Hleð Viðburðir
Syngjum saman í Hannesarholti er í höndum Sigga og Ingibjargar laugardaginn 3.maí kl.14. Textar á tjaldi og allar kynslóðir syngja með. Frítt inn.
Siggi&Ingibjörg hafa starfað saman við tónleikahald, tónsmíðar og í smiðjuvinnu með fólki á öllum aldri um langt árabil, hlotið tilnefningar og verðlaun fyrir störf sín. Þar á meðal er 10 ára afmælislag tónlistarhússins Hörpu sem hópur 10 ára tónskálda samdi undir handleiðslu þeirra. Verkefnið hlaut Lúðurinn árið 2022 sem viðburður ársins. Þau unnu einnig að nýrri tónsmíð fyrir geimverur með stórum hópi grunnskólabarna á Íslandi árið 2023 – Sendum tónlist út í geim!, ásamt tónlistarkonunni Sóleyju Stefánsdóttur og hönnunarteyminu ÞYKJÓ. Verkefnið hlaut tilnefninu til alþjóðlegu YAM tónlistarverðlaunanna árið 2023 sem verkefni ársins í flokki þátttökuverkefna. Þau vinna nú að frumsömdu efni og stefna á að gefa út sína fyrstu plötu saman á næsta ári.
Siggi og Ingibjörg koma nú aftur til að syngja saman í Hannesarholti, en síðast þurftu þau að streyma heim í stofu á Covid tímum. Þau eru spennt að taka á móti fólki og syngja saman í raunheimum enda ekkert sem jafnast á við samveru í tónlist. Efnisskráin er aðgengileg og skemmtileg fyrir söngunnendur á öllum aldri!
Sigurður Ingi Einarsson er lagahöfundur, hljóðfæraleikari og tónlistarkennari. Hann lauk burtfararprófi á slagverk við FÍH auk þess að ljúka BA í skapandi tónlistarmiðlun við LHÍ 2014. Síðustu ár hefur hann verið iðinn við allskyns spilamennsku og kennslu. Eitt af stærstu verkefnum hans síðustu ár er tónsköpunarvinnusmiðjan Spunavélin sem hann bjó til og stýrir, en einnig hefur hann sinnt tónlistar- og kennsluverkefnum fyrir Hörpu, RÚV og Listahátíð. Í dag starfar Sigurður að hluta til sem slagverkskennari í Tónskóla Sigursveins. Sigurður er meðlimur í hljómsveitinni VAR sem gaf út plötuna Neverending year árið 2020. VAR hefur meðal annars spilað á nokkrum tónleikum í Japan, auk þess að hafa spilað í Bandaríkjunum og á fjölmörgum tónleikum víða um Evrópu. Sigurður Ingi semur tónlist og texta undir eigin nafni og er von á hans fyrstu sólólpötu á þessu ári.
Ingibjörg Fríða Helgadóttir er sjálfstætt starfandi söngkona með fjölbreyttan bakgrunn í tónlist og hefur unnið að fjölda verkefna. Hún hefur lokið burtfararprófi bæði í klassískum söng og rytmískum söng ásamt BA prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands þar sem hún var skiptinemi um skeið í jazzdeild Sibeliusarakademíunnar í Helsinki. Síðustu ár hefur hún starfað við tónlist frá ýmsum hliðum. Hún hefur komið fram með atvinnukórum og kammerhópum í tónlistarflutningi og upptökum (m.a. Cantoeque Ensemble og Schola Cantorum), jazz- og popphljómsveitum, sungið inn á teikni- og kvikmyndir, komið fram á fjölskylduskemmtunum, kennt börnum og ungmennum tónlist í vinnusmiðjum og einkatímum. Hún sinnir einnig stundarkennslu við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Ingibjörg Fríða er dagskrárgerðarkona og stýrir tveimur vinsælustu hlaðvörpum RÚV í flokki fjöskylduefnis, Þjóðsögukistan og Í ljósi krakkasögunnar. Hún starfaði einnig sem fyrsti verkefnastjóri barnamenningar í tónlistarhúsinu Hörpu frá byrjun árs 2022 til ársloka 2024. Af útgefinni tónlist má nefna plötuna Konan í speglinum (2023) með dúettinum Ingibjargir og Jazzhrekkur (2023) með Leifi Gunnarssyni og Sunnu Gunnlaugsdóttur. Fyrir þá plötu hlaut Ingibjörg tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir söng ársins í djassi.

Upplýsingar

Dagsetn:
3. maí
Tími:
14:00 - 15:00
Viðburður Category:

Staðsetning

Hannesarholt
Grundarstígur 10
Reykjavík ,
+ Google Map