ViðburðirFimmtudagskvöld 21. mars, kl. 20 verður fjölbreytt söngvaka í salnum í Hannesarholti á Grundarstíg 10. Þar flytur hópur söngfólks og tónlistarmanna söngva í tilefni af útgáfu albúmsins Kúnstir náttúrunnar (CD- og DVD-diskur).  

Útgáfan er helguð aldarafmæli Sigurðar Þórarinssonar sem var á síðastliðnu ári. Útgefendur albúmsins standa að dagskránni í samstarfi við Hannesarholt. Flutt verða söngvísur við ljóðaþýðingar og frumsamda texta Sigurðar auk þess sem gerð verður stuttlega grein fyrir útgáfunni og tilurð söngvísnanna.

Edda Þórarinsdóttir og tríóið Pálsson flytja nokkra söngva, þar á meðal einn sem er á fyrrnefndum hljómdiski. Þá verða flutt þekkt sönglög við ljóð Hannesar Hafstein og tilvalið að gestir taki undir. Flytjendur á tónleikunum eru  Árni Björnsson, Björgvin Gíslason, Edda Þórarinsdóttir, Elín Ýrr Agnarsdóttir, Gunnar Guttormsson, Halldór Ólafsson, Kristján Hrannar Pálsson, Magnús Pálsson, Njáll Sigurðsson,  Oddur Sigurðsson, Páll Einarsson,  Reynir Jónasson og Rúnar Einarsson.

Aðgangseyrir er kr. 2.000. Hægt er að panta miða með því að senda tölvupóst á netfangið songvaka@gmail.com. Athugið að salurinn rúmar aðeins liðlega 60 manns og því mikilvægt að panta tímanlega. Miðar eru greiddir við innganginn rétt fyrir tónleikana. Í hléi geta tónleikagestir fengið sér kaffi eða te. Einnig gefst þá kostur á að kaupa albúmið.