Bygging hússins

Heimildum ber ekki alveg saman um byggingarár þessa þekkta hús sem  er bæði byggt og teiknað  af Helga Helgasyni.  Samkvæmt fasteignaskrá er það byggt árið 1884 og einnig skv. umfjöllun í bók Páls Líndals: Reykjavík: Sögustaður við Sund, 3. b.

Í góðri umfjöllun Freyju Jónsdóttur Þingholtsstræti 25, Farsóttarhúsið í Morgunblaðinu 2002, kemur fram að bygging þess hefst 1884 en telst lokið í janúar 1885. Í greininni er fjallað ítarlega um sögu hússins og þar eru einnig myndir.

Í viðtali við Guðjón Friðriksson Á göngu með Guðjóni (1988) segir hann svo frá:

“Þetta er mjög merkilegt hús, sem lengi gekk undir nafninu Farsóttarhúsið. Þetta er líklega fyrsti spítalinn sem byggður var á íslandi gagngert sem spítali. Húsið var reist árið 1882 sem Sjúkrahús Reykjavíkur og var aðalsjúkrahús borgarinnar frá þeim tíma til ársins 1902, þegar Landakotsspítali var settur á stofn. Þá tók Landakot við sem nýtískusjúkrahús. Þetta hús var hins vegar gert að farsóttarsjúkrahúsi fyrir þá sjúklinga sem þurftu að vera í einangrun.“

Og Guðjón heldur áfram:

„Á bak við það stóð líkhús, en fyrir og um aldamótin hafði Læknaskólinn aðsetur í Farsóttarhúsinu, og þá fóru krufningar fram í líkhúsinu á bak við.  Þar var meðal annarra krufinn Þórður Malakoff og margar frægar sögur eru til um krufningar í því húsi. Þá tilheyrði líkt og nú að hafa líkhús í tengslum við sjúkrahús, og mér þótti skrýtið að líkhúsið skyldi vera rifið niður þegar farið var að gera þetta hús upp. Það var Helgi Helgason sem teiknaði og reisti þetta hús.“

Fróðleiksmolar

Varðandi Þórð malakoff segir Guðjón í útvarpsþættinum Flakk við Lísu Pálsdóttur 22. september 2007:

„Hér var m.a. krufinn Þórður Malakoff. Hann var sérkennilegur og mikill drykkjumaður. Vandræði að fá lík til krufningar, fólk vildi ekki leyfa það varðandi ástvini sína. Læknar gerðu þá samning við Þórð um að þeir fengju að kryfja hann að honum látnum í staðinn fyrir brennivínsflösku. Einn daginn fréttist af Þórði dauðum í verslun einni í bænum. Læknar þustu niður eftir til að sækja hann, en þá var hann bara brennivínsdauður. Þá orti Björn M. Ólssen (síðar rektor Menntaskólans) þetta kvæði: Loff Malakoff. 1899 dó hann þó og var krufinn í líkhúsinu.“

Líkhúsið var því miður rifið á sínum tíma en eftir því sem komist verður næst, stendur grunnur þess ennþá fyrir ofan Farsóttarhúsið gamla eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.

Læknaskólinn flutti í húsið 1884 og var þar í nokkur ár (sbr. viðtal við Jón Steffensen prófessor 1986)

Haft er eftir Guðmundi Magnússyni prófessor í greininni Háskóli Íslands í hálfa öld í Tímanum 1961 um aðbúnað læknanema:  „Í sömu stofunni varð stundum að kenna 20 stúdentum í senn. Borð og bekkir voru svo lélegir, að tæpast þættu boðlegir í lélegasta barnaskóla, ljósið lítilfjörlegur steinolíulampi“.

Gott er að hafa í huga að þetta var eini spítali borgarinnar í 18 ár (grein)

Svo virðist einnig sem kennsla í Yfirsetukvennaskóla Íslands hafi um tíma farið fram í Farsóttahúsinu (hugsanlega strax eftir stofnun skólans 1912) – (grein)

Áratugarnir milli 1920 og 1940 eru sorglega markaðir andlátsfregnum úr Farsóttahúsinu, þar af margra barna. Á þessum fyrri hluta aldarinnar voru taugaveiki, barnaveiki og skarlatsótt útbreiddar á Íslandi en síðar komu til sögunnar lömunarveiki, heilahimnubólga o.fl.

