýsingastofa Þingholtsstræti 3. Sími 11517 – 36535 (augl.)
- 1964: Samkvæmisfléttur í fjölbreyttu úrvali. G.M.-búðin, Þingholtsstræti 3 (augl.) – Auglýsir fram til 1972.
- 1966: Sköllótta söngkonan á ferð? Aðfaranótt laugardagsins var brotizt inn í G-M-búðina að Þingholtsstræti 3 og stolið þaðan átta hárkollum af mismunandi gerð og lit (augl.)
- 1967: Gólfteppalagnir Okkur vantar vandvirkan lagningarmann sem hefur haldgóða reynslu í starfinu. Álafoss, Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1968: Roamer er nú sem fyrr bezta fermingargjöfin. Kaupið úrin hjá úrsmið. Magnús Ásmundsson, Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1970: Getið er um verslunina Rósu að Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1971: Húseign- miðbær. Til sölu er húseignin Þingholtsstræti 3 ásamt ca. 300 ferm. lóð (augl.)
- 1972: Höfum opnad hannyrðaverzlun að Þingholtsstræti 3. Mikið úrval af handavinnu. Erum einnig áfram með fjölbreytt úrval af garni að Þingholtsstræti 1. Nýjar vörur daglega. Verzlunin HOF (augl.)
- 1973: Jólabasar. Munið jólabasar Bókhlöðunnar í Kjörgarði og Þingholtsstræti 3. Mikið úrval af ódýrum jólavörum. Komið, sjáið og verzlið. Bókhlaðan hf. (augl.)
- 1973: Elfur. Tízkuverzlun æskunnar, Þingholtsstræti 3 (augl.) – Auglýsir fram til 1979
- 1978: Getið er um Magnús Thorberg heildverslun, Þingholtsstræti 3, R (augl.)
- 1979: Milljónatuga verð mæti íslenzkra frímerkja á uppboðum í Svíþjóð. “Það sérstaka við þetta spjald, sem skrifað var til kand. Sigurbjörns Á . Gíslasonar, Þingholtsstræti 3, Reykjavik, var stimpillinn “Siðdegis”.” (Grein)
- 1980: Bókmenntafélagið opnar afgreiðslu að Þingholtsstræti 3 (augl.) – Auglýsir fram til 1989.
- 1980: Eignamiðlunin Þingholtsstræti 3 SÍMI 27711 (augl.) – Auglýsir fram til 1990.
- 1981: Lögberg Bókaforlag Þingholtsstræti 3, simi: 21960 (augl.) – Auglýsir fram til 1989.
- 1991: Opið hús hjá ungmennahreyfingu Rauða kross Íslands að Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1995: Athugið. Útsalan hefst á mánudag. Vinsælu norsku ullarpeysurnar, teppi, skinn, sokkar, húfur, treflar o.m.fl. Ull og minjagripir, Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 1996: Sögustund. Kaffigallerí Amma í Réttarholti, Þingholtsstræti 3, býður yngstu kynslóðinni í sögustund á morgun (augl.)
- 2002: Kúnst. Lagersala Flottir stórir íkonar frá Mt. Athos. Fallegar styttur, Óskaperlan! og fl. Opið kl. 16-20 alla daga í Þingholtsstræti 3 (augl.)
- 2003: Í fréttinni “Óánægja verslunareigenda með gatnagerðarframkvæmdir í Bankastræti ” er getið um vinnustofuna “Íslensk ull” í Þingholtsstræti 3 (frétt)
- 2004: Nota seðla sem veggfóður. Útveggur Þingholtsstrætis 3 var skrýddur óvenjulegu veggfóðri í gær er hann var þakinn þúsund króna seðlum (frétt)
- 2006: Nýtt hótel rís við Þingholtsstræti 3 (frétt)