Rís heil, þú sól, sem enn oss færir ár,
það ár, sem þjóð vor lengi muna skal!
Rís heil, með sigurmark um bjartar brár
og bjarma roðin upp af tímans val.
Þú ljóssins drottning! blessa berg og dal,
þín birta læsi sig um fólksins hug,
til starfs og þroska vek þú hrund og hal,
á horfins tíma meinum vinn þú bug,
og vektu traust og trú og forna dáð og dug.
Já, vektu traust og dug, því dagur sá,
er dáð skal vinna – hann er kominn nær,
og lánist nú ei loksins rétti’að ná
og lokum stríðsins, þá er sigur fjær.
En sigurmörk þú sýnir, röðull skær,
því synir Íslands ráða nú þess hag.
Hvort lengi þráðu marki móðir nær
er mögum lagt í hönd einn ársins dag,
og hví skal efast um, að niðjar njóti lag?
Þitt stríð er orðið langt og þungt, vort land!
Nú loks á móðir kost að reisa bú
sem sonastyrk. Hvað gerir því þá grand?
Hví grípa þeir ei tækifærið nú?
Hvort hefur langvinn þrælkun þjakað trú
á þína krafta? Stríðið lamað dug?
Hvort er það þreyta, eða er sökin sú,
að sundrung leið og kritur vinni bug
á góðum vilja? Seg, hvað svellur þér í hug?
Þeir menn, sem börðust fremst, með traustri trú,
til takmarks þess, sem loks er fært að ná,
þeir eru horfnir heim um glæsta brú
og heiður þeirra einn nú dvelst oss hjá.
En andar þeirra horfa og hlusta á
hvert hjartaslag, sem snertir þeirra starf.
Þeir benda þjóð, að falla nú ei frá
né fyrirgera nú svo dýrum arf,
en muna, hvað hún var og hvað hún er og þarf.
Þér, Íslands synir, muna megið eitt,
að móðir vor á rétt, sem ei má hrjá.
Hvers einstaks vild ei vega má þar neitt
né vinsemd, óvild, basl né hokurstjá.
Allt slíkt er smátt, en mikil, helg og há
er hugsjón þjóða: Framtíð ættarlands, –
að gaufi ei þrælar gröfum fornum á,
en göfgist niðjar, manni frá til manns,
í fullri frelsislausn, – en viðjum bróðurbands.
Þér Íslands göfgu mæður, meyjar, fljóð,
sem mest og tryggast geymduð ljóð og sögn,
sem þakka má, að Ísland enn á þjóð,
og íslenzkt mál ei fallið er í þögn,
nú glæðið, eflið öll hin bestu mögn,
sem eru til í hjarta þjóðar enn,
svo komi að gagni sérhver ástarögn
til ættarlands, og synir, bræður, menn,
nú fylkist í þann flokk, að réttur sigri senn.
Kom nýar, kom þú heilt til starfs og stríðs,
og steyp þú öllum myrkravöldum lágt!
Ber fram til sigurs réttinn lands og lýðs
og lát hið sanna birtast opinskátt.
Kom, gef þú sljóvum vilja, veikum mátt,
en veit oss fyrst og fremst að skynja rétt.
Svo þor að fylgja réttu’ og horfa hátt
og hika ei við það mark, sem vel er sett.
Þá loks, með sigri og sæmd, skal stríði löngu létt.