Í Farsóttahúsinu réði ríkjum til margra ára María Maack hjúkrunarkona (líklega frá 1920) og er greinilegt að þar hefur verið á ferð stórmerkileg kona . Þegar Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur orti kvæðið María, María, kom upp sá kvittur að þar væri ort um Maríu Maack.

Frá árinu 1970 hefur húsið verið notað sem athvarf fyrir útigangsmenn.

Starfsemi og fleira í húsinu úr dagblöðum fyrri tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1984: Spítalinn og læknaskólinn í Reykjavík (grein)
  • 1984: „Hinn nýi spítali í Reykjavík.“ Harðort bréf frá Jónasi Jónassen til ritstjóra Ísafoldar. (grein)
  • 1884: „Enn um hinn nýja spítala í Reykjavík.“ Vangaveltur um pláss og nýtingu húsnæðis ef Læknaskólinn fer þar inn líka (grein)

Mikið er um að herbergi séu auglýst til leigu á tímabilinu 1913 – 1919.

  • 1907: 1—2 herbergi með húsgögnum til leigu nú þegar í Þingholtsstræti 25 (grein)
  • 1910: „Mikilsháttar gjöf.“  Meðlimir Sjúkrahússfélagsins bjóða bænum að gjöf eignir félagsins þ.e. húsið nr. 25 við Þingholtsstræti (grein)
  • 1913: Guðr.Jónsd. straukona er flutt frá Klapparstíg 1 í Þingholtsstræti 25. (Gamla-spítalann uppi.) – (Tilkynning)
  • 1913: Tvö herbergi fyrir einhleypa til leigu í Þingholtsstræti 25 (gamla spítalanum) – (Augl.)
  • 1913: Eins og að undanförnu veiti jeg stúlkum tilsögn í að strjúka lín. Guðrún Jónsdóttir Þingholtsstræti 25 (augl.)
  • 1913: Hrosshár (tagl- o g faxhár) er keypt afar háu verðí i Þingholtsstræti 25 kl. 10—11 árd. (augl.)
  • 1913: Stofa er til leigu með forstofuinngangi í Þingholtsstræti 25. Ræsting getur fylgt ef vill (augl.)
  • 1913: Eftir 1. október er mig að hitta í Þingholtsstræti 25 (gamla spítalanum) kl. 11—12 árdegis og 7—8 síðdegis. Hómfriður Árnadóttir, kennslukona (augl.)
  • 1913: Námsskeið fyrir stúlkur ætla jeg undirrituð að halda næstkomandi vetur eins og að undanförnu. Kenslan byrjar 15. október og endar 1. maí. Ýmsar námsgreinar er um að velja bæði bóklegar og verklegar. Mig er að hitta kl. 11—12 árd. og 7—8 síðdegis í Þingholtsstræti 25 (gamla spítalanum). Hólmfríður Árnadóttir (augl.)
  • 1914: „Bókin kostar að eins 0,75 og er til sölu á skrifstofu Fiskifélagsins í Þingholtsstræti 25. (Skrifstofan er opin hvern virkan dag frá n—3).“ – (Augl.)
  • 1914: 2 stór herbergi, hentug fyrir skrifstofur, eru til leigu frá 14. maí í Þingholtsstræti 25.  (augl.)
  • 1914: Þorkell Þorláksson gjaldkeri Holdsveikra spítalans er fluttur í Þingholtsstræti 25 niðri (syðstu dyr til hægri á ganginum) – (Augl.)
  • 1914: Enska kend. Semjið við Sveinbjörn Egilsson, Þingholtsstræti 25. Til viðtals 11—3 — Alt er að sjómensku lítur í málinu kent (augl.)
  • 1915: Ágæt stofa og svefnherbergi með öllu tilheyrandi, hentug fyrir alþingismann, er til leigu i Þingholtsstræti 25, niðri (augl.)
  • 1915: T elpa 12—14 ára óskast í sumar. Hún má búast við að ferðast dálítið með konu, og gæta barns. Uppl. í Þingholtsstræti 25 (uppi) (augl.)
  • 1919: Gamli spítalinn á að verða farsóttarhús. Nefnd sú sem bæjarstjórniu kaus til þess að íhuga farsóttarhúsmálið l.agði tillögur sínar fyrir bæjarstjórnarfund í gær. Nefndin hafði komist að þeirri niðurstöðu, að ekki væri annað úrræði en að taka gamla spítalann, Þingholtsstræti 25, til afnota fyrir farsóttarhús. Hefir leigjendum hússins því verið sagt upp húsuæðinu, en þeir geta auðvitað ekki flutt burt þaðan fyr en þeim hefir verið útvegað jafngott húsnæði annarsstaðar.  Nefndin lagði til að bæjarsjóður kaupi af sjúkrahússjóðnum gamla spítalann og taki hann til afnota fyrir farsóttarhús. Samþykti bæjarstjórn í gær þá tillögu og enn fremur að neðri hæðin væri tekin til afnota þegar í stað. Húsið á að endurbæta og breyta svo þa verði nothæft í þessu skyni (frétt)
