Fyrrverandi forseti, Vigdís Finnbogadóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, mamma mín og aðrir góðir gestir.
Ég þakka ykkur fyrir að leggja leið ykkar hingað í dag á opnunarhátíð Hannesarholts.
Á þessum degi er mér efst í huga þakklæti yfir því að þetta verkefni sé nú að verða að veruleika, og von um að hér muni lánast að rækta þau gildi sem að er stefnt og megi verða þjóðinni til framdráttar.
Það eru mikil forréttindi fólgin í því að geta látið drauma sína rætast, og fyrir það vil ég þakka hér í dag. Foreldrum mínum, Marinellu Ragnheiði Haraldsdóttur og Jóni Guðmundssyni, þakka ég þann arf sem hefur fengið að ávaxtast í þessu verkefni.
Afi minn, Haraldur Kristjánsson, skipstjóri, sem ekki var margorður maður, ræddi þannig um Hannes Hafstein í mín eyru, að mér varð snemma ljóst að framlag Hannesar okkur til handa væri þakkarvert. Þegar ég síðan, fullorðin kona, kynntist þessu húsi Hannesar, lasburða öldungi sem þurfti aðhlynningar við, kallaði það á að þakklætið skyldi sýnt í verki og húsinu komið til betri vegar. Það yljar mér um hjartarætur að Hannesarholt hafi sprottið af þakklæti til þeirra sem á undan gengu.
Listinn er langur yfir það fólk sem hefur lagt okkur lið undanfarin fimm ár við að gera þennan draum hér í Hannesarholti að veruleika. Þegar gefið hefur á, og hvarflað hefur að okkur að leggja árar í bát, hefur samstaða og stuðningur þessa fólks orðið til þess að halda okkur á réttum kili. Hér hefur verið valinn maður í hverju rúmi, og eins og fólk getur séð sem gengur um húsið í dag, hefur fagmennska og virðing fyrir verkefninu einkennt starf þeirra fjölmörgu sem komu að því að vinna verkið.
Leiðin hefur verið löng og stundum torsótt, og því er gleðin í dag yfir vel unnu dagsverki heimilsfólksins í Hannesar-holti mikil.
Þetta hús, sem í upphafi er byggt af slíkri reisn og stórhug fyrir nær hundrað árum, hefur nú notið þvílíkrar aðhlynningar og alúðar, að við trúum að það muni standa af sér storminn í önnur hundrað ár. Við treystum því að húsið sé nú komið í þann búning að það megni að fóstra andlega og menningarlega uppbyggingu þeirra sem í það sækja.
„Menningin vex í lundum nýrra skóga“, orti Hannes Hafstein í aldamótaljóði sínu. Hannes er horfinn á braut og einnig skógurinn, sem holtið er nefnt eftir sem við stöndum nú í. Hins vegar er Hannesarholt komið til að vera þar sem skógurinn óx, og þar mun enduróma sá arfur sem Hannes Hafstein og hans samferðafólk skildi eftir sig okkur hinum til handa. Hér viljum við treysta menningarlegar rætur okkar kraftmiklu, nýjungagjörnu þjóðar, sem hefur hlaupið hratt síðustu öldina í átt til nútímans.
Sjálf hef ég kennt nemendum mínum að þar sem menningin er manngerð, þá sé það á þeirra valdi aðbreyta menningunni, finni þau í henni eitthvað sem þurfi breytinga við. Von mín og ósk á þessum hátíðisdegi í Hannesarholti, er sú, að við berum gæfu til að rækta hér innandyra heilbrigða sjálfsrýni, að saman getum við horft í spegil og gengist við myndinni sem við okkur blasir. Að við getum lært að tala saman af virðingu fyrir sjálfum okkur og hvert öðru, að við lærum að standa saman og skilja að við erum öll í sama liði. Að við ræktum með okkur einingu í stað sundrungar; að við rifjum upp hver við erum og getum betur fundið fótum okkar forráð á leið okkar til framtíðar.
Kæru gestir – Velkomin í Hannesarholt!
var _gaq = _gaq || []; _gaq.push(['_setAccount', 'UA-38855006-1']); _gaq.push(['_trackPageview']);
(function() { var ga = document.createElement('script'); ga.type = 'text/javascript'; ga.async = true; ga.src = ('https:' == document.location.protocol ? 'https://ssl' : 'http://www') + '.google-analytics.com/ga.js'; var s = document.getElementsByTagName('script')[0]; s.parentNode.insertBefore(ga, s); })();