Sunnudaginn 4. desember næstkomandi eru liðin 150 ár frá fæðingu Hannesar Hafstein, skálds og fyrsta ráðherra Íslands. Af því tilefni mun Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu verða opnaður almenningi, þar sem Guðjón Friðriksson sagnfræðingur leiðsegir gestum og gangandi.
Húsið að Grundarstíg 10, síðasta heimili Hannesar Hafstein, hefur á síðastliðnum tveimur árum notið gagngerra endurbóta, sem nú eru langt á veg komnar. Aðstandendur Hannesarholts vilja leggja sitt af mörkum til að fagna afmælisdeginum með því að opna húsið að Grundarstíg 10 fyrir hollvinum og öðrum velunnurum frá klukkan 11.30-13:30, sunnudaginn 4. desember.