  • 1920: Silkisvunta, stakkpeysa og stórt koffort til sölu í Þingholtsstræti 25 (augl.)
  • 1920: Uppboð verður haldið mánudaginn 31. þ. m. kl. 4 síðdegis í Þingholtsstræti 25, á ýmsum búsáhöldum, t. d. taurullu, rúmstæðum, tunnum, eldhússáhöldum o. fl. Guðrún Jónsdóttir (augl.)
  • 1920: Um daginn og veginn. Sagt frá nokkrum taugaveikisjúklingum sem liggja á Farsóttahúsinu og að breytingum á efri hæð sé ekki lokið og því ekki hægt að taka inn skarlatssóttarsjúklinga (frétt)
  • 1920: Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjavík í apríl 1920. Vangaveltur Farsóttahússnefndar sem vill byggja við húsið í stað þess að byggja nýtt hús (frétt)
  • 1920: Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjavík í október 1920. Tillögur Farsóttahússnefndar um gjöld fyrir legudaga og kaup á sjúkrabíl (frétt)
  • 1920: „Eg undirritaður, sem hefi legið í farsóttahúsinu í Þingholtsstræti 25, en er nú kominn heim, votta hér með: að yfirhjúkrunarkonan frk. Mock hefir svo mikla lipurð og samviskusemi við sjúklinga, að þess munu fá dæmi í sjúkrahúsum“ (tilkynning)
  • 1921: Taugaveikisvarnir. Viðtal  við hr. Stefán Jónsson  docent. þar sem fram kemur að meðal varna sé einangrun sjúklinga í Farsóttahúsinu (viðtal)
  • 1921: Af bæjarstjórnarfundi í Reykjavík í nóvember 1921. Gagnrýni á hvernig staðið er að kaupum á kjöti hjá Farsóttahúsinu (grein)
  • 1922: Af bæjarstjórnarfundi í febrúar 1922. Samþykkt að laun hjúkrunarkonu við Farsóttahúsið verði 130 kr. á mánuði… (frétt)
  • 1926: Taugaveiki í Reykjavík. Sagt frá því þegar nokkrir sjúklingar finnast með taugaveiki og eru fluttir í Farsóttahúsið (frétt)
  • 1926: Þörfin fyrir landspítala. Rætt um hvernig notkun Farsóttahússins er þegar ekki eru farsóttir og fjölda sjúklinga á Sjúkrahúsinu í Landakoti (frétt)
  • 1922: Unglingsstúlka úr sveit óskar eftir árdegisvist. Uppl. gefur Maria Maack, Þingholtsstræti 25 (augl.)
  • 1929: Sel fæði frá 1. okt. í Þingholtsstræti 26. Uppl. gefur Þuríður Jónsdóttir, Þingholtsstræti 25 (augl.)
  • 1931: Létt vinna óskast fyrir fullorðinn mann, sem verið hefir tvö ár á sjúkrahúsi, en getur nú unnið ljetta vinnu, svo sem innheimtu eða þess háttar. Það væri gustuk að útvega þessum manni vinnu. Upplýsingar gefur María Maack, Þingholtsstræti 25, sími 1015 (augl.)
  • 1944: Herbergi óskast handa stúlku, sem er vökukona í Farsóttahúsinu. Uppl. gefur María Maach, Þingholtsstræti 25. Sími 4015 (augl.)
  • 1944: Starfsstúlkur óskast í Farsóttahúsið, Þingholtsstræti 25. Hátt kaup og langt sumarfrí. Talið við yfirhjúkrunarkonuna (augl.)
  • Mænuveikifaraldurinn og Farsóttarhúsið (grein)
  • 1950: …“ Loks var slökkviliðið kvatt að Þingholtsstræti 25, í Farsóttahúsið, kl. 16.13 í gær. Þar hafði kviknað í útvarpstæki. Eldur hafði komizt í gluggatjöld, en var fljótlega slökktur, án þess að mikil spjöll urðu af.“ (Frétt)
  • 1951: SPARNAÐARNEFND bæjarins segir, að meðferð matvæla á Farsóttarhúsinu sé „óskiljanleg eyðsla“ og telur, að spara megi 90—100 þúsund krónur á þessum lið einum. Þá vill nefndin fækka starfsfólki þar um tvær stúlkur (frétt)
  • 1953: 70 ára gamalt sjúkrahús er nú miðstöð nýrra læknisaðferða (grein)
  • 1959: Samtal við Maríu Maack sjötuga. María er þá enn forstöðukona Farsóttarhússins (grein).

María Maack 70 ára

  • 1964: Viðtal við Maríu Maack sjötíu og fimm ára, fyrrum hjúkrunarkonu/forstöðukonu í Farsóttahúsinu þar sem hún segir m.a. frá starfinu þar – (aðalviðtal hérframhald).
  • 1968: Músík. — Föndur: Námskeið fyrir 5 — 6 ára börn hefst 1. okt. n.k. að Þingholtsstræti 25. Símar 21844 og 30584 (augl.)
  • 1969: Gistiheimili fyrir heimilislausa áfengissjúklinga í Farsóttarhúsinu (frétt)
  • 1969: Mæðrastyrksnefnd og Vetrarhjálp hafa síðasta dag fataúthlutunar að Þingholtsstræti 25, miðvikudaginn næsta, þann 8. janúar frá kL 2—6. Ágætur fatnaður til að laga og sauma (frétt)
  • 1973: MÆDRASTYRKSNEFND.-Munið jólasöfnun Mæðrastyrksnefndar að Njálsgötu 3, Reykjavik. Opið daglega frá kl. 10—18. Fatagjafir kl. 14—18 i Þingholtsstræti 25. Fatagjöfum veitt viðtaka þar á sama tima (tilkynning)
  • 1974: „Lengri næturgisting og setustofa fyrir drykkjumenn“ – 5 ár frá opnun gistiskýlis að Þingholtsstræti 25 (grein)
  • 1977: Yfirlit yfir starfssemi gistiskýlisins í Þingholtsstræti 25 fyrir árið 1976 (frétt)
  • 1977: Hvað eru margir á röltinu? — Um 30 manns gista gamla Farsóttarhúsið um jólin (grein)
  • 1990: „Utangarðsmenn á götunni í Reykjavík“ Heimsókn í gistiskýlið á Þingholtsstræti 25 (grein). Myndir fylgja.
  • 1990: í Þingholtsstræti 25 verður áfengisráðgjafadeild Félagsmálastofnunar. Sími 11596. Viðtalstími áfengisfulltrúa verður mánudaga – miðvikudaga og föstudaga kl. 11—12 (tilkynning)
  • 1992: Þórður malakoff. Grein úr Lesbók Morgunblaðsins um þennan þekkta brennivínsberk sem seldi Læknaskólanum (í Sjúkrahúsi Reykjavíkur að Þingholtsstræti 25) líkið af sér fyrirfram… til krufningar (grein).