Þann 27. mars 2010 var hátíðleg stund í Hannesarholti þar sem fagnað var útkomu bókarinnar „Bard of Iceland“ um listaskáldið Jónas Hallgrímsson eftir Dick Ringler, prófessor emeritus í enskum miðaldabókmenntum og norrænum fræðum við Wisconsin háskóla.
Það er Mál og menning sem gefur verkið út en Hannesarholt lagði til styrk til útgáfunnar. Bókin kom fyrst út í Bandaríkjunum 2002 en er nú loks fáanleg hér á landi. Nánari upplýsingar um Bard of Iceland á vefsíðu Forlagsins.
Á vef Wisconsin háskóla má sjá mikið safn upplýsinga um Jónas Hallgrímsson og þýðingar Dick Ringler: http://www.library.wisc.edu/etext/jonas/
Í tilefni útgáfunnar kom Dick Ringler til landsins og var vel fagnað af gestum í Hannesarholti. Þar kom fram stúlknahópur úr Skólakór Kársness undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur og söng þýðingar Ringlers á þremur ljóðum Jónasar á ensku og fékk til liðs við sig Víking Heiðar Ólafsson píanóleikara. Ragnheiður Jónsdóttir talaði fyrir hönd Hannesarholts og sagði frá kynnum sínum og tengslum við Dick Ringler og Silja Aðalsteinsdóttir kynnti nýju útgáfuna fyrir hönd Forlagsins. Loks talaði Dick Ringler sjálfur og sagði gestum frá því hvernig áhugi hans vaknaði upphaflega á Íslandi, tungumálinu og Jónasi.
Meðal annarra góðra gesta var Vigdís Finnbogadóttir sem spjallar við Dick Ringler á myndinni hér fyrir neðan. Fleiri myndir frá athöfninni í Hannesarholti.