Bygging núverandi húss
Húsið að Grundarstíg 5B stendur töluvert uppi í lóðinni á milli húsanna nr. 5 og 5A. Það er byggt árið 1907 skv. fasteignaskrá en 1909 skv. húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur (1). Fyrsti eigandi hússins var Ólafur Theodórsson trésmiður.
Í umræddri húsakönnun segir ennfremur að húsið sé úr svokölluðum timburbindingi, klætt með bárujárni. Ólafur Theódórsson smiður keypti bæinn Grund árið 1909 sem stóð þar sem nú er Grundarstígur 5a. Um leið eignaðist hann alla lóðina sem náði þá frá Spítalastíg að Bjargarstíg. Síðar sama ár byggði hann húsið sem nú heitir Grundarstígur 5B sem þá stóð við austurmörk lóðarinnar. Húsið hefur vissulega tekið breytingum í gegnum tíðina en þó haldið upprunalegum byggingarstíl.
Karólína Sigurðardóttir kaupmaður keypti húsið 4. október árið 1909 fyrir 5.300 kr. af Ólafi Theódórssyni og seldi það ári síðar Ólafi Þórðarsyni fyrir 4.900 kr.
Starfsemi í húsinu í gegnum tíðina
Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.
Óhætt er að segja að ekki fer jafnmikið fyrir starfsemi í þessu húsi í gegnum áratugina og í mörgum öðrum húsum við Grundarstíginn þegar flett er í gegnum gömul dagblöð. Aðeins tvær tilkynningar fundust og þær eru eftirfarandi:
- 1919: Lærð hjúkrunarkona fæst á Grundarstíg 5 B (augl.)
- 1931: Menn teknir í þjónustu (augl.) – Hér má bæta við að ef þessi auglýsing birtist í dag má gera ráð fyrir einhverjum misskilningi…
Heimildir:
1. Páll V. Bjarnason. (2004). Húsakönnun: Bergstaðastræti – Bjargarstígur – Grundarstígur – Óðinsgata – Spítalastígur. Reykjavík: Árbæjarsafn.
2. Ísafold. (4. júní 1910).