Nemendur í framhaldsnámi í þjóðfræði við Háskóla Íslands kynntu í gærkvöldi í Hannesarholti niðurstöður vinnu sinnar í tengslum við námskeið James Learys, prófessors við Wisconsin-háskóla, Hagnýt þjóðfræði: Reynslan frá Bandaríkjunum, möguleikarnir á Íslandi.
Þjóðfræðistofur og –miðstöðvar helgaðar hagnýtingu þjóðfræða, grasrótarstarfi, alþýðulist og menningarlegum margbreytileika eru margar í Bandaríkjunum og starf þeirra stendur með miklum blóma. Ýmist er um að ræða sjálfseignarstofnanir, félög, fyrirtæki eða opinberar stofnanir og deildir í stofnunum (þ.á.m. í háskólum) en allar eiga þær sammerkt að byggja á vettvangsrannsóknum en setja niðurstöður þeirra fram með sýningum, hátíðahaldi, blaðaskrifum, bókaútgáfu, vefútgáfu, útvarpsþáttagerð og gerð heimildamynda þar sem þátttakendur í lifandi alþýðuhefðum og grasrótarmenningu eru í aðalhlutverki og eru ætlaðar breiðum hópi gesta, lesenda, hlustenda eða áhorfenda.
Í námskeiði Learys voru nemendur að skoða ýmsar hliðar á hagnýtingu þjóðfræða: Sögulegar, menningarlegar, pólitískar, efnahagslegar og siðferðislegar. Þeir tóku þátt í vettvangsrannsókn sem þeir síðan hagnýttu í sameiginlegu lokaverkefni sem meðal annars má skoða á heimasíðu námskeiðsins. M.a. ræddi James Leary við iðnaðarmenn sem starfa við endurbyggingu hússins að Grundarstíg 10, þar sem Hannesarholt hefur aðsetur. Nemendurnir eru Aline End, Anna Björg Ingadóttir, Anna Kjær Voss, Arndís Hulda Auðunsdóttir, Guðrún Emilía Kolbeinsdóttir, Gunný Ísis Magnúsdóttir, Samuel Ludger Levesque, Sæbjörg Freyja Gísladóttir og Trausti Dagsson.
Jim Leary er prófessor í þjóðfræði og norrænum fræðum við Háskólann í Wisconsin. Haustið 2012 kom hann hingað til lands sem gestaprófessor í þjóð- og þjóðháttarfræði við félagsvísindadeild H.Í. á vegum Fulbright stofnunarinnar á Íslandi. Hollvinafélag Wisconsin-háskóla og Madisonborgar kom á tengslum á milli Learys og Hannesarholts.