Leiklestur – Hvað er í blýhólknum?
25/03/2018 @ 16:00
| kr.2500Leikhúslistakonur 50+ leiklesa leikrit Svövu Jakobsdóttur í Hannesarholti í mars og apríl. Fyrst er leikritið „Hvað er í blýhólknum” undir stjórn Þórhildar Þorleifsdóttur. Helstu leikendur eru: Anna Einarsdóttir, Arnar Jónsson, Guðbjörg Thoroddsen, Hanna María Karlsdóttir, Jón Magnús Arnarsson og Sigurður Skúlason.
„Hvað er í blýhólknum?” er fyrsta leikrit Svövu Jakobsdóttur. Það var frumsýnt 1970 og sætti tíðindum og þá ekki síður leikstjórn Maríu Kristjánsdóttur, en þetta var hennar fyrsta leikstjórnarverkefni að námi loknu. Hún leikstýrði jafnframt verkinu seinna bæði fyrir sjónvarp og útvarp.
Sýningin vakti mikla athygli og umtal á sínum tíma því hún kallaðist algerlega á við það sem var efst á baugi í samfélaginu. Árið 1970 er Rauðsokkahreyfingin stofnuð og leikritið, sem fjallar um stöðu kvenna á þeim tíma, var mikilvægt innlegg í þá baráttu.
Það hefur margt breyst á þeim áratugum sem liðnir eru frá frumsýningu „Hvað er í blýhólknum?”, en fróðlegt er að rifja upp umræðuna eins og hún var þá og bera saman við aðstæður og líf kvenna á Íslandi í dag. Hvað hefur breyst og hvar eru íslenskar konur staddar í dag.
Miðasala fer fram á tix.is. Opið er í veitingastofum Hannesarholts frá 11.30-17 á sunnudögum. Tilboð á kaffi og vöfflu á 1000 kr á undan leiklestrinum.