Hvað gef ég um gullöldur veiga,
af gleðinni hefi ég nóg.
Lát karlhrófin kaldlyndu teyga,
sem koma frá volki á mannlífsins sjó.
Hvað gef ég um gullöldur veiga,
ef glaðlynda meyju ég hef
og með henni munardrykk teyga
og mungátið ástkossa þigg bæði og gef.
Hvað gef ég um glitrandi þrúgur,
hvað gef ég um faðmandi við,
hvað gef ég um gullorpnar hrúgur,
hvað gef ég um tunglsljós og náttgala klið,
ef viðkvæmar varir mér blika
og vefja mig armar á snót,
sem brjóst mér við brjóst lætur kvika
og blíðmæli hvískrar með ástfjörug hót.
Hvað gef ég um glóandi veigar,
þær gefa ekki vitund um mig,
þær vita’ ei, að vörin þær teygar,
þær vita’ ekki heldur hið minnsta um sig.
En meyjan, ég veit, að hún veit það
og vill láta teygast af mér,
í augum þér, ástmey, ég leit það,
og oft hef ég reynt það – já, reynt að svo er.
Hvað gef ég um glampandi skálar,
hvað gef ég um vínkæti, ég,
sem kossa fæ kyssandi sálar
og kætina lifandi að hjarta mér dreg.
Hvað gef ég um gullöldur veiga,
af gleðinni hefi eg nóg.
Lát karlhrófin kaldlyndu teyga,
sem koma frá volki á mannlífsins sjó.