Hleð Viðburðir

Guðrún Kristjánsdóttir, myndlistarmaður, verður gestur Hannesarholts miðvikudagskvöldið 23. október kl. 20:00. Guðrún hefur unnið að list sinni í yfir þrjátíu ár og sýnt víða í Evrópu, Ameríku og í Asíu. Hún hefur með verkum sínum náð að skapa sérstaka sýn á náttúruna sem hún miðlar í málverkum sínum, prent- og vídeóverkum auk stórra veggmynda og innsetninga. Hún leitast við að höndla hreyfingu og hringrás síkvikrar náttúru, veðrabrigði, birtuskil og fasaskipti landsins. Umhleypingar í veðri teikna í landslagið “handrit” sem endurnýjast í sífellu og finna sér stað í verkum Guðrúnar. Í spjalli eina kvöldstund með Guðrúnu í Hannesarholti ræðir Guðni Tómasson, listsagnfræðingur, við hana um verk hennar og hugmyndir. Fjallshlíðar og vatn í fjölbreyttum myndum koma við sögu og myndir af verkum verða sýndar um leið og rætt verður um verkin, hugmyndaheiminn og aðferðir listakonunnar.

 

Upplýsingar

Dagsetn:
23/10/2013
Tími:
20:00 - 21:30
Verð:
ISK1.000
Viðburður Categories:
,

Staðsetning

Hljóðberg