Sjálfbærnistefna Hannesarholts

Undirstaða fyrir fjölbreytt og frjótt menningarlíf er vistfræðilega og samfélagslega heilbrigt umhverfi. Við trúum því að starfsemi Hannesarholts sé óaðskiljanleg frá þeim vistfræðilegu kerfum sem eru nauðsynleg jörðinni. Loftslagsvá og eftirköst óbeislaðrar neysluhyggju halda áfram að umbreyta samfélögum og lífsmynstri jarðarbúa á ófyrirséðan hátt. Hannesarholt skuldbindur sig til að styðja við réttlátari og sjálfbærari framtíð. Hannesarholt er afdrep fyrir þau sem sækja sér innblástur frá afrekum fortíðarinnar til að skapa framtíð sem byggð er á seiglu, samkennd, nýsköpun og von.

Hannesarholt gerir umhverfislegri, samfélagslegri, og efnahagslegri sjálfbærni jafn hátt undir höfði. Hannesarholt stendur fyrir metnaðarfullu verkefni, Heimili Heimsmarkmiðanna, sem tengir sjálfbærni við okkar daglega líf. Í því skyni hýsir Hannesarholt vef með ítarlegum upplýsingum um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hvernig þau tengjast hversdagslífinu. Reglulega stendur Hannesarholt fyrir umræðufundum þar sem sjálfbærnimál eru rædd. Sérfræðingar frá atvinnulífinu, frjálsum félagasamtökum, háskólasamfélaginu og úr röðum almennings koma saman og ræða þessi mikilvægu mál við fundargesti á jafningjagrundvelli. Fundirnir eru sendir út í streymi og eru aðgengilegir á netinu, bæði meðan á þeim stendur og áfram síðar.

Hannesarholt skuldbindur sig til að skapa sem minnst vistspor. Allar ljósaperur í Hannesarholti eru LED, allar rafhlöður Hannesarholts eru endurhlaðanlegar. Eldhúsið kaupir íslensk aðföng eftir fremsta megni, býður upp á fisk og grænmetisrétti, hlaðborð eru aldrei til staðar í Hannesarholti. Síðan 2022 hefur allur úrgangur frá starfsemi Hannesarholts farið í endurvinnslu eða moltu en ekkert í urðun.

Hannesarholt mismunar ekki fólki á grundvelli kynþáttar, litarháttar, trúarbragða, kyns, kyntjáningar, aldurs, þjóðernisuppruna, fötlunar, hjúskaparstöðu eða kynhneigðar í starfsemi sinni.

Hannesarholt leitast til við að vera fyrirmynd fyrir aðrar sjálfstæðar menningarstofnanir.