Þann 17. júní 2011, var frumflutt í útvarpinu á Rás 1 nýtt lag við eina af perlum Hannesar Hafstein: Minningarljóð á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar 17.júní 1911: “Þagnið dægurþras og rígur!”
Tryggvi M. Baldvinsson, hefur samið að beiðni Hannesarholts, afar hátíðlegt og kröftugt lag, sem Karlakórinn Fóstbræður syngur undir stjórn Árna Harðarsonar og mátti heyra á Rás I sem síðasta lag fyrir fréttir og einnig í útvarpsþættinum “Sjá roðann á hnjúkunum háu” þ. 17. júní.
Minningarljóð HH um Jón Sigurðsson á hundrað ára afmæli hans, 17.júní 1911
Þagnið, dægurþras og rígur!
Þokið, meðan til vor flýgur
örninn mær, sem aldrei hnígur
íslenskt meðan lifir blóð:
minning kappans, mest sem vakti
manndáð lýðs og sundrung hrakti,
fornar slóðir frelsis rakti,
fann og ruddi brautir þjóð.
Fagna, Ísland, fremstum hlyni
frama þíns, á nýrri öld,
magna Jóni Sigurðssyni
sigurfull og þakkargjöld!
Lengi hafði landið sofið
lamað, heillum svift og dofið –
fornt var vígið frelsis rofið,
farið kapp og horfin dáð.
Þegar loks um álfu alla
árdagsvættir heyrðust kalla –
þjóð vor rumska þorði varla,
því að enginn kunni ráð –
þar til hann kom , fríður, frækinn,
fornri borinn Arnar slóð,
bratta vanur, brekkusækinn.
Brjóst hann gerðist fyrir þjóð.
Vopnum öldungs anda búinn,
öllu röngu móti snúinn,
hreinni ást til ættlands knúinn,
aldrei hugði’ á sjálfs sín gagn.
Fætur djúpt í fortíð stóðu,
fast í samtíð herðar óðu,
fránar sjónir framtíð glóðu.
Fylti viljann snildar magn.
Hulinn kraft úr læðing leysti,
lífgaði von og trú á rjett.
Frelsisvirkin fornu reisti,
framtíð þjóðar mark ljet sett.
Áfram bauð hann: “Ekki víkja”.
Aldrei vildi heitorð svíkja.
Vissi: Hóf æ verður ríkja
vilji menn ei undanhald.
Víðsýnn, framsýnn, fastur, gætinn,
fjáði jafnan öfgalætin,
kostavandur, sigri sætinn
sótti rjettinn, skildi vald.
Jafnt í byr og barning gáður
báts os liðs hann gætti þols.
Engun dægurdómum háður. –
Dýrra naut hann sjónarhvols.
Lífstríð hann varð landsins saga.
Langar nætur, stranga daga
leitaði´ að hjálp við hverjum baga
hjartkærs lands, með örugt magn.
Alt hið stærsta, alt hið smæsta,
alt hið fjærsta og hendi næsta,
alt var honum eins: hið kærsta,
ef hann fann þar lands síns gagn.
Ægishjálm og hjartans mildi
hafði jafnt er stýrði lýð;
magn í sverði, mátt í skildi
málsnild studdi, hvöss og þýð.
Arnarfjörður, fagra sveitin!
fjöllum girt, sem átt þann reitinn,
þar sem nafni hann var heitinn,
hetjan prúð, sem landið ann,
heill sje þjer og þínum fjöllum,
þar sem sveinninn, fremri öllum,
lærði að klifa hjalla af hjöllum,
hátt, uns landið frelsi vann!
Eyrin Rafns! Það ljós, sem lýsti
löngu síðan við þinn garð,
enga helspá í sjer hýsti:
Íslands reisnar tákn það varð.
Ísland, þakka óskasyni,
endurreisnar fremstum hlyni,
þakka Jóni Sigurðssyni,
sem þjer lyfti mest og best.
Sjást mun eftir aldir næstu
enn þá ljós af starfi glæstu.
Nær sem marki nær þú hæstu
nafn hans ljómar æðst og mest.
Gleðji Drottinn frömuð frelsis,
fósturjarðar sverð og skjöld!
Lagabætir, brjótur helsis,
blessist starf þitt öld af öld!
(Úr Ljóðabók eftir Hannes Hafstein, önnur útgáfa, gefin út í Reykjavík 1925 af Þorsteini Gíslasyni, Gutenberg bls. 36-9)