Byggingarár og ýmsir fróðleiksmolar

Húsið sem áður stóð við Þingholtsstræti 9 var flutt á Árbæjarsafn árið 1969 og endurbætt þar eftir þörfum. Þorsteinn Gunnarsson hafði umsjón með verkinu og má lesa afar greinargóða lýsingu á húsinu og verkinu í greininni 127 ára gamalt hús í Árbæjarsafn í Morgunblaðinu frá 1973. Húsið var tilbúið til sýningar á safninu árið 1973.

Á reitnum þar sem húsið stóð við Þingholtsstræti er nú minningarreitur um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og íslenska kvennabaráttu, sem Ólöf Nordal var fengin til að útbúa. Bríetarbrekka var síðan afhjúpuð 7. nóvember 2007. (Sjá nánar Kvennasöguslóðir um Þingholtin).

Þingholtsstræti 9 er býsna gamalt hús, reist árið 1846 úr afgangs timbri sem eftir varð þegar að Latínuskólinn var byggður. Það var Helgi Jónsson snikkari sem reisti húsið og bjó þar hann með fjölskyldu sinni í mörg ár. Synir hans tveir sem í húsinu fæddust  urðu þekktir menn. Það voru þeir  Helgi snikkari og tónskáld og Jónas. Þeir stofnuðu m.a. Söngfélagið Hörpuna og Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur.

Sagt er að haldin hafi verið svokölluð „píuböll“ í Þingholtsstræti 9.

Vitað er að Bakarasveinafélag Íslands var stofnaðí húsinu þ. 5. febrúar árið 1908 en þá var búsettur þar Guðmundur Guðmundsson bakarasveinn.

Húsið hefur verið nefnt ýmsum nöfnum í gegnum tíðina (sbr. ritgerð Helgu Einarsdóttur: Gamla Reykjavík: Viðtöl um Í.R. húsið, Þingholtsstræti 9 og Kirkjustræti 12 frá 2003). Þar segir á bls. 34:
„Í manntali frá því árið 1850 er húsið nefnt 6. bær í Þingholtum, 1860 nefnist það Ingólfsbrekka 7, árið 1870 Helgahús og 1880 breytist það í Helgahús Jónssonar, en frá 1890 hefur það eingöngu verið kallað Þingholtsstræti 9.“

Svo virðist sem að áður en Helgi Jónsson reisti þetta hús, hafi staðið þar Suðurbær sem Helgi bjó fyrst í en reif síðan og byggði húsið sem hér um ræðir (Á fimtíu ára afmæli sínu var Reykjavík Torfbæaborg úr Lesbók Mbl. frá 1949).

Í húsinu bjó lengi Guðrún Daníelsdóttir kennari (1870-1945) sem getið er í Kvennasögusafni Íslands: Kvennasöguslóðir um Þingholtin. Hún kenndi m.a. á gítar og var einn af stofnendum Kvenréttindafélags Íslands.


Húsið í dagblöðum liðinna tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar

