María Loftsdóttir hefur numið myndlist og sótt sér innblástur víða um heim. Hún hefur fjölskyldutengsl í Japan og hefur ferðast þar víða, alltaf með vatnslitablokkina í farteskinu. María hafði lengið gengið með þá hugmynd í maganum að gaman væri að sýna Japönum íslenskt landslag í vatnslitamyndum.
Þegar jarðskjálftinn mikli reið yfir Japan aríð 2011 ákvað María að stundin væri runnin upp og hóf að mála af miklum móð. Hún sýndi síðan afraksturinn arið 2013 í Toyako Museum of Art Hokkaido. Eftir að sýningunni lauk var uppboð á myndunum og allur ágóði rann til Rias Ark Museum á Jarðskjálftasvæðinu sem safnar upplýsingum um jarðskjálfta. Sumarið 2016 fór María enn á ný til Japan með skissublokkina, dróg í sig japanskan andblæ og málaði myndirnar sem nú verða sýndar í Hannesarholti.
Hringnum er lokið í bili, María sem færði Japönum Ísland kemur nú með Japan til Íslands, vonandi án þess að jörðin skjalfi of kröftuglega!
María Loftsdóttir f.1946 er listakona og sjúkraliði. Hún hefur numið myndlist víða m.a. í Myndlistarskóla Reykjavíkur, Myndlistarskóla Kópavogs, sótt námskeið og tíma hjá mörgum af okkar helstu myndlistarmönnum og einnig sótt námskeið víða erlendis. María er meðlimur í Norrænu vatnslitasamtökunum og hefur haldið níu einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum.