Samsýning Hörpu Másdóttur og Hrafnhildar Gunnarsdóttur á ljósmyndum teknum 2016 á Íslandi og í Arizona. Sjónrænt samtal gefur þessum ólíku aðstæðum eigið tungumál þar sem litir, áferð og andstæður renna saman og segja sína eigin sögu. Samhliða ljósmyndunum sýnir Harpa verk sem hún vinnur með blandaðri tækni. Verkin eru unnin á viðarplötur og eru spunnin út frá ljósmyndunum. Sýningin stendur yfir til 6. júní.
Þetta er í fyrsta sinn sem Harpa og Hrafnhildur sýna saman. Hrafnhildur starfar við kvikmyndagerð og er með BFA gráðu frá San Francisco Art Institute í film/video. Harpa er nemandi við Listaháskóla Íslands og er að ljúka öðru ári. Hún útskrifaðist úr ljósmyndaskóla Sissu árið 2005 og kláraði fornám í Myndlistarskóla Reykjavíkur árið 2015.