Bygging núverandi húss

Grundarstígur 5a (fyrir miðju á myndinni) er byggt árið 1883 skv. húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur og þar með elsta húsið við Grundarstíginn (1).  Skv. fasteignaskrá er það byggt 1923 en það mun vera rangt.

Fyrsti eigandi  hússins var Sigurður Hansson múrari eða steinsmiður eins og hann var nefndur, en hann vann m.a. um tíma að byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg (sjá grein) . Húsið var upphaflega kallað Grundarhús sbr. Guðjón Friðriksson. Ekki er vitað hver hannaði húsið.

Áður en núverandi hús kom til stóð bærinn Grund á lóðinni en árið 1909 náði hún frá Spítalastíg að Bjargarstíg (2).

Í manntalinu árið 1910 kemur fram að húsið er í eigu Ólafs Theodórssonar frá Borðeyri (sbr. Guðjón Friðriksson). Hann bjó þó sjálfur ekki í húsinu, heldur Jón Hallsson daglaunamaður og kona hans Álfheiður Stefánsdóttir.

Skv. húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur er húsið úr bindingsverki, sem fyllt er í með múrsteini og hraungrjóti með járnþaki. Síðar var húsið klætt utan með borðum og enn síðar járnklætt.
Húsið hefur tekið breytingum í gegnum tíðina en heldur upprunalegum byggingarstíl (2).


Starfsemi í húsinu í gegnum tíðina

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

Ólíkt ýmsum öðrum húsum við Grundarstíginn, ber lítið á auglýsingum varðandi Grundarstíg 5A í dagblöðum fyrri ára. Aðeins ein auglýsing fannst sem fallið gat undir starfsemi:

  • 1927: Sigríður Teitsdóttir tekur að sér þvotta og strauningar (augl.)

Heimildir:

1. Guðjón Friðriksson. (1990, 13. október).  Úr sögu Grundarstígs:  Á slóðum Grundarbæjanna í Reykjavík.  Lesbók Morgunblaðsins. Sótt 19. júlí 2010 af http://www.timarit.is/view_page_init.jsp?issId=242470&pageId=3308506
2. Páll V. Bjarnason. (2004). Húsakönnun:  Bergstaðastræti – Bjargarstígur – Grundarstígur – Óðinsgata – Spítalastígur. Reykjavík:  Árbæjarsafn