2024-09-30T00:00:00+00:00
Hleð Viðburðir

Systkinin Kristín og Guðfinnur Sveinsbörn blása nú til sinna annarra systkinatónleika. Annað árið í röð, þá myndu einhverjir segja að þetta væri orðin hefð. Þau ætla að flytja sönglög sem og óperuaríur úr ýmsum áttum, innlend sem erlend og að sjálfsögðu verða til viðbótar á dagskránni íslenskar dægurlagaperlur sem allir ættu að kannast við. Þetta eru fyrstu tónleikar Kristínar á íslandi síðan hún gekk til liðs við óperuakademíu La Scala í Mílanó.

Á tónleikunum verður frumfluttur dúett sem Petter Ekman semur við ljóð Jakobínu Sigurðardóttur, Fimm börn, sérstaklega fyrir þetta tækifæri. Hér er líka hefð í myndun, annað árið í röð fá systkinin til liðs við sig ungt tónskáld til að semja dúett fyrir tækifærið.

Meðleikari á tónleikunum er Hrönn Þráinsdóttir.

Tónleikarnir hefjast klukkan 16, þann 9. júlí næstkomandi. Miðaverð er 2.000 krónur og hægt er að nálgast miða á midi.is. Á síðasta ári varð uppselt fyrir tónleika og þurfti að vísa fólki frá. Við hvetjum ykkur því til að næla ykkur í miða sem allra fyst!

Kristín Sveinsdóttir hóf að syngja árið 1997 með Krúttakór Langholtskirkju. Síðan þá söng hún með öllum kórum kirkjunnar og kom þar oft á tíðum fram sem einsöngvari undir stjórn Jóns Stefánssonar. Frá unglingsaldri sótti Kristín einsöngstíma til Hörpu Harðardóttur og lauk svo burtfararprófi undir hennar leiðsögn haustið 2013 frá Söngskólanum í Reykjavík. 2013-2014 sótti Kristín einnig söngtíma til Sigríðar Ellu Magnúsdóttur. Haustið 2014 hóf Kristín bacherlornám í klassískum söng við Tónlistarháskólann í Vínarborg undir leiðsögn Prof. Margit Klaushofer. Kristín er nú í ársleyfi frá skólanum í Vín og syngur við óperustúdíóið Accademia del Teatro alla Scala í Mílanó. Í vetur hefur Kristín komið fram sem einsöngvari á tónleikum og einnig í litlum óperuhlutverkum í Scala óperunni og í september mun hún syngja 2. Dömu í nýrri uppsetningu af Töfraflautunni eftir Mozart. Kristín söng bakraddir inn á Biophilia plötu Bjarkar Guðmundsdóttur og tók svo þátt í þriggja ára heims- og tónleikareisu sem fylgdi á eftir plötunni. Kristín tók einnig þátt í að stofna sönghópinn Lyrika og starfaði með honum þar til leiðin lá til Vínar.

Guðfinnur Sveinsson hóf að syngja árið 2009 með Kór Langholtskirkju, undir stjórn Jóns Stefánssonar og hefur einnig sungið með Óperukórnum í Reykjavík, undir stjórn Garðars Cortes. Hann hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík haustið 2013 og lauk nú í vor framhaldsprófi við skólann. Þar hefur hann notið leiðsagnar Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og píanóleikaranna Kristins Arnar Kristinssonar og Hrannar Þráinsdóttur. Guðfinnur kom fram með Nemendaóperu skólans á Söngdönsum Jóns Ásgeirssonar í Salnum og sl. haust kom hann fram á tónleikum Listafélags Langholtskirkju: Ungir einsöngvarar. Guðfinnur hefur stundað píanónám við Tónskóla Sigursveins undir leiðsögn Júlíönu Rúnar Indriðadóttur sem og í einkatímum hjá Mörtu Liebana, kennara við CvA í Amsterdam. Guðfinnur hefur einnig leikið á gítar og hljómborð í hljómsveitinni For a Minor Reflection.

Upplýsingar

Dagsetn:
10/07/2016
Tími:
16:00 - 17:00
Verð:
kr.2000
Viðburður Category:
Vefsíða:
midi.is

Staðsetning

Hljóðberg
Go to Top