Skipbrotsmenn á feigðarflaki
flæmdir um á kaldri dröfn,
krepptir óláns kuldataki,
komast og um síð í höfn.
Breyskir, veikir, hrjáðir, hrelldir,
hörmum nístir, sviknir, felldir,
eyðilagðir, ofurseldir,
einnig komast guðs í söfn.
Drottinn sigrar, dauðinn tapar.
Dagur brýzt í gegnum nótt.
Drottinn stig af stigi skapar
styrk úr veikleik, mátt úr þrótt.
Drottinn sprengir dróma’ og læðing.
Dauðinn snýst í endurfæðing.
Drottinn gerir nákuls næðing
notabyr að lífsins gnótt.