Hrafnar mæta aftur í Hljóðberg föstudagskvöldið 6. nóvember klukkan 20.00. Húsið opnar klukkan 18.30 og hægt er að panta borð og léttar veitingar. Hrafnar hafa starfað frá árinu 2008. Hljómsveitina skipa bræðurnir Georg og Vignir Ólafsson, bræðurnir Helgi og Hermann Ingi Hermannsson og Hlöðver Guðnason. Hér eru engir nýgræðingar á ferð, en allir eiga þeir farsælan feril í tónlistinni með vinsælum hljómsveitum gegnum tíðina.
Hrafnar gefa sig út fyrir að vera þjóðlagasveit og bendir hljóðfæraskipan hennar sannarlega í þá átt; banjó, mandólín, kontrabassi, gítar, flautur, munnhörpur, trommur og ásláttur allskonar.
Rokkið er ekki langt undan, enda uxu hljómsveitarmeðlimir úr grasi á tímum byltingarinnar sem Bítlarnir hrundu af stað. Hrafnar leika gjarnan Írska og Skoska tónlist, country og bluegrass, blues og teygja sig jafnvel lengra suður á bóginn á stundum.
Hrafnarnir eiga talsverðan sjóð eigin laga og texta og munu þeir leyfa tónlistargestum að heyra, bæði það sem hefur verið gefið út og nýrra efni. Lög eins og Ragga, Fríða og Rósa, Karlinn er dauður, Velkominn á Bísann og Stígðu ekki á strikið náðu umtalsverðri spilun á Rás 2 og komust öll í topp tíu vinsældarlista Rásar 2.