  • 1894: Hnakkar og söðlar. Undirskrifaður hefir til sölu hnakka, söðla, töskur, ístaðsólar, beizlistauma og höfuðleður, hnakkólar, svipuólar. gjarðir o. fl., allt vandað og með góðu verði. Reykjavík 21/5 ’94, Þingholtsstræti (augl.)
  • 1900: Guðrún Daníelsdóttir Þingholtsstræti 9 tekur að sér, eins og að undanl’örnu, að kenna börnum frá 1. október. Einnig veiti ég stúlkum tilsögn í dönsku og “ guitarspili“ (augl.)
  • 1904: Dánarbú Daniels Símonarsonar sölasmiðs i Þingholtsstræti 9 selur hnakka, söðla og ólar með góðu verði (augl.)
  • 1907: Nýkomið með ss Sterling stórt úrv af Rammalistum mjög ódýrum, Myndir innrammaðar. Munið að koma í tíma. – Jólin eru bráðum komin. Johannes Johnsen snikkari Þingholtsstræti 9 B (augl.) – [Má leiða að því líkum að húsnúmerið 9 B hafi átti við skúr sem stóð á lóðinni].
  • 1919: Kvenstígvél nr. 35 til sölu, með góðu verði. Þingholtsstræti 9. Guðrún Gamalíelsdóttir. Heima kl. 5-7 (augl.)
  • 1935: Tek börn til kenslu og les með skólabörnum. Guðrún Daníelsdóttir, Þingholtsstræti 9 (augl.)
  • 1938: Bakarasveinafélag Islands er þrjátíu ára í dag (grein)
  • 1949: Suðurbær. Þar bjó lengi HeJgi trjesmiður, faðir þeirra tónskáldanna Jónasar og Helga. Helgi reif bæinn og bygði þar timburhús sem enn stendur (Þingholtsstræti 9). Það hús er bygt úr afgangi af Mentaskólatimbrinu, þegar hann var bygður. Þarna var oft gleðskapur mikill, dansleikar haldnir í Suðurstofunni og kaffi drukkið í Norðurstofunni. Þar hafa margir mentamenn búið á námsárum sínum (grein)
  • 1945: Jarðarför GUÐRÚNAR DANÍELSDÓTTUR, fyrrv. kenslukonu, fer fram föstudaginn 11. þ. m. og hefst með húskveðju á heimili hennar, Þingholtsstræti 9 kl. 1 e. h, Steinunn Sigurðardóttir (dánartilkynning)
  • 1951: Skóvinnustofa mín er flutt úr Aðalstræti 6 í Þingholtsstræti 9. Friðjón Sigurðsson (augl.)    Auglýsir einnig 1960.
  • 1958: Bakarasveinafélagið á 50 ára afmæli í dag. „Stofnfundur var haldinn i Þingholtsstræti 9, heimili Guðmundar bakarasveins Guðmunds 1 sonar. Var það hinn 5. febrúar 1908.“ (Grein)
  • 1968: Bakarasveinafélag Íslands sextíu ára ára (grein)
  • 1973: 127 ára gamalt hús í Árbæjarsafn (grein)
  • 1973: Sumarstarfsemin í Árbæjarsafni hefst I dag, að vísu er það opið allt árið, en þá er aðeins smáhluti þess til sýnis. Nú er það allt sýnt og hefur eitt hús bætzt í hópinn. Er þetta húsið, sem byggt var 1848 i Þingholtsstræti 9, og var reist úr afgangstimbri frá Menntaskólanum I Reykjavík (grein)
  • 1974: Skýrsla um Þjóðminjasafnið 1973. „Í Árbæ var lokið við að endurbyggja Þingholtsstræti 9 sem reist var um sama leyti og Menntaskólinn og einnig var hafin endurbygging hússins Nýlendu sem Nýlendugata er kennd við og flutt var fyrir nokkru í safnið.“ (Grein)
  • 1981: Þorkell sagði að fordæmi væri fyrir því að Reykjavíkurborg keypti hús sem ákveðið hefði verið að friða. Var það húsið að Þingholtsstræti 9, sem borgin keypti á markaðsverði (grein)
  • 1983: Bakarasveinafélag Íslands 75 ára í dag (Grein)
  • 1987: Þingholtsstræti 9. Þar er nú sýning á munum og myndum frá fornleifauppgreftrum f Reykjavík (grein)
  • 1997: Á sunnudaginn kl. 14 veröur opnuð sýningin Klukkan tifar í húsinu Þingholtsstræti 9 í Árbæjarsafni í tilefni 70 ára afmælis Úrsmiðafélags íslands (grein)
  • 2005: Lifað og leikið í Árbæjarsafni: Gítar einkar meðfærilegt hljóðfæri. Í Þingholtsstræti 9 var mikið tónlistarlíf undir lok 19. aldar því þar voru haldin svokölluð Píuböll sem helstu þjónustupíur bæjarins sóttu vel. Húsið, sem flutt var á Árbæjarsafnið árið 1969, var byggt af snikkaranum Helga Jónssyni árið 1846 (grein).