Hinsti dagur árs er úti,
aftansólin hnigin er.
Nýja ár, sem ert að koma,
einn jeg stari móti þjer.
Gamla ár, jeg græt þig eigi,
grátið víst var á þjer nóg.
Dey, með þínum drepnu vonum,
dauða, er þjer í skauti bjó.
Áður trúði jeg æsku krafti,
alt mjer fanst svo bjart og ljóst,
trúði á eigin mátt og megin,
manndóm vina, drenglynd brjóst. – –
Þey, mitt gamlárs kveðju kvæði
kemur ekki neinum við.
Engum manni önd mín lýtur,
engan mann jeg vægðar bið.
Roðar aftur ár af nýju,
ár, sem vor í skauti ber.
Þetta beiska ár er úti.
Aftansólin hnigin er.