Er sólin hnígur hægt í djúpan sæ
og höfuð sitt til næturhvíldar byrgir,
á svalri grund, í golu þýðum blæ
er gott að hvíla þeim, er vini syrgir.
Í hinstu geislum hljótt þeir nálgast þá,
að huga þínum veifa mjúkum svala.
Hver sælustund, sem þú þeim hafðir hjá,
í hjarta þínu byrjar ljúft að tala.
Og tárin, sem þá væta vanga þinn,
er vökvan, send frá lífsins æðsta brunni.
Þau líða eins og elskuð hönd um kinn
og eins og koss þau brenna ljúft á munni.
Þá líður nóttin ljúfum draumi í,
svo ljúft, að kuldagust þú finnur eigi,
og, fyrr en veistu, röðull rís á ný,
og roðinn lýsir nýjum degi.
Maður sem yrkir svona á skilið hús og hann hefur fengið hús. Hannes Hafstein var skáld sólarinnar og fagnaðarins en líka sorgarinnar. Þegar hann tók við ráðherraembætti 1. febrúar 1904 var haldinn veisla til heiðurs honum. Magnús gamli Stephensen sem lét þá af embætti landshöfðingja var maður af gamla skólanum. Hann hélt ræðu og sagði hann að sig hefði á valdaferli sínum vantað frumkvæði, skapandi hugsjónir og aðra hæfileika til að ryðja nýjar framkvæmdabrautir. En það voru einmitt þessi hæfileikar sem Hannes Hafstein hafði í ríkum mæli. Hann var maður framkvæmda og sköpunar, kannski einmitt sá forystumaður sem þjóðina vantaði eftir fátæktar- og þröngsýnisbasl marga alda. Hann var glæsimennið, karlmennið, heimsmaðurinn og lífsnautnamaðurinn sem hafði sungið vífi og vínum lof í ótal kvæðum. Honum var annt um réttindi karla og kvenna en andsnúinn þjóðrembingi. Hann kom með ferskan andblæ inn í þjóðlífið sem vakti með Íslendingum tilfinningu fyrir því að þeir gætu skammlaust staðið á eigin fótum, hann kom með bjartsýnisanda og sjálfstraust sem Íslendinga hafði svo átakanlega vantað. La belle epoke, fallega tímabilið, var tíminn kallaður í Evrópu. Hannes Hafstein var holdgervingur la belle epoke á Íslandi. Alþjóðlegur og þjóðlegur í senn.
En hann var tilfinningamaður eins og kvæðið sem ég las hér í upphafi ber vott um. Þegar hann byggði þetta hús 1915, síðasta hús sitt, var sól hans að renna til viðar. Margt hafði Hannesi orðið anddrægt. Þegar hann flutti hingað inn hafði hann misst konu sína, Ragnheiði sem var hans stoð og stytta og hann elskaði af heitu hjarta. Hún var þá aðeins 42 ára og dó frá 8 börnum, flestum enn á unglings- og barnsaldri. Það var eins og við þetta bilaði lífsþrek Hannesar. Skömmu síðar fékk hann aðkenningu að heilablóðfalli og hér í þessu húsi voru hinstu geislar sólar í lífi þessa flotta manns, mannsins sem hafði ort:
Blessuð sólin elskar allt,
allt með kossi vekur;
haginn grænn og hjarnið kalt
hennar ástum tekur.
Geislar hennar út um allt
eitt og sama skrifa
á hagann grænan, hjarnið kalt:
himneskt er að lifa!
Til hamingju með Hannesarholt.
var _gaq = _gaq || []; _gaq.push(['_setAccount', 'UA-38855006-1']); _gaq.push(['_trackPageview']);
(function() { var ga = document.createElement('script'); ga.type = 'text/javascript'; ga.async = true; ga.src = ('https:' == document.location.protocol ? 'https://ssl' : 'http://www') + '.google-analytics.com/ga.js'; var s = document.getElementsByTagName('script')[0]; s.parentNode.insertBefore(ga, s); })();