Bygging hússins

Húsið við Grundarstíg 21 er byggt árið 1903 skv. fasteignaskrá með viðbótum árið 1931.

Fróðleiksmolar

Guðjón Friðriksson skrifar m.a. um hús nr. 21 í grein sinni Úr sögu Grundarstígs: Frá Kapteins-Gunnu til Thorsbræðra  frá 1990:

„Á Grundarstíg 21 var á síðustu öld pínulítill bær sem hét Siggukot í daglegu tali en Sigríðarstaðir á skýrslum hins opinbera. Þar bjó Sigríður nokkur Jónsdóttir sem gætti kúa Reykvíkinga í Vatnsmýrinni. Nú er þarna einlyft timburhús frá því fyrir aldamót sem heitir Skáli. Í því bjó lengi Gísli Jóhannsson verslunarmaður og fjölskylda hans.“

Í vinsælum dálki í dagblaðinu Tímanum, Húsin í bænum, fjallar Freyja Jónsdóttir um Grundarstíg 21 árið 1996. Þar kemur m.a. fram að vitað er að Siggukot stóð þar árið 1883 og að lóðin var stækkuð árið 1887 fyrir kálgarð.  Hins vegar er  Siggukot ekki lengur á lóðagjaldskrá árið 1893. 1891 er byggður á lóðinni steinbær sem kallaður var Skáli og Ketill Bjarnason bjó í. Vitað er að sá steinbær var rifinn og byggt upp aftur á sama stað.  Síðan eru ýmsar viðbyggingar og stækkanir skráðar sem ekki verða týndar til hér en árið 1903 er vitað að Ketill fékk að hækka bæ sinn og byggja við hann skúr. Hann selur Gísla nokkrum Jónssyni húsið árið 1904 og „eftir það er Skáli í eigu sömu ættarinnar til ársins 1961“ segir í grein Freyju. Þegar Gísli kaupir þá er húsið komið í núverandi mynd fyrir utan viðbyggingu árið 1931. Sjá nánar í grein Freyju.

Þess má geta að Tónskóli Sigursveins var starfræktur í nokkur ár á efri hæð hússins eins og fram kemur í grein Freyju.


Starfsemi o.fl. tengt húsinu í dagblöðum fyrri tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1915: Merktur gullhringur fundinn. Vitja má á Grundarstíg 21. Gísli Jóhannsson (augl.)
  • 1924: Bækur, sem notaðar eru í efri deild Verslunarskólans, til sölu. Grundarstíg 21, uppi (augl.)
  • 1924: Stúlka óskast til útiverka stuttan tíma. Uppl. á Grundarstíg 21, uppi (augl.)
  • 1926: Orgel til leigu á Grundarstíg 21 (augl.)
  • 1926: Árni Eiríksson er fluttur á Grundarstíg 21 (augl.)
  • 1938: HERBERGI fyrir eínhleypa til leigu á Grundarstíg 21 (augl.)
  • 1966: Umfjöllun og viðtal við Helga Bergmann listmálara sem bjó í kjallaranum á Grundarstíg 21 (grein)
  • 2003: Gallerí Dvergur, opnun sýningar danska listamannsins Claus Hugos Nielsens (grein) – Árið 2003 og næstu ár fram til ársins 2008 héldu margir listamenn sýningar í kjallara bakhúss við Grundarstíg